Silfur Egils og heilsugæslan í Eyjum

19.Apríl'09 | 21:06

Goggi gella

Það var margt forvitnilegt í Silfri Egils í dag og kannski ótrúlegast að heyra enn einu sinni Sverrir Hermannsson gefa lýsingu á öllu því, sem átti sér stað á bak við luktar dyr hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég segi bara enn einu sinni: þetta kemur ekki á óvart.

Það sem hins vegar kemur mér verulega á óvart er, að enn virðist fjórðungur þjóðarinnar vera tilbúin að kjósa þennan flokk, þrátt fyrir allt það sem að undanförnu er komið fram, en reyndar hafa nú fleiri flokkar verið nefndir í þessum samanburði. Ég hef reyndar lagt það í vana minn að reyna að setja mig í spor fólks sem er að gera sér vonir um að komast í betur launuð störf, eða eitthvað embætti sem þeir sem ráða ríkjum útdeila. Þannig séð get ég vel skilið málið, ég get hins vegar alls ekki skilið fólk sem kýs svona flokka yfir okkur, að því er virðist, án þess að hafa í raun og veru oft á tíðum hugmynd um hvers vegna.

Ein spurning sem ég fékk uppi á landi í vikunni frá eldri konu, vakti sérstaka athygli mína. Eftir að hún hafði hellt úr skálum reiði sinnar vegna kreppunnar og allra þessara meintu óheiðarlegu þingmanna, þá leit hún á mig og sagði þessa furðulegu setningu: hversu heiðarlegur ertu? Merkilegt nokkuð, þá lenti ég í því fyrir mörgum, mörgum árum síðan að þurfa að svara þessari spurningu, en þarf aðeins að rifja það betur upp, en ætla að svara henni með grein seinna.

Nýlega var ákvörðunin um lokun skurðdeildarinnar í Vestmannaeyjum í sex vikur í sumar, staðfest og það án þess að nokkur þingmaður maldaði í móinn. Fyrir mitt leyti þá tel ég þessa ákvörðun ekki vera verjandi og skiptir það þá í raun og veru engu máli, hvort við erum að tala um sex vikur, sex daga eða sex klukkutíma, en um leið kemur sú spurning, hvar á þá að skera niður í staðinn? Ekki get ég nú sagt að ég sé sérfróður um það hvar annar staðar væri hægt að skera niður í heilsugæslunni, en ætla þó að orða þetta þannig: ég hefði miklu frekar viljað loka öllum okkar sendiráðum erlendis, frekar en skurðdeildinni í Eyjum í sex klukkutíma.

 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.