Ósannindi DV um Helga Benediktsson frá Vestmannaeyjum

26.Febrúar'09 | 08:11
Í brennidepli á dv.is er birt samantekt um Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Ljúka þar allir, sem til Kjartans þekkja, upp einum munni um það hvílíkur ágætis maður hann er. Kjartan þekkti ég í menntaskóla og fór jafnan vel á með okkur. Hefur svo verið síðan enda er hann hinn vænsti maður, hefur það sjálfsagt frá móður sinni.

Í samantekt DV kemur fram að Kjartan hafi verið getinn í Vestmannaeyjum en Gunnar Pálsson, faðir hans, sem Jónas frá Hriflu kallaði stórdómara, stjórnaði þá aðför að föður mínum vegna meintra auðgunarbrota og annars sem aldrei sannaðist, enda bar allur málareksturinn vott af þeim heiftarlegu pólitísku ofsóknum sem þá voru stundaðar á Íslandi. DV segir að Helgi þessi hafi gerst sekur um auðgunarbrot. Því sendi ég Reyni Traustasyni eftirfarandi bréf.

Sæll, Reynir. Ég las samantekt ykkar um Kjartan Gunnarsson, næstvaldamesta mann Íslands og tek undir flest sem sagt er um hann. Við vorum saman í menntaskóla og voru samskipti okkar jafnan góð. Hann vildi hins vegar aldrei segja mér hverra manna hann var og þótti mér það undarlegt þar til ég vissi hver faðir hans var og kem ég nú að meginefni þessa bréfs. Í samantekt ykkar er réttilega greint frá því að Kjartan hafi komið undir í Vestmannaeyjum þegar ofsóknir Sjálfstæðisflokksins gegn Helga Benediktssyni, útgerðar- og athafnamanni, stóðu sem hæst.

DV heldur því fram að hann hafi gerst sekur um auðgunarbrot. Hið sanna er að aldrei tókst að sanna auðgunarbrot á Helga Benediktsson. Löngu síðar var hann dæmdur í Hæstarétti og sendur á Litlahraun. Sá dómur var mjög gagnrýndur á sínum tíma og hóf Helgi hungurverkfall þar. Hann var fluttur á sjúkrahús vorið 1961. Þar var hlynnt að honum og honum síðan sleppt. Helgi skrifaði um atburðina upp úr 1950 bækling sem kallast "Ég ákæri". Ég ráðlegg ykkur að kynna ykkur hann áður en þið farið fram með ósannar dylgjur um löngu látið fólk sem ber ekki hönd fyrir höfuð sér. Það sæmir þér hvorki sem ritstjóra né heiðvirðum blaðamanni að fara með svo staðlausa stafi sem þá sem orðin um auðgunarbrotið eru. Annað er að gerast sekur eða vera sakaður. Morgunblaðið fór mikinn á hendur Helga Benediktssyni á sínum tíma og lagði hann hreinlega í einelti.

Í fyrsta sinn sem við Matthías Johannesen hittumst veturinn 2000 þakkaði ég honum fyrir að hafa birt opnugrein um föður minn í tilefni 100 ára afmælis hans. Svar Matthíasar var þetta: "Afstaða Morgunblaðsins til föður þíns er og verður ævarandi smánarblettur á blaðinu. En Arnþór, við erum menn framtíðarinnar og lifum ekki í fortíðinni." Þetta var drengilega mælt og naut ég þess m.a. að starfa sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu síðastliðin tvö sumur. Ég vona að þú komir leiðréttingu á framfæri. Kveðja, Arnþór Helgason Benediktssonar og Guðrúnar Stefánsdóttur

http://arnthorhelgason.blog.is

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.