Bæjarstjórn íhugar kaup á hlut í Sparisjóði Vestmannaeyja

20.Maí'09 | 18:07

Sparisjóðurinn

Í kvöld fer fram fundur í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Meðal þess sem þar verður fjallað um er málefni Sparisjóðs Vestmannaeyja og hugsanlega aðkomu Vestmannaeyjabæjar að sjóðnum.
Eins og kunnugt er setti ríkisstjórn Íslands lög vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði sl. haust sem heimilaði ríkissjóði að leggja sparisjóðum til fjárhæð sem nemur allt að 20% af eigin fé. Í tilkynningu viðskiptaráðuneytisins hinn 21. mars sl. kom fram að Sparisjóður Vestmannaeyja væri meðal þeirra sparisjóða sem ríkið hefði gripið til aðgerða til að treysta rekstur hjá. Eigið fé Sparisjóðs Vestmannaeyja var í árslok 2007 rúmir 1,8 milljarðar króna. Fimmtungur þess er um 370 milljónir króna, sem væri samkvæmt fyrrnefndum lögum hámarksfjárhæð þess sem ríkissjóður myndi leggja sparisjóðnum til.

Á aðalfundi Sparisjóðsins í seinustu viku voru lagðir fram ársreikningar. Niðurstaða rekstrarreiknings árið 2008 er tap upp á rúmlega 1,4 milljarða. Þetta merkir að eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Vestmannaeyja er komið niður í 3,85% og því undir hinu lögboðna 8% hlutfalli. Stjórn Sparisjóðsins hefur seinustu mánuði verið að vinna að viðbrögðum til að verja sjóðinn fyrir afleiðingum bankahrunsins og þar með lækkun eiginfjárshlutfalls. Meðal annars var gripið til verulegrar aukningar stofnfjárs auk þess sem sjóðurinn sótti um stofnfjárframlag til ríkisvaldsins byggt á neyðarlögunum nr. 125/2008. Í athugasemdum endurskoðanda með ársreikningi segir: "Ef aðgerðir stjórnar ganga ekki eftir og ríkisvaldið ákveður að nýta ekki heimildina í neyðarlögunum til aukningar stofnfjár í Sparisjóði Vestmannaeyja verður að draga rekstrarhæfi Sparisjóðsins í efa."

Auk þess að sækja um stofnfjárframlag til ríkisvaldsins hefur stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja átt viðræður við Vestmannaeyjabæ, Lífeyrissjóð Vestmannaeyja og Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum um eignarlega aðkomu þessara aðila. Nú þegar hafa Lífeyrissjóðurinn og Vinnslustöðin samþykkt aðkomu upp á 150 milljónir samtals. Búast má við því að Vestmannaeyjabær hyggi á sambærilega aðkomu en fyrir fundinum liggur svohljóðandi tillaga:

Að gefnum neðangreindum skilyrðum samþykkir Bæjarstjórn Vestmannaeyja að kaupa stofnfé að fjárhæð kr. 100.000.000 - í Sparisjóði Vestmannaeyja. Kaupin eru séð sem hluti af fjárstýringu bæjarsjóðs og skal greiðslan færast af fjárfestingarsjóðum bæjarfélagsins og hefur hún því ekki áhrif á þjónustustig Vestmannaeyjabæjar og kallar ekki á hagræðingaaðgerðir.

Skilyrðin sem bæjarstjórn setur fyrir aðkomu eru:
1. Ríkissjóður kemur að stofnfjáraukningu í sjóðnum í samræmi við 2. gr. laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

2. Sparisjóður Vestmannaeyja áréttar með yfirlýsingu þá áætlan að Sparisjóður Vestmannaeyja verði rekin sem sjálfstæð eining innan samfélags Sparisjóða með höfuðstöðvar í Vestmannaeyjum.

3. Sparisjóður Vestmannaeyja samþykkir að hlutast til um að öllum bæjarbúum verði gefið tækifæri á að kaupa hlut í Sparisjóð Vestmannaeyja á nafnvirði fyrir allt að 50 milljónum.

Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í viðtali við eyjar.net að honum þætti líklegt að tillagan verði samþykkt. "Auðvitað er það ekki draumastaðan að fjármálastofnun sem hér hefur verið rekin frá 1942 sé nú í þessari stöðu. Þetta gefur okkur Eyjamönnum hinsvegar tækifæri til að vinna okkur til baka að þeim gildum sem hafa nánast alla tíð verið grunnurinn að starfsemi Sparisjóðsins. Á sínum tíma var efling Sparisjóðsins séð sem efling einstaklingsins í Vestmannaeyjum til mannsæmandi lífs. Barátta Sparisjóðsins var og á að vera barátta fyrir bættum kjörum Eyjabúa. Það er okkar hlutverk að standa vörð um þennan grunn og það viljum við gera áfram. Við skulum líka hafa hugfasta þá stefnu stofnenda Sparisjóðsins að líta á sjóðinn sem eins konar sjálfstæðisbaráttu okkar og draga úr fjárhagslegu áhrifavaldi annars staðar frá. Hugmyndin var sú að í Sparisjóðnum væri fé Eyjamanna, þeirra eigið afl, til þeirra hluta sem gera skal og nauðsyn krefst". Elliði benti einnig á að Vestmannaeyjabær hefði á seinustu árum verið að hagræða í eignasafni sínu og hefði til að mynda selt hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og megnið af fasteignum sínum. "Í raun eru þessi kaup bara áframhald á þeirri fjárstýringu sem við höfum verið að sinna í kjölfarið á eignarsölu. Við erum með samfélagslega sjóði sem Eyjamenn hafa byggt upp á tugum ára víða í bankakerfinu. Við töpuðum engu í bankahruninu og leitum allra leiða til að dreifa áhættunni. Við höfum þá trú að Sparisjóður Vestmannaeyja eigi eftir að skila bæjarsjóði beinum arði auk þess sem ekki þarf að efast um annað samfélagslegt mikilvægi þess hornsteins í héraði." Aðspurður sagði Elliði að ekki væri víst að Vestmannaeyjabær myndi stefna á að eiga hlut í Sparisjóðnum um alla ókomnaframtíð. "Þessi aðkoma er rétt í þessu umhverfi. Hvað síðar verður veit maður ekki og ákvarðanir verða teknar með hliðsjón af heildar hagsmunum Vestmannaeyjabæjar".

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.