Glapræði að eyðileggja markað

13.Maí'09 | 08:27

Þorskur fiskur

ÚTVEGSMENN í Vestmannaeyjum segja glapræði að eyðileggja markaði sem tekið hafi áratugi að byggja upp, eins og ísfiskmarkaðina í Bretlandi og Þýskalandi. Þá geti fiskvinnslufyrirtæki hér á landi ekki tekið við meira hráefni nema ráða erlent vinnuafl til að vinna fiskinn og því sé það ekki lausn á atvinnuvanda þjóðarinnar að takmarka útflutninginn.

Ríkisstjórnin mun knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis, að því er fram kemur í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Það á að gera með því að skoða hóflegt útflutningsgjald á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað. Vestmannaeyjar hafa löngum verið öflugar í þessum útflutningi. Útvegsmönnum þar líst illa á þessa stefnu. „Ég geri út þrjú skip á ferskfisk, þau landa vikulega í góðu samstarfi við fiskverkendur hér. Þeir fá nægilegt hráefni. Við dreifum aflanum á innlenda og erlenda fiskmarkaði og til fiskverkenda," segir Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá útgerðarfélaginu Berg-Hugin. „Við höfum fjárfest í þremur nýjum skipum til að afla þessara tekna og þurfum að vinna á hæsta mögulega verði. Það er verkefnið hjá mér sem útgerðarmanni og sjómönnunum að gera sem mest verðmæti úr aflanum."

„Það er ekki mannskapur í landi til að vinna þetta, það er stóra málið, nema Jóhanna ætli að flytja inn fleiri Pólverja og Letta til að vinna fiskinn," segir Þórður Rafn Sigurðsson, formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja. Hann segist ekki vita betur en mikil vinna sé í fiskverkun í Eyjum og allir hafi vinnu. Fólk fáist ekki ofan af landi í fiskvinnu. Fiskverkendur séu meðal þeirra sem flytji óunninn fisk úr landi, þeir geti ekki unnið allan sinn afla. „Það er grátlegt til þess að hugsa að Íslendingar vilja ekki vinna í fiski, það þykir ekki nógu fínt."

Forsenda einstaklingsútgerða
„Það væri glapræði að kasta frá sér þessum mörkuðum sem við erum búnir að vinna upp í 60 til 70 ár. Einstaklingsútgerðir væru ekki til í landinu ef þessara markaða nyti ekki við," segir Þórður.

Kerfi sem sett var upp í febrúar til að auka aðgang fiskvinnslunnar að afla sem flytja á óunninn út hefur ekki virkað, meðal annars vegna þess hversu hátt verð útgerðarmenn setja upp. Þórður segir að það komi fyrir að lágmarksverðið sé of hátt en vekur einnig athygli á því að oft fáist jafnhátt verð fyrir óunninn fisk og unninn.

Í hnotskurn
» Flutt hafa verið út tæp 42 þúsund tonn af óunnum fiski með gámum og fiskiskipum frá 1. september, 6% meira en á sama tíma á síðasta ári.
» Tæplega þriðjungur fer frá Vestmannaeyjum.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.