Svo mikil eru áhrifin af upprisu Jesú Krists enn á okkar tímum að umskiptin eru altæk

12.Apríl'09 | 06:16

Kross

Kæru vinir í Kristi í Eyjum og um víðan veraldarvefinn, gleðilega páska!
Við lifum ekki öll alveg nógu góða tíma í þjóðfélaginu þótt við lifum gleðilega páska í kirkjunni. Það reynir á það næstum hvern einasta dag að við höldum í von um betri daga. Það er boðskapur dagsins að missa ekki trú og von. Gildi þá einu þótt ekkert sé enn komið fram sem styrkir þá skoðun að hið góða verði ofaná eða á einhvern hátt séu betri tímar í vændum.
Fagnaðarerindi páskanna er einmitt þess eðlis að í gær var sá dagur sem lærisveinarnir misstu trúar og vonin dvínaði. Í gær var meistarinn í helju önnum kafinn að leysa þar úr haldi þá sem hlekkjaðir voru í syndum sínum og tímabundnum dómi. Þá alla leysti hann og frelsaði þótt jafnvel lærisveinarnir hafi ekki fengið neina vísbendingu um það fyrr en í dag. Þeir sáu ekkert fyrr en þeir sáu allt í einu allt. Enginn atburður í frásögnum guðspjallanna er eins sláandi dæmi um von sem átti sér engar sérstakar vísbendingar. Það lá auðvitað heilmikið í loftinu en ekkert af því var til augljósrar vísbendingar vegna þess að þessir lærisveinar höfðu ekki skilið neitt af því enn sem meistarinn hafði sagt eða ýjað að fyrr en eftir að hann var sannarlega upprisinn.

Það er stórkostlegt að lifa samkvæmt þessu fagnaðarerindi af því að það bendir á allt í vonum. Það byggir frásögn sína á því hvernig allt kom allt í einu fram í ljósi atburðanna á páskum. Fyrir þessa páska og upprisu Jesú Krists var ekki hægt að skrifa eitt einasta guðspjall. En eftir upprisuna var hægt að skrifa öll guðspjöll veraldarinnar. Svo mikil eru þessi umskipti. Og það er hreinasta háðug ef slíkur boðskapur snertir ekki við okkur eða vekur til umhugsunar um trú og von í lífinu og kærleika í öllum verkum mannsins.

Fáir atburðir hafa snert okkur jafn djúpt og dauði þeirra fjölmörgu sem farist hafa og fundist látnir eftir jarðskjálftana í L' Aquila á Ítalíu. Og mikið var prédikun Benedikts páfa 16. sterk þegar hann nánast eggjaði menn til vonar og missa ekki vonina sem þeir eiga um eilíft líf í Jesú Kristi. Margir voru bornir til grafar og yfir þeim sungið undir berum himni þarna suðurfrá þar sem enn er hætta á eftirskjálftum. Eins og það er átakanlegt er stórkostlegt að mitt í hverfulum heimi hörmunga og slysa getum við sett von okkar á styrk og huggun og frið þess Guðs er öllu ræður á endanum og ríkir yfir öllu á jörðu og himni. Við sjáum hann næstum því fyrir okkur krjúpa við hlið ástvinanna sem krjúpa við allar líkkisturnar, stórar og smáar. Þær eru búnar til greftrunar í reit hinnar miklu vonar um raunverulegt eilíft líf í Guði. Eins og fólkið lifði í þessari von og einsog það dó í von, eins lifir það sannarlega í svo bjargfastri von að hún er trúarvissa þeirra um eilífa björgun og frelsun.

Svo mikil eru áhrifin af upprisu Jesú Krists enn á okkar tímum að umskiptin eru altæk. Nú lifum við boðskapinn um upprisuna algerlega í alvarlegustu aðstæðum og lífi allra manna. Svo mikil eru þessi umskipti. Við biðjum fyrir fórnarlömbum skjálfans og harmi slegnum ástvinum og biðjum þess að þau sjái þessi umskipti og lifi samkvæmt því í voninni og gangi fram við styrkan staf á vegi þessarar trúar. Svo mikil eru umskiptin við frásögn guðspjallanna af upprisu Jesú Krists, að ekkert er ásættanlegt nema það eitt að elska þann Guð, sem gefur lífið, tilbiðja hann og þjóna náunganum í kærleika.

Þessi hugleiðing breytir ekki öllu í lífi mannanna enda verður aldrei allt sagt í einni prédikun hvort sem er. Þessi páskahugleiðing nær ef til vill ekki eyrum jafn margra og prédikun Benedikts sextánda, né heldur hefur hún jafn mikil áhrif um allan heim og boðun þess vígða manns sem er einn helsti trúarleiðtogi veraldarinnar. Má vera að þessi hugleiðing hér á vef Eyjar.net fari ekki eins víða og magnþrungin og trúarstyrkjandi boðun fagnaðarerindisins af stóli hans heilagleika, biskupsins í Róm. En boðskapurinn er sá sami. Boðunin er sú sama. Og því er fögnuðurinn sá sami í hjörtum okkar og hann er í hjörtum allra kristinna manna um víða veröld. Umskiptin eru jafn áhrifarík af því að þau byggja á hinum eina og sama atburði eftir guðspjallanna hljóðan. Það eru umskiptin sem urðu við upprisu Drottins og hvernig þau umbreyttu allri sköpuninni og allri veröld hvers einasta manns í þessum heimi æ síðan. Látum það verka á okkur. Látum verk Jesú Krists tala hátt í okkar boðun og lífi. Lifum gleðilega páska alla okkar daga vegna þess að við erum lífsins megin, höfum lifað og munum lifa í þessari gleðiríku trú á lifandi Drottinn og Frelsara. Fyrir það sé honum dýrð um aldir alda. Gleðilega hátíð nær og fjær.

Sr.Kristján Björnsson

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%