Gerum upp við fortíðina en kjósum um framtíðina

17.Apríl'09 | 10:39

írís

Enginn stjórnmálaflokkur hefur á jafn afdráttarlausan og hreinskiptinn hátt og Sjálfstæðisflokkurinn axlað þá ábyrgð sem hann ber á því efnhagsástandi sem nú ríkir á Íslandi. Á Landsfundi flokksins í síðasta mánuði voru rætur þessa vanda greindar, mistökin tíunduð og beðist afsökunar á þætti Sjálfstæðisflokksins í því hvernig fór.

Hafa aðrir flokkar sem hlut eiga að máli gert það sama? Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn og fór með bankamál þegar viðskiptabankarnir voru einkavæddir og nýtt fjármálakerfi varð til. Samfylkingin var í ríkisstjórn og fór með bankamál þegar þessir sömu bankar og þetta sama fjármálakerfi hrundi til grunna. Hafa þessir flokkar gert upp sinn hlut og beðist afsökunar? Nei, þeir hafa ekki sýnt þann manndóm.

Rifjum upp hvernig bankamálaráðherra Samfylkingarinnar og æðsti yfirmaður Fjármálaeftirlitsins stóð sína vakt. Hann skrifaði m.a. þetta á heimasíðu sína TVEIMUR MÁNUÐUM ÁÐUR EN BANKARNIR HRUNDU TIL GRUNNA:

"... óraði líklega engan fyrir því hve vel íslensku fjármálafyrirtækjunum ætti eftir að ganga við að hasla sér völl á erlendri grundu. Ævintýralega vel er kannski rétta orðið yfir það. Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu". Og þetta: "...mikilvægt...að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma".

Þessi "flaggskip" voru sokkin og þessar "undirstöður" brotnar tveimur mánuðum eftir að bankamálaráðherrann fyrrverandi skrifaði þessa grein. Ráðherrann lokaði heimasíðunni skömmu síðar. Hann er nú í fyrsta sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Ég rifja þetta upp vegna þess að þetta sýnir í hnotskurn hversu heilsteypt Samfylkingin er í hugleysi sínu. Flokkurinn er á harðahlaupum undan ábyrgð sinni og finnur helst skjól fyrir sjálfum sér undir væng Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þó var ráðherra í þessari sömu ríkisstjórn!  Hjálpræðisherinn syngur um þann sem "...kastar öllum mínum syndum bak við sig og ég sé þær aldrei meir". Samfylkingin getur tekið undir þennan söng og haldið áfram að láta sem nýkjörinn formaður flokksins hafi hreinlega fæðst eftir bankahrunið, - kjósendur vita vonandi betur.

Og þetta er kjarni málsins. Við þurfum að þekkja fortíðina til að geta forðast mistökin en við kjósum ekki um hana. Við kjósum ekki um það hvort við viljum bankahrun eða ekki, - það hefur þegar átt sér stað. Við kjósum um framtíðina. Við kjósum um það hvernig við eigum að koma okkur út úr þessum vanda.  Landsfundur sjálfstæðismanna gerði meira en að axla sinn hluta ábyrgðar á fortíðinni, - hann stikaði trúverðuga leið út úr vandanum til framtíðar. Þeim sem þorir að horfast í augu við sjálfan sig er best treystandi til að leiða þá vegferð. Ekki þeim sem eru alltaf á flótta undan sjálfum sér. 

Göngum hreint til verks.

Íris Róbertsdóttir
Höfundur skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.