Verndum lundann

11.Júní'09 | 07:48

Frosti

Eftir fréttirnar þann 9. júní 2009 um ástand lundastofnsins varð ég þungt hugsi.  Ég velti fyrir mér að ef ástand stofnsins er eins og lýst var af starfsmanni Náttúrustofu Suðurlands þá þurfum við virkilega að hugsa okkar gang.

Fuglaveiðar hafa verið stundaðar frá upphafi byggðar í Vestmannaeyjum og þar með lundaveiðar einnig og hefur hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar verið höfð að leiðarljósi þann tíma. 

,,Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. 
Meginhugmyndin að baki sjálfbærri þróun, eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, er einföld og alls ekki ný af nálinni. Hún er tvíþætt, í fyrsta lagi að ganga ekki óhóflega á forða náttúrunnar heldur nýta auðlindir hennar á hófsaman hátt og þá helst þannig að þær nái að endurnýja sig.  Í öðru lagi felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda að þær skuli ekki nýttar á þann hátt að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt."
 
(visindavefur.hi.is)

Nú er svo komið að hætta virðist vera á að lundastofninn nái ekki að endurnýja sig , nýtingin sé ekki sjálfbær lengur og nú ber að bregðast við því.

Rök fyrir lundaveiðum þetta árið eru léttvæg miðað við þá ábyrgð sem hvílir á okkur um verndun lundastofnsins til framtíðar með það að markmiði að geta stundað sjálfbæra nýtingu á stofninum í framtíðinni.

Sjófuglasérfræðingur Náttúrustofunnar lýsti því hvernig lundastofninn hefur minnkað gríðarlega undanfarin ár líklega vegna breytinga í umhverfinu. Hann kallaði það rányrkju ef veiðar yrðu stundaðar þetta árið og þær yrðu á engan hátt sjálfbærar og Náttúrustofa Suðurlands legðist gegn veiðum þetta árið.

Ég tel að bæjarstjórn Vestmannaeyja eigi að fara eftir þessum tillögum Náttúrustofunnar og heimila aðeins sjálfbæra nýtingu á náttúruauðlindum Vestmannaeyja og stöðva því lundaveiðar þetta árið.  Með því að leggjast gegn tillögum sérfræðinga Náttúrustofunnar myndi bæjarstjórn skaða ímynd og hagsmuni Vestmannaeyja til skemmri og lengri tíma og leggja blessun sína á ósjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.  Ég er hræddur um að það gæti á sama tíma skaðað sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum sem leggja mikið upp úr sjálfbærri og ábyrgri nýtingu sjávarafurða og markaðssetja sig þannig. 

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er sjálfsögð og skynsamleg en að ganga á stofna sem eru í hættu er alger óráðsía.

Að sama skapi og ímynd Vestmannaeyja bæri skaða af því að heimila lundaveiðar þetta árið, myndi stöðvun lundaveiða þetta árið styrkja ímynd Vestmannaeyja sem fyrirmyndarsamfélag sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda á sjó, lofti og landi.

Til þess að komast til móts við bjargveiðimenn vil ég leggja til að Vestmannaeyjabær endurgreiði bjargveiðimannafélögunum nytjaréttargjald af úteyjunum og þar sem það á við. Þeir sem hafa stundað lundaveiðar vegna peninganna verða að finna aðrar leiðir til þess að afla fjár.

Þeir hafa stundað lundaveiðar vegna sportsins geta áfram stundað úteyjasport án þess að ganga á stofna í hættu, eða jafnvel veiða og sleppa eins og þykir orðið sjálfsagt í laxveiði í dag.

Ég vona því að við ákvarðanatöku um þetta mál hafi bæjarstjórn kjark til að hafa umhverfislega, efnahagslega og heildarhagsmuni Vestmannaeyja til framtíðar að leiðarljósi og að bjargveiðimenn sýni málinu skilning eins og þeir hafa alla tíð gert og haft sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi.  Því tel ég að stöðvun veiða þetta árið verði niðurstaða sem allir ættu að geta fallist á.

Frosti Gíslason
Höfundur er áhugamaður um náttúru Vestmannaeyja

 
Ef fólk er fylgjandi því að vernda lundann getur það skráð sig í hópinn á Facebook, Verndum lundann:
http://www.facebook.com/home.php#/group.php?gid=89352397335&ref=ts

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.