Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur fyrningarleið í sjávarútvegi beina aðför að atvinnulífi Vestmannaeyja

12.Maí'09 | 08:26

Kap ve VSV

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í gær samhljóða ályktun vegna boðaðrar fiskveiðistefnu stjórnvalda og þá sérstaklega hinni svokölluðu fyrningarleið í sjávarútvegi sem felur í sér innköllun fiskveiðiheimilda til ríkisins á nokkrum árum.

Ályktunina má lesa hér:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja varar sterklega við svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi og telur hana beina aðför að atvinnulífi Vestmannaeyja og þar með að byggð í Eyjum. Bæjarstjórn hafnar því harðlega að þessi boðaða fyrningarleið nýrrar ríkisstjórnar verði farin. Þess í stað hvetur bæjarstjórn Vestmannaeyja ríkisstjórn Íslands til að vinna með hagsmunaaðilum og sveitarfélögum í landinu að því að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið þannig að sanngirni sé gætt. Sanngirnin er ekki fólgin í því að setja fyrirtæki og sveitarfélög á hausinn eins og boðað er í sáttmála ríkisstjórnar.

Fiskveiðistjórnunarkerfið er mannanna verk og bæjarstjórn Vestmannaeyja telur mikilvægt að það sé sífellt til endurskoðunar en þó þannig að stöðugleika sé gætt, bæði fyrir fyrirtækin, starfsmennina og ekki síst íbúa sveitarfélaga sem eiga allt sitt undir.

Vestmannaeyingar hafa ávallt verið samstíga um þá skoðun að sjávarútvegur sé lífæðin og um leið grundvallaratvinnugrein byggðarlagsins.. Atvinnulíf og byggð í Eyjum hefur á undanförnum árum ítrekað verið sett í óvissu vegna pólitísks ágreinings um fiskveiðistjórnunarkerfið. Nú er mál að linni og sjávarútveginum verði gefið tækifæri til að vaxa með eðilegum hætti til framtíðar, þjóðarbúinu öllu til heilla.

Vilji bæjarstjórnar Vestmannaeyja og hagsmunaðila í Vestmannaeyjum er að skapa vinnufrið um sjávarútveg - útgerð og fiskvinnslu þannig að horfa megi til lengri tíma. Hin sameiginlega sannfæring er að sjávarútvegurinn gegni lykilhlutverki í endurreisn hagkerfisins og það sé ólíðandi ábyrgðarleysi að ráðast að undirstöðum burðaráss íslensks atvinnulífsins nú þegar þjóðin þarf á öllu sínu að halda.

Bæjarstjórn minnir á að þegar aflaheimildir í þorski voru skornar niður þá kom sú skerðing verst niður á byggðarlögum eins og Vestmannaeyjum, Snæfellsbæ og Grindavík. Sjávarbyggðirnar eru ekki óvanar að glíma við sveiflur í náttúrunni og hafa tekið slíkum höggum oft og ítrekað. Þess frekar er enn ríkari ástæða til að frábiðja sér aðför af völdum stjórnmálamanna.
Veiðar og vinnsla sjávarafurða hefur verið lifibrauð Eyjamanna í gegnum aldirnar. Fyrirtæki í bæjarfélaginu hafa verið öflug í því að afla aukinna veiðiheimilda en jafnframt því skuldsett sig verulega. Eftir langt og erfitt tímabil er atvinnuástand í Vestmannaeyjum nú mjög gott, og því er það skylda bæjarstjórnar að standa vörð um þau fyrirtæki sem í sveitarfélaginu starfa. Í Vestmannaeyjum fækkaði íbúum um 20% á 18 árum allt til ársins 2008. Þá varð kærkomin fjölgun íbúa. Síðan þá hefur íbúum haldið áfram að fjölga og fyrst og fremst skýrist það af því að hér í Eyjum hafa allir lagst á eitt til að skapa atvinnu og halda fyrirtækjum gangandi. Þannig hefur tekist að snúa vörn í sókn og hefur það að langmestu gerst á forsendum sjávarútvegsins. Keppikefli Eyjamanna er að byggja áfram á grunnstoðum sjávarútvegsins. Fyrningaleið stjórnvalda er andstæð hagsmunum Vestmannaeyja og er því alfarið hafnað af bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Elliði Vignisson (sign)
Guðlaugur Friðþórsson (sign)
Gunnlaugur Grettisson (sign)
Páley Borgþórsdóttir (sign)
Páll Marvin Jónsson(sign)
Páll Scheving Ingvarsson (sign)
Stefán Jónasson (sign)

Ályktunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.