Smá pólitík, loðna, gæludýrafóður, lifur, Godthaab og róður

13.Febrúar'09 | 07:39

Georg Arnarson

Enn er ekki komið á hreint, hverjir leiða lista Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi, en ég á þó von á því að það fari að skýrast.

Það vakti athygli vinar míns hér í Eyjum, spjall tveggja manna sem spáðu því, að Sjálfstæðs flokkurinn ynni stór sigur í kosningunum í vor. Þetta þótti okkur mjög undarleg spá, því eins og allir landsmenn vita, þá er það Sjálfstæðis flokkurinn sem ber einn mesta ábyrgð á hruni bankanna og því að Íslenska þjóðin sé á barmi gjaldþrots. Annað sem vakti athygli mína úr pólitíkinni í vikunni var grein í Fréttum eftir Samfylkingarmanninn og fyrrum nágranna minn, Róbert Marshall, þar sem Róbert talar um að nú verði að fara að breyta kvótakerfinu, mjög merkilegt, enda Samfylkingin búin að vera í Ríkisstjórn í 2 ár og hvorki heyrst hósti né stuna um kvótakerfið allan þann tíma og greinilegt að sumir eru komnir í bullandi kosningabaráttu.

Það er mikill hugur í Eyjamönnum vegna komandi loðnuvertíðar og vonandi fer að finnast eitthvað meira af loðnu, núna eru hins vegar 30 metrar á Höfðanum og hauga bræla og ekki ólíklegt að loðnan verði komin að minnsta kosti að Eyjum þegar hann lægir, en það á að lægja seinni partinn á morgun. Gulldeplu veiðarnar hafa einnig gengið mjög vel og fékk ég smá sýnishorn í dag og reyndi að nota það til beitu, en þetta er því miður allt of smátt og fíngert, svo sú tilraun gekk ekki.

Það jákvæðasta sem ég sá í vikunni og vakti hvað mesta athygli mína, tengist áhuga mínum á frekari atvinnusköpun. Fyrir það fyrsta, þá hef ég einhvern tímann talað um, að við Íslendingar ættum að hefja framleiðslu á gæludýra fóðri úr afskurði af fiski og kjöti og var því mjög ánægjulegt að rekast á Íslenskt þurrfóður í Hveragerði síðustu helgi og eru kettirnir á heimilinu yfir sig ánægðir og kannski merkilegast, að þetta fóður er þrisvar sinnum ódýrara heldur en þetta innflutta. Afar jákvætt. Einnig vakti athygli mína, frétt af fyrirtæki í Grindavík, sem byrjaði fyrir tveimur árum með þremur starfsmönnum, en núna starfa þar 20 manns. Merkilegt nokkuð við að sjóða niður lifur, svo maður spyr sig, hvað er að gerast með Lifrarsamlag Vestmannaeyja? Enda kom fram í fréttinni, að þetta fyrirtæki hefði ekki undan öllum pöntununum. Ég veit reyndar að stærsta vandamálið hjá Lifró í Eyjum, hefur verið hráefnisskortur vegna þess að útgerðarmenn í Eyjum fást ekki til að hirða lifrina og er það miður.

Mig langar sérstaklega að hrósa þeim í Godthaab fyrir það, að vera sífellt að fjölga þeim afurðum sem þeir selja, ekki veitir af að reyna að selja meira af full unninni vöru, þegar að allar frystigeymslur eru að fyllast af frosnu hálfunnu hráefni og mættu önnur stærri fyrirtæki taka sér þá til fyrirmyndar.

Fór á sjó á þriðjudaginn með 15 bala. Fiskiríið var ágætt eða liðlega 2,5 tonn, en það sem vakti mesta athygli í róðrinum var að meirihlutinn var þorskur, sem er kannski besta vísbendingin um það, að loðnan er á leiðinni.

Meira seinna

http://georg.blog.is

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.