Vatn frá Eyjum til arabalanda

25.Maí'09 | 08:09

vestmannaeyja Vestmannaeyjabær Heimaklettur

STEFNT er að því að fyrsta vatnssendingin fari frá nýju fyrirtæki í Vestmannaeyjum í næsta mánuði. Áfangastaðurinn er í arabalöndunum.
Einhvern tímann hefði það þótt í frásögur færandi að Eyjamenn væru aflögufærir með vatn og það í hæsta gæðaflokki, eins og Elliði Vignisson bæjarstjóri segir. Þetta er eigi að síður staðreynd, en auk gæða vatnsins skipta hafnaraðstæður í Eyjum og lega eyjanna miklu máli í þessum stórhuga áformum.

Ekki sama mynd og fyrir ári
Það er fyrirtækið Iceland Global Water sem stendur að vatnsútflutningunum. Guðjón Engilbertsson er í forsvari fyrir fyrirtækið í Vestmannaeyjum og segir að stefnt hafi verið að því að fyrsti farmurinn færi í júnímánuði. Hann segir að enn standi vonir til að þau áform standist. Enn sé þó eftir að hnýta nokkra lausa enda og sannarlega sé myndin ekki hin sama og var fyrir um ári þegar lagt var af stað.

„Vatnið verður flutt héðan í belgjum, sem settir eru í gáma, til Rotterdam og þaðan áfram til arabalanda," segir Guðjón. „Við erum reyndar búnir að senda prufusendingar, það gekk ágætlega og vatnið líkaði vel. Við erum með mjög gott vatn og þó að flutningurinn kosti mikið gengur dæmið vonandi upp," segir Guðjón.

Fyrirtækið hefur byggt verksmiðjuhús í Friðarhöfn og segir Guðjón að aðeins sé eftir að ganga frá gatnagerð að húsinu. Fyrirhugað er að minnsta kosti fjórir starfi við vatnsútflutninginn í Eyjum þegar allt verður komið á fulla ferð.

Ný plastleiðsla
Vatnið er keypt af Hitaveitu Suðurnesja sem rekur vatnsveitu Eyjamanna. Það er tekið í lind við Syðstu-Mörk, sem er einn af Merkurbæjunum undir Eyjafjöllum. Þaðan fer vatnið með lögn í jörðu niður á Landeyjarsand þaðan sem það fer um nýja plastleiðslu neðansjávar til Vestmannaeyja.

„Fyrir 50 árum eða svo hefði ekki nokkrum manni dottið það í hug að vatnsútflutningur yrði einhvern tímann veruleiki í Vestmannaeyjum," segir Elliði bæjarstjóri. „Þetta virðist hins vegar ætla að verða niðurstaðan. Vatnið er einstaklega gott, ferskt bergvatn og án þess að ég þekki rekstrarútreikninga þessa fyrirtækis myndi ég halda að aðstæður hér væru mjög hagstæðar því hér er hægt að landa vatninu nánast beint í skip," segir Elliði.

Guðjón rekur minni til þess þegar brunnar voru við nánast hvert hús og vatni safnað í rennur af húsþökum. Ef ekki var nóg vatn var hringt eftir vatnsbílnum.

Barnaherbergi í stað brunna
Elliði nefnir að alls staðar hafi verið vandræði með ferskvatnið fyrir aðeins 40 árum. „Stórir og miklir brunnar voru við húsin og það er algengt ef maður kemur inn í gamalt hús hér í Eyjum að búið sé að grafa brunninn út og gera þar barnaherbergi eða annan íverustað," segir Elliði. „Sérstakur kúltúr tengdist vatninu og hann viðgengst í rauninni enn hjá mörgum okkar því í öllum úteyjunum er neysluvatnið tekið af þökum veiðihúsa, þaðan í tank og í kranann."

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%