Sjávarútvegurinn aftur "inni"

5.Mars'09 | 12:44

írís

Sjávarútvegurinn er aftur "inni" en ekki "úti" eins og krakkarnir segja. Meðan hæst stóð á stönginni í pappírstilflutningum í bönkunum í Reykjavík þótti sjávarútvegurinn frekar hallærisleg og gamaldags atvinnugrein. Ungt fólk hafði ekki áhuga á menntun á því sviði, viðskiptafræðin og MBA-námið heillaði.

Útrásarvíkingarnir og fjölmiðlarnir þeirra, margir stjórnmálamenn og sjálfur forseti lýðveldisins töldu þjóðinni trú um að framtíð hennar fælist í því að flytja peninga og pappíra fram og aftur um heiminn. Íslendingar hefðu af snilld sinni fundið upp nýtt "viðskiptamódel" sem engum hefði dottið í hug áður: fá bara lán á lán ofan og borga þau aldrei nema með öðrum lánum. Raunveruleg verðmætasköpun í hefðbundnum skilningi þyrfti ekki að eiga sér stað. Hámarki náði þessi hrunadans vitleysunnar þegar útflutningsverðlaun forseta Íslands voru veitt fyrirtæki sem aldrei hafði flutt neitt út nema peninga!

 

En nú er allt breytt. Einkaþotugnýrinn á Reykjavíkurflugvelli er þagnaður, -
Auðlindin er byrjuð aftur í útvarpinu og fréttir af viðskiptum dagsins í
Kauphöllinni eru hættar í sjónvarpinu. Og sjávarútvegurinn er ekkert svo
hallærislegur lengur. Þjóðin er sem sagt að enduruppgötva það að fiskveiðar -
og vinnsla og sala fiskafurða - hafa alltaf verið og verða í fyrirsjáanlegri
framtíð ein af forsendum velmegunar á Íslandi. Sjávarútvegurinn verður ein af
þeim meginstoðum sem við stöndum á við endurreisn íslensks efnahagslífs.

En þá þarf líka viðmót stjórnvalda gagnvart þessari atvinnugrein að vera í
einhverju samræmi við mikilvægi hennar. Það gengur ekki að þeir sem stunda
þennan atvinnurekstur búi í stöðugri óvissu um þær lagalegu forsendur sem hann
hvílir á. Það dregur úr áhuga manna á að fjárfesta í sjávarútvegi og fjármagnið
leitar þá einfaldlega í aðrar atvinnugreinar, sem búa við "öruggari" aðstæður.
Það er líka óviðunandi að á þennan rekstur skuli lagðir jafn íþyngjandi
sértækir skattar og raun ber vitni. Það lætur nærri að út úr Suðurkjördæmi
renni um 1,1 milljarður króna árlega af þessum sökum. Þeim peningum væri betur
varið í kjördæminu sjálfu.

Það er líka umhugsunarefni fyrir stjórnvöld hvernig staðið er að ákvörðunum um
leyfilegan afla, - eins og brennur ekki hvað síst á okkur Vestmannaeyingum
þessa dagana varðandi loðnuna. Það lætur nærri að tekjur fyrirtækja í
Vestmannaeyjum af loðnuvertíðinni í fyrra hafi verið um 4,4 milljarðar króna.
Það sjá allir í hendi sér að tekjur af þessu tagi hafa gríðarleg áhrif í ekki
stærra bæjarfélagi. Sambærileg upphæð hlutfallslega væri t.d. fyrir Reykjavík
127 milljarðar króna! Ætli stjórnvöld myndu ekki hugsa sig þrisvar um áður en
þau tækju ákvarðanir sem leiddu til þess að Reykvíkingar yrðu af þvílíkum
tekjum? Það er engum hagur af því að fiskistofnar séu ofveiddir, - allra síst
þeim sem eiga allt sitt undir því að veiðarnar séu sjálfbærar og stofnarnir
endurnýi sig. Það eru þó ýmsir þeirra skoðunar - líka meðal fiskifræðinga - að
það sé engin óheyrileg eða óverjandi áhætta tekin með því núna að leyfa veiðar
á 30-40 þúsund tonnum. Og þá á auðvitað að sækja þann afla á þeim tíma sem
hráefnið er verðmætast og yfir höfuð veiðanlegt.

Þrátt fyrir óvissuna með loðnuveiðar á þessari vertíð verður að teljast
frekar bjart yfir íslenskum sjávarútvegi. Hann er kominn "inn" aftur og mun
gegna lykilhlutverki í framtíðaruppbyggingu efnahagslífsins - bæði í
Suðurkjördæmi og landinu öllu.

Íris Róbertsdóttir
Frambjóðandi í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.