Sveitarstjóra greinir á um fyrningarleið

26.Maí'09 | 08:48
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir áform ríkisstjórnarinnar um að beita fyrningarleiðinni hafa þegar valdið skaða í Vestmannaeyjum.
„Fyrirtæki sem sjá fram á það að ríkisstjórnin ætli að setja þau á hausinn á sjö árum, hætta ósjálfrátt að sinna þróunar- og uppbyggingarvinnu," segir hann. „Við sjáum þetta til að mynda í því að nær öllum verksmiðjuframkvæmdum, uppbyggingu á vinnsluhúsum og endurbótum á skipum og fleira, hefur verið slegið á frest meðan þessi óvissa ríkir."
Hann nefnir sem dæmi að Vinnslustöðin hafi hætt við að rífa eitt vinnsluhúsa sinna og reisa nýtt vegna óvissunnar. „Það er verkefni upp á mörg hundruð milljónir og hefði skaffað ársstörf fyrir tugi einstaklinga," segir Elliði.

Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur og núverandi sveitarstjóri Dalabyggðar, er ekki sammála Elliða.

„Það er ekki meira öryggi að búa við það að nær allt atvinnulíf eins sveitarfélags velti á geðþótta eins útgerðarmanns," segir Grímur. Hann er fylgjandi fyrningarleiðinni eins og Vinstri grænir setja hana upp en þá er einn þriðji af innkölluðum kvóta bundinn við heimasvæði.

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir einnig mikið óöryggi fylgja kvótakerfinu og að sveitarstjórnarmenn hafi víða lent í þeirri óþægilegu stöðu að sjá sig knúna til að leggja fjármagn inn í fyrirtæki sem starfa í heimabyggð með það fyrir augum að tryggja atvinnulífið á svæðinu. En síðan hafi fyrirtæki hætt starfsemi þar nánast í kjölfarið, ýmist vegna þess að ekki hafi verið rekstrargrundvöllur fyrir þau lengur eða þá að þau hafi hreinlega verið seld. „Við settum 180 milljónir í slíkt fyrirtæki sem síðan hætti starfsemi einu og hálfu ári síðar og öllu starfsfólki var sagt upp," segir hann.

Ómar Már segir sveitarstjórn Súðavíkurhrepps taka heilshugar undir þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera hlutlausa og faglega úttekt á áhrifum fyrningarleiðar í samræmi við stjórnarsáttmála þar um. „Ég undrast viðbrögðin [hjá sveitarstjórnarmönnum] og velti því fyrir mér þegar ég heyri henni andmælt af slíku offorsi að sveitarstjórnarmenn kunni að vera undir pressu frá útgerðarmönnum um að standa vörð um þeirra hag því annars selji þeir aflaheimildirnar í burtu. En þrátt fyrir þær mótbárur þá vænti ég þess að sjávarútvegsráðherra standi við þau áform að láta gera þessa úttekt."

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is