Sátt um sjávarútveginn

22.Apríl'09 | 16:49

Eygló

Íslenskt atvinnulíf vegur salt í umróti efnahagsþrenginganna. Öðru megin er grýtt og erfið leið út úr þrengingunum, byggð á 20% skuldaleiðréttingu almennings og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hinum megin er hyldýpi gjaldþrota, eignaupptöku, skattahækkana og miðstýringar. Sjávarútvegurinn stendur einnig á tímamótum. Íslenska þjóðin hefur aftur gert sér grein fyrir því að eina leiðin út úr þrengingunum er raunveruleg verðmætasköpun í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi. Þannig öflum við raunverulegra tekna til að standa undir því öfluga velferðarkerfi sem Framsóknarflokkurinn hefur byggt upp á síðustu árum og áratugum.

 

Síðustu misseri hefur sjávarútvegurinn orðið hornreka í íslensku samfélagi. Öll áherslan var á pappírsverðmætin í bönkunum í Reykjavík og framtíðarsýnin var sú að hér gætu allir stundað þægilega innivinnu við að færa tölur milli dálka í Excel, grætt á daginn og grillað á kvöldin. Nú hefur sjávarútvegurinn aftur fengið þann sess sem honum ber og að honum verðum við að hlúa.

Framsóknarflokkurinn kom á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði. Það hefur gert okkur kleift að umgangast þessa mikilvægu auðlind á skynsaman og sjálfbæran hátt. Hins vegar verður kerfi á borð við þetta ávalt að vera í endurskoðun, en um breytingar verður að skapast almenn sátt. Aðeins þannig er hægt að standa vörð um starfsöryggi sjávarútvegsfyrirtækja sem mynda kjölfestuna í atvinnulífi Eyjanna og fjölmargra sjávarbyggða hringinn í kringum landið.

Við verðum einnig að hjálpa greininni að þróast. Styðja verður við rannsókna- og þróunarstarf og má þar nefna öflugt starf sem fram fer í Þekkingarsetrinu. Nýjungar í veiðum og vinnslu, m.a. á humri og uppsjávarfiski geta stóraukið aflaverðmæti auk þess sem nýtingu aukaafurða á borð við slóg og afskurð má auka verulega. Þá er tímabært að huga að nýjum orkugjöfum á borð við lífdísel og raforku til að knýja fiskiskipaflotann, en allt getur þetta aukið hagkvæmni og arðsemi sjávarútvegsins.

Framsóknarflokkurinn mun standa vörð um sjávarútveg sem eina af grunnstoðum íslensks atvinnulífs. Greinin verður að fá að þróast og dafna og um hana verður að ríkja sátt. Þeirri sátt hyggst Framsóknarflokkurinn koma á með samvinnu útgerðar, vinnslu og almennings.

Eygló Harðardóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.