Sigrar og særindi á Suðurlandi

18.Mars'09 | 07:09
Prófkjör eru oft tími mikilla særinda um leið og þau eru tími persónulegra sigra.  Prófkjör okkar sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi eru engin undantekning. Sigurvegarar þessa prófkjörs eru án efa þær Íris Róbertsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir.  Báðar eru þær að bjóða sig fram í fyrsta skipti í suðurkjördæmi og báðar ná þær þeim sætum sem þær stefndu að.  Í raun má einnig segja að Unnur Brá vinni sigur með því að skjóta tveimur sitjandi þingmönnum ref fyrir rass og Árni Johnsen með því að hljóta góða kosningu í næst efsta sætið við erfiðar aðstæður. Vonbrigði hafa á sama hátt verið mest hjá sitjandi þingmönnum þeim Kjartani og Björk.

Í raun eru að verða mikil vatnaskil í framboðsmálum sjálfstæðismanna á suðurlandi því ekki einungis raðast ungar konur í 3 af efstu 4 sætunum heldur verður listi okkar nú leiddur af konu í fyrsta skipti.  Sannarlega sigurstranglegur listi.

Að afloknu prófkjöri og góðum persónulegum sigri valdi félagi minn Árni Johnsen svo að senda mér og fleirum tóninn í kvöldfréttum RÚV á sunnudaginn þar sem hann var ósáttur við stuðning okkar við Ragnheiði Elínu. Ekki veit ég hversu hyggilegt það var fyrir frambjóðandann og sennilegt er að einhverjum hafi mislíkað orð hans verulega.   Ekki má gleyma því að þetta sama fólk er að fara að taka þátt í mikilli sjálfboðavinnu við að tryggja Árna og fleirum kjör á þing.  Sjálfur bæði skil ég og virði óánægju Árna og fátt er fjær mér en að að missa svefn yfir orðum hans eða gjörðum.  Í raun er auðvelt að setja sig í spor hans og skilja vonbrigðin.  Auglýsingin orkaði tvímælis, það var vitað fyrir. Sjálfur mun ég aldrei styðja neinn í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi nema þar sé um klárt ráðherraefni að ræða. Það er ákvörðun sem ég tók fyrir áratugum. Það er mín sannfæring og henni mun ég fylgja.  Aðrir verða svo bara annaðhvort að vera sáttir eða ósáttir.

Við Eyjamenn sem studdum Ragnheiði Elínu opinberlega sendum frá okkur eftirfarandi yfilýsingu:

Prófkjör eru gjarnan tími átaka og særinda.  Þegar margir keppa að sama marki er viðbúið að einhverjir nái ekki sínum persónulegu markmiðum.  Að jafnaði taka stjórnmálamenn því af reisn.

Nú að afloknu prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi hefur Árni Johnsen félagi okkar til margra ára valið að líta á sjálfan sig sem fórnarlamb. Ástæðan er sú að við undirrituð ásamt 15 öðrum sjálfstæðismönnum víðsvegar úr kjördæminu studdum Ragnheiði Elínu opinberlega. Stuðninginn við Ragnheiði Elínu sem hlaut 3217 af tæplega 4000 atkvæðum í prófkjörinu telur þingmaðurinn afar "ósmekklegan" og "okkur til vansa".  Þá lítur hann á stuðninginn sem "aðför að sjálfum sér" og "lítillækun við aðra frambjóðendur".

Árni Johnsen hefur að okkar mati fulla ástæðu til að bera höfuðið hátt eftir þetta prófkjör og þarf ekki að setja sjálfan sig í stöðu fórnarlambs. Árangur hans í prófkjörinu var glæsilegur og af því erum við stolt. Eftir tímabundna fjarveru frá þingstörfum hefur hann nú í tvígang á skömmum tíma endurnýjað umboð sitt frá kjósendum og flokksbundnum sjálfstæðismönnum.  Hann hefur fyrir löngu bæði sýnt það og sannað að hann er forkur til vinnu í þeim málum sem hann velur að beita sér fyrir. Hann hnýtir sínar reimar öðrum hnútum en samferðamenn og ljær þar með þingstörfum meira líf en annars væri. Kraftar hans eru best nýttir í störfum fyrir samfélagið.

Ástæða þess að við völdum að styðja Ragnheiði Elínu til forystu í Suðurkjördæmi er einfaldlega sú að við töldum okkur skylt að hlusta eftir kröfum samfélagsins um endurnýjun í forystusveit sjálfstæðismanna.  Við vissum sem var að í henni fer einstaklingur með mikla leiðtogahæfileika og klárt ráðherraefni.  Slíkt er afar mikilvægt fyrir hagsmuni kjördæmisins og þar með fyrir Vestmannaeyjar.  Við þekkjum Ragnheiði Elínu vel úr starfi okkar bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrir Vestmannaeyjabæ og hefur hún ítrekað veitt okkar málum brautargengi á þeim forsendum sem við höfum óskað eftir. Stuðningur okkar við hana var á engan hátt neikvæð í garð annarra frambjóðenda og þá allra síst þeirra þriggja Eyjamanna, Árna, Írisar og Gríms, sem buðu sig fram og áttu allan okkar stuðning að öðru leyti.

Við óskum Ragnheiði Elínu, Árna Johnsen, Unni Brá og Írisi hjartanlega til hamingju með framúrskarandi árangur. Þá óskum við Grími Gíslasyni einnig til hamingju með góðan árangur því þrátt fyrir að hann hafi ekki náð þeim árangri sem við vildum þá vantaði þar einungis lítið uppá.

Sjálfstæðismanna bíður nú það verkefni að stilla saman strengi sína fyrir komandi landsfund og þingkosningar. Þar munum við ekki láta okkar eftir liggja.

Með vinsemd og virðingu
Elliði Vignisson, sjálfstæðismaður og bæjarstjóri
Páley Borgþórsdóttir, sjálfstæðismaður og formaður bæjarráðs
Sindri Ólafsson, sjálfstæðismaður og formaður Eyverja
Helgi Ólafsson, sjálfstæðismaður og formaður KUSS

http://ellidiv.blog.is

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.