Lagt til að opnuð verði leikskóladeild í húsnæði Hamarskóla

2.Apríl'09 | 09:54

vestmannaeyja Vestmannaeyjabær Heimaklettur

Fræðslu- og menningarráð fundaði þann 25.mars síðastliðinn og fjallaði ráðið m.a. um tillögur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs um tillögur hans til að mæta fjölgun barna á leikskólaaldri.

Sú ánægjulega þróun er í Vestmannaeyjum að íbúum er aftur farið að fjölga eftir um 18 ára tímabil mikillar fækkunar. Enn ánægjulegra er að fjölgun er í árgöngum yngstu barnanna. Afleiðingin er stækkandi biðlisti eftir leikskólaplássi. Vestmannaeyjabær hefur sett sér það markmið að öll börn á biðlista 18 mánaða og eldri séu komin inn á leikskóla að hausti. Hefur þetta markmið náðst en nú stefnir í það að um 22 börn 18 mánaða og eldri komist ekki inn á leikskóla í haust.

Á síðasta fundi ráðsins var framkvæmdastjóra falið að leggja fram tillögur úr þremur kostum að teknu tilliti til kostnaðar og faglegra þátta, tillögurnar voru eftirfarandi:
1. Að opna deild á Rauðagerði.
2. Að nýta lausar skólastofur sem eru nú staðsettar við Barnaskólann.
3. Að opna leikskóladeild í tengslum við grunn- og leikskóla.

Hugmyndin um opnun leikskóladeildar felur í sér að allur árgangur 5 ára barna í Vestmannaeyjum, sem eru í dag 48 börn, geti sótt sitt nám í gegnum leik, sem byggir á hugmyndafræði leikskólans, í húsnæði Hamarsskóla. Í tillögunni felst að þrjár skólastofur í suðurhluta skólans, ásamt gangi og anddyri yrðu nýttar fyrir deildina en þann hluta skólans er hægt að afmarka frá öðrum hlutum hússins með einföldum hætti.

Kostnaður við stofnun nýrrar deildar eins og hér er um rætt eykur verulega rekstrarkostnað Vestmannaeyjabæjar. Hvert barn á leikskóla kostar í dag um 1 milljón þannig að aukning um 22 til 25 börn er gróflega hægt að reikna sem aukningu í rekstrarkostnaði um 22 til 25 milljónir. Að mati ráðsins er það lykilatriði fyrir fjölskyldur í Vestmannaeyjum að vel sé staðið að rekstri og þjónustu leikskóla í bæjarfélaginu og að öllum börnum sem hafa til þess aldur séu tryggð leikskólapláss.

Stefna ráðsins er að öllum börnum eldri en 18 mánaða standa til boða leikskólapláss að hausti. Slíkt er að mati ráðsins ráðandi þáttur þegar fólk velur sér búsetu. Við það að opna leikskóladeild í Hamarsskóla verða laus pláss á leikskólum bæjarins fyrir u.þ.b. 22 til 25 börn sem kemur biðlista leikskólanna aftur í eðlilegt horf.

Ráðið telur eðlilegt að kostnaðaraukningu vegna fjölgunar í leikskólum verði að hluta til mætt með þeim kostnaðarsamdrætti sem eðlilegur er að verði þegar börnunum í grunnskólanum fækkar, en eins og áður hefur komið fram er nú viðbúið að svo verði. Mönnun skólanna verður ætíð að taka mið af fjölda barna hverju skólastigi.

Fræðslu- og menningarráð telur að opnun leikskóladeildar sé sú leið sem bæjaryfirvöld skuli helst líta til út frá faglegum og fjárhagslegum forsendum og er starfsmönnum skólaskrifstofu falið að vinna hana áfram. Þessi leið kallar á aukna fjármuni og af þeim sökum óskar ráðið jafnframt eftir viðbótarfjárveitingu á árinu 2009 til þess að opna leikskóladeild fyrir 5 ára börn í Hamarsskóla samtals að upphæð kr. 11.000.000.- Árlegur kostnaður af slíkri deild er um kr. 25.000.000.-

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.