Hyggst opna skrifstofuver í Eyjum

17.Febrúar'09 | 06:00

Jósi

Jóhann Sigurður Þórarinsson, sonur Tóta og Gunnu í Geisla, er að ljúka námi sínu í Svíþjóð, en þar hefur hann dvalið ásamt fjölskyldu sinni undanfarin ár. Jóhann Sigurður er að klára master í tölvunarfræði en Anna Ýr Sveinsdóttir, kona hans, er menntuð grunnskólakennari frá KHÍ. Þau eiga tvö börn, Þórarinn Sigurð og
Karitas Guðrúnu.

Jóhann segir að það hafi lengi verið draumur hans að flytja aftur til Vestmannaeyja með fjölskylduna. Nú þegar líður undir lok námsins ákváðu þau að láta slag standa og flytja til Eyja í sumar.

Jóhann Sigurður stefnir að því að opna svokallað skrifstofuhótel eða skrifstofuver í Vestmannaeyjum. Það er þannig uppsett að einyrkjar og fyrirtæki geti leigt skrifstofuaðstöðu ásamt aðgangi að kaffistofu, fundarherbergi og öflugu interneti.

Þegar Jóhann Sigurður er spurður út í þessar fyrirætlanir sínar stendur ekki á svarinu:
„Þegar við ákváðum að flytja til Eyja fór ég að svipast um eftir tækifærum. Þar sem ég er menntaður tölvunarfræðingur hyggst ég finna mér eitthvað við hæfi, hvort sem það er starf í Eyjum eða fjarvinna af fastalandinu. Eftir Svíþjóðardvölina hef ég kynnst svokölluðum skrifstofuhótelum eða skrifstofuverum og ég tel að þessi hugmynd gæti klárlega gengið í Eyjum."

Verkefnin geta verið unnin hvar sem er
„Nú þegar eru einhverjir forritarar að vinna í Vestmannaeyjum fyrir fyrirtæki á fastalandinu og vonandi ýtir svona skrifstofuver undir það að fleiri störf flytjist til Eyja enda eru flest þessara verkefna þannig að þau má vinna hvaðan sem er."

Hvar hafðir þú hugsað þér að staðsetja skrifstofuverið?
„Þar sem húsnæði Geisla, að Flötum 29, losnar síðla sumars eða í haust hafði ég hugsað mér að endurinnrétta húsnæðið þannig að það henti rekstri skrifstofuvers."


Hvað gerirðu ráð fyrir að margir geti verið með aðstöðu hjá þér?

„Því er erfitt að svara á þessari stundu en við erum að byrja að teikna upp breytingarnar og þá fyrst sjáum við hvernig þessu verður best fyrir komið. Þetta er stórt og mikið húsnæði eða um 700 m2 á tveimur hæðum, þannig að plássleysi ætti ekki að vera vandamál. Mikilvægt er að vinnuaðstaða hvers og eins sé eins góð og mögulegt er."

„Vestmannaeyjar er kjörinn staður fyrir svona starfsemi og það er t.d. mikið af fólki frá fyrirtækjum á fastalandinu sem kemur vegna vinnu sinnar til Eyja og með tilkomu skrifstofuversins getur það þá leigt sér bæði fundaraðstöðu og skrifstofu ef þörf er á. Þessi þjónusta er ekki til staðar í Eyjum í dag og er ég sannfærður um að margir myndu vilja nýta sér svona þjónustu."


Greinilegt er á öllu að Jóhann Sigurður er kominn hálfa leið til Eyja enda kominn á fullt í að undirbúa skrifstofuver. Hann hvetur þá sem hafa áhug að endilega að hafa samband gegnum tölvupóst. Netfangið er josi@skrifstofuver.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%