Sú eignaupptaka sem mun eiga sér stað á næstu árum mun skilja fyrirtækin eftir yfirskuldsett og þar með gjaldþrota

18.Maí'09 | 08:50
Ýmsar greinar um sjávarútvegsmál hafa verið að birtast nú undanfarið.  Þá hefur og umræða á öldum ljósvakans að miklu leyti snúist um þessa grunnstoð íslensks þjóðlífs.  Virðingarleysi það sem ég hef orðið var við í þessari umfjöllun  hefur algerlega gengið fram af mér.
Jórunn Einarsdóttir skrifar á Eyjamiðlunum að nú sé hræðsluáróðurinn kominn í gang aftur og að þar standi að baki ráðamenn hér í Eyjum.  Hún nefnir að atvinnulífið þurfi ekki allt að snúast í kring um sjávarútveg,  „enda gerist hlutirnir í Eyjum bæði ofan og neðan við Strandveg"  af nógu sé að taka.  Sem dæmi um atvinnuflóruna nefnir hún orðrétt:

„Við höfum yfir að ráða öflugum menntastofnunum og þekkingasetri. Hér er staðsett sjúkrahús og heilsugæsla, gríðarlega vel tækjum búin, elliheimili og sambýli svo fátt eitt sé nefnt. Hér er fjölbreytt verslun og önnur þjónusta, bæði opinber og einkarekin." 

Jórunni finnst heldur mikið púður fara í kvótaumræðuna og sárnar að ekki sé meira rætt um undantalin atriði. Þeir sem eitthvað skynbragð bera á atvinnulíf okkar bæjarfélags átta sig líklega á þeirri staðreynd að ekkert af ofantöldu fæst þrifist hér í Eyjum án sjávarútvegs.  Vissulega eru þörf störfin sem þjónustugreinum fylgja en þar framleiðum við ekki neitt.  Ef framtíðarsýn Vinstri grænna snýst um að gera Eyjar að einhverri þjónustubyggð þá tel ég að þar séu menn á villigötum.

Jórunn undrast að nokkur hafi áhyggjur af yfirvofandi fyrningaraðgerðum ríkisstjórnarinnar.  Engum eigi að detta annað til hugar en að þar verði stigið varlega til jarðar í hverju skrefi.    Viðtal við Þórólf Matthíasson í Kastljósinu á miðvikudagskvöld sýnir aftur á móti einmitt fram á hið gagnstæða þar sem hagfræðingurinn segir fullum fetum að það sé í góðu lagi að sjávarútvegurinn fari á hausinn, það komi þá bara önnur fyrirtæki sem sjái um veiðar og vinnslu í framtíðinni.  Eigum við að spjalla aðeins um elliheimilið og sjúkrahúsið á meðan þetta gengur yfir? Ég held ekki.
Þá sendir Róbert Marshall útgerðarmönnum kaldar kveðjur.  Hann beinir spjótum sínum að stærstu útgerðarfyrirtækjunum okkar hér í Eyjum með hótunartón.  Þar furðar hann sig á því að forsvarsmenn þeirra hafi setið fund um samgöngumál, eins og þeim hafi nokkuð komið það við, ásamt því að lýsa yfir stríði við samtök útvegsmanna. 

Ég sat fund fyrir kosningar með þeim Jórunni og Róberti og lýsti áhyggjum mínum af stöðu mála.  Ég spurði á þessum fundi hvort þau gætu sagt við mig sem hinn almenna bæjarbúa sem á allt undir útvegsfyrirtækjum og þá einnig þeim aðilum sem að þeim fyrirtæknunum koma að við þyrftum ekki að óttast um stoðir atvinnulífsins hér á staðnum, að fyrirtækin hér ættu ekki á hættu að að þeim yrði veist með þeim hætti að hætta yrði á gjaldþroti.   Svör við þessum spurningum fékk ég ekki þá, en tel mig hafa fengið þau núna.  Fyrningarleið skal farin hvað sem tautar og raular og fari fyrirtækin á hausinn þá getum við alltaf huggað okkur við að hafa skóla, sjúkrahús og elliheimili.

Sá hræðsluáróður sem rekinn var hér fyrir kosningar af Sjálfstæðismönnum á fullan rétt á sér í dag.  Til valda er komið fólk sem telur réttlætið felast í því að taka fiskveiðikvótann af núverandi handhöfum og skipta honum síðan út á „réttlátan" hátt.  Reyndar hefur hvergi heyrst hvernig því skuli háttað né heldur hvernig réttlætið muni ná fram að ganga með þessari aðgerð.  Öllu máli skiptir að koma núverandi handhöfum í þrot svo byggja megi upp nýjan sjávarútveg á hinu nýja Íslandi.  


Þessi leið mun stórskaða sjávarútveginn.  Sú eignaupptaka sem mun eiga sér stað á næstu árum mun skilja fyrirtækin eftir yfirskuldsett og þar með gjaldþrota.  Gjaldþrot sjávarútvegsins getur svo hæglega sett bankakerfið á hliðina aftur.

Mér er alveg sama hversu oft einhver hefur spilað í brekkusöng eða látið börnin sín spranga.  Þeir sem standa fyrir jafn skelfilegum aðgerðum og hér um ræðir verða aldrei Vestmannaeyingar í mínum augum.  Þetta er aðför að Vestmannaeyjum, landsbyggðinni.

Jarl Sigurgeirsson

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.