Verður Surtseyjarsýningin opnuð um goslokahelgina?

20.Maí'09 | 08:26

Surtsey

Margir Eyjamenn eru nú orðnir langeygir eftir því að Surtseyjarsýningin GENSIS – Jörð úr ægi, sem sett var upp í Þjóðmenningarhúsinu verði flutt til Vestmannaeyja.  Sýningin sem fengið hefur mikið lof, rekur myndunar- og þróunarsögu Surtseyjar fram til dagsins í dag og spáir fyrir um framtíð eyjarinnar og þróun lífríkis hennar næstu 120 árin.
Á sýningunni er beitt nýjustu sýningartækni og margmiðlun við kynningu á ómetanlegum niðurstöðum vísindarannsókna í Surtsey. Henni er ætlað að höfða jafnt til forvitinna barna sem fræðimanna og þess er vænst að gestir skynji kraft eldsumbrotanna um leið og þeir fræðast um eðli þeirra og sköpunarverk. Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir "Gert er ráð fyrir að sýningin verði síðar flutt til Vestmannaeyja og sett upp í nýrri Surtseyjarstofu, sem þar mun rísa árið 2008". Ekkert bólar hinsvegar enn á þessari merkilegu sýningu sem orðið getur enn ein skrautfjöðurin í ferðamannahatt Vestmannaeyja.

Að sögn Elliða Vignissonar bæjarstjóra hefur málið verið í vinnslu í um það bil tvö ár. "Vorið 2007 varð það samkomulag milli Vestmannaeyjabæjar og Umhverfisráðuneytisins að opnun Surtseyjarstofu og Surtseyjarsýningarinnar yrði frestað um eitt ár og fjárframlögin notuð til að kaupa og setja upp veglega sýningu í Þjóðmenningarhúsinu. Hluti af þessu samkomulagi var að þegar sýningin yrði tekin niður í Reykjavík yrði hún flutt til Vestmannaeyja. Því miður er ekki enn útséð með það hvenær af því getur orðið".

Nú þegar hefur þó verið opnað útibú í Vestmannaeyjum frá Umhverfisstofnun og ráðinn þangað starfsmaður sem hefur málefni Surtseyjar að megininntaki. Elliði segir að höfuðástæðan fyrir því að ekki hefur enn náðst niðurstaða í málið þá að ríkið leiti nú allra leiða til að draga saman í kostnaði og sé þetta ein af birtingamyndum þess. "Öll hljótum við að hafa skilning á þessum vanda sem ríkið er að glíma við. Þess vegna erum við tilbúin til að leita allra leiða til þess að samþætta sjónarmið og engum dettur í hug að hægt verði að fara þá leið sem í upphafi var í skoðun eins og nýbygging og dýr leiga."

Aðspurður um það hversu mikið fé vanti til að af þessu geti orðið segir Elliði að það vanti um 10 milljónir til að af þessu geti orðið. "Það er allt upp á borðinu í leit að lausnum og allir sammála um að verkefnið sé brýnt enda Eyjan þegar komin inn á heimsminjaskrá UNESCO fyrir sérstæða náttúru fyrst allra staða á Íslandi, segir Elliði en bætir þó við að Vestmannaeyjabær styðji ekki verkefnið nema að sýningin verði sett upp í Vestmannaeyjum. "Umhverfisstofnun hefur skoðað einhver húsnæði hér í Eyjum og viljinn hjá þeim er mikill til að gera þetta vel. Fjármagnið sem þau hafa til umráða leyfir þó ekki nema mjög takmarkaðan rekstur og nánast ekkert sýningarhald. "Afstaða okkar til þessa máls er sú að vart sé annað ásættanlegt en að sýning sem sett verður upp hér í Vestmannaeyjum verði síst minni en sú sem sett var upp í Reykjavík. Ég hef líka gert Umhverfisráðherra grein fyrir því að af okkar hálfu komi til greina að ríkið segi sig alfarið frá málefnum Surtseyjar og Vestmannaeyjabær annist rekstur hennar rétt eins og annarra úteyja í Vestmannaeyjaklasanum og þá á forsendum almennra nytja og ferðamennsku. Það taldi ráðherra og hennar fólk þó ekki góðan kost og því er svo sem hægt að vera sammála enda væri það slæmt að þurfa að hætta við friðlýsingu á UNESCO svæði vegna 10 milljóna" sagði Elliði og bætti því við að vonir hans stæðu til þess að ákvörðun yrði tekin á næstu dögum og hann vildi stefna á að opna sýninguna um goslokahelgina.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

24.Desember'17

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2017.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is