Hafró telur að síldin í Eyjum verði að fá að njóta vafans

21.Mars'09 | 07:59
SÍLDVEIÐAR í Vestmannaeyjahöfn hafa verið stöðvaðar, eftir að Hafrannsóknastofnunin mæltist til þess við sjávarúvegsráðuneytið. Þorsteinn Sigurðsson, forstöðumaður nytjastofnasviðs Hafró, segir fiskifræðilegar forsendur ekki vera fyrir veiðunum. Við sýnatöku úr aflanum frá því á miðvikudag, um 550 tonnum, reyndist rúmur helmingur ósýktur eða lítið sýktur. Þorsteinn segir það geta verið eðlilegt að síldin haldi sig þarna í kaldari sjó. Ekki sé langur sundsprettur úr höfninni, taki síldin upp á því að hreyfa sig á leið til fæðuleitar.

Þorsteinn segir að fylgst verði vel með síldinni og fleiri sýni tekin. Ef hún haldi sig áfram í höfninni verði að grípa til annarra ráðstafana. „Síldin verður að fá að njóta vafans, það er okkar hlutverk að vernda hagsmuni hennar," segir Þorsteinn.

Yfirgefur höfnina varla úr þessu
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að sér þyki það bæði sjálfsagt og eðlilegt að Hafró horfi til fiskifræðilegra raka þegar veiðar séu metnar. Þessi síldarhreinsun í höfninni hafi hins vegar ekki verið unnin á þeim forsendum. Hún fari fyrst og fremst fram frá umhverfislegum sjónarmiðum. „Þeir sem til þekkja vita að höfnin hér í Vestmannaeyjum er algerlega einstök hvað varðar landfræðilegar aðstæður. Hún er trektlöguð og mjög lokuð af. Reyndir sjómenn hafa sagt mér að það séu ekki miklar líkur til þess að síldin yfirgefi höfnina úr því sem komið er," segir hann.
Elliði segir Eyjamenn óttast að ef ekki verður ráðist í hreinsun á þeim forsendum sem þegar voru hafnar þá muni heimamenn sitja uppi með mikið mengunartjón þegar síldin drepst og rotnunin hefst.

„Það að einhverjir skuli geta gert sér verðmæti úr þessu er alger aukabónus fyrir alla. Hér í Eyjum er takturinn þannig að allir leggjast á eitt þegar svona aðstæður koma upp til að koma í veg fyrir tjón. Sjálfboðaliðar hafa séð um hreinsunina, höfninni að kostnaðarlausu. Vinnslustöðin hefur lánað báta og greitt kostnað vegna þeirra. Mjölverksmiðjan þeirra hefur brætt aflann án þess að taka greiðslu fyrir. Annars hefði einfaldlega þurft að farga aflanum með tilheyrandi kostnaði. Einnig er rétt að það komi fram að sjálfboðaliðarnir sjálfir eru ábyrgir fyrir veiðarfærum og öðru þannig að hér er um einstakt samfélagslegt verkefni að ræða," segir Elliði og bætir við að Vestmannaeyjabær sé þessum sjálfboðaliðum afar þakklátur fyrir að ráðast í sameiginlegt átak til að vinna verðmæti og komast hjá mengunarslysi.

„Ég efast ekki um að málið verður skoðað og hreinsun hafin á ný. Ef ekki hljótum við að spyrja okkur hver eigi að sitja uppi með kostnað af hreinsunarstörfum ef ekki er vilji til að þiggja vinnu sjálfboðaliða úr samfélaginu."

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.