Fundur Frjálslyndra, Eyjafréttir, heilbrigðisþjónustan, góð bók og róður

21.Janúar'09 | 07:42

Georg Arnarson

Fundur var haldin í fyrrakvöld í Eyjum með Grétari Mar Jónssyni, alþingismanni og Kolbrúnu Stefánsdóttir, ritara Frjálslynda flokksins. Fundurinn var góður en fámennur og því miður virðist fólk  hér ennþá vera í sama ástandi og fyrir bankakreppuna, þ.e.a.s. sofandi og áhugalaust um framtíð sína. Fyrr um daginn hinsvegar, fórum ég og Grétar í kaffi á nokkrum stöðum og áttum víða góðar og áhugaverðar umræður um alls konar mál. Á fundinn kom m.a. maður frá Eyjafréttum í Vestmannaeyjum, sem að ég veit ekki til þess að hafi gert eitthvað af því að skrifa fréttir yfirleitt, en hefur hins vegar tekið mikið af myndum í Vestmannaeyjum.

Inni á Eyjafréttum er nú komin grein um fundinn eftir þennan "fréttamann" sem að ég er ekki alls kostar sáttur við og tek hér sem dæmi úr fyrirsögn greinarinnar: "Grétar Mar vill ekki að fjárframlög til flokkana frá ríkinu verði skorin niður." Þetta er í sjálfu sér nokkuð augljóst, því að hvernig væri pólitískt umhverfi okkar, ef aðeins þeir sem hefðu peningalega bakhjarla gætu boðið fram. Það vakti hins vegar athygli mína að "fréttamaðurinn" hafðu furðulega mikinn áhuga á þessu máli og var að reyna að tengja saman fjárframlög til flokkana við niðurskurð til heilbrigðisþjónustuna. Þetta þótti mér hálf furðulegt, enda er verið að tala um niðurskurð í heilbrigðisgeiranum upp á nokkra milljarða, á meðan að framlög til flokkana er kannski á annað hundrað milljónir (veit reyndar ekki rétta tölu).

Önnur fyrirsögn fréttamannsins er svona:" Grétar Mar vill banna allan útflutning á fiski í gámum" en svo kemur aftur alveg neðst í greininni:" Grétar viðurkennir reyndar að hann hafi verið hlynntur gámaútflutningi." Staðreyndir er hins vegar þessi: Grétar Mar er að opna á þann möguleika að hugsanlega verði sett lög, sem banna gámaútflutning tímabundið til þess að auka atvinnuna í fiskvinnslum landsins. Annað sem að vakt athygli mína og kom ekki fram í grein fréttamannsins, er að Grétar vill að bæði verði aukið meiri við þorskkvótann heldur en nú hefur verið gert og auk þess að þegar verði aukið við síldarkvótann um ca. 50-100 þús. tonn, síldveiðiflotanum beitt sérstaklega á þau svæði þar sem mest er af sýktri síld og hún veidd til bræðslu. Þetta myndi að sjálfsögðu vera góð búbót fyrir landið okkar, ekki veitir af.

Fundurinn var eins og áður segir mjög góður og Grétar Mar kom mér skemmtilega á óvart í umræðum við eldri borgara um lífeyrissjóðsmál, þar sem hann var greinilega búinn að kafa svo rækilega ofan í þau málefni, að það vakti furðu mína, því ég skildi nú ekki sjálfur helminginn af þessu. Kolbrún Stefánsdóttir stóð sig einnig mjög vel, en mér þótti dapurt að enginn fatlaður skyldi láta sjá sig, því hún er framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, landssamband fatlaðra.

Það mál sem vekur mesta athygli í eyjum þessa dagana er hugsanlegur niðurskurður á heilbrigðisþjónustunni og ég verð að segja alveg eins og er, að það vakti furðu mína yfirlýsingar bæjarstjórans, um að það mætti ekki skera niður þjónustuna, vegna þess að það tæki okkur 4 klukkutíma að komast upp á Selfoss, svo spurningin er þessi:" Þegar og ef þessi Bakkafjara kemst einhvern tímann í gagnið, verða þá ekki rök heilbrigðisráðherra þau, að það taki okkur aðeins 11/2 til 2 tíma að komast upp á Selfoss?" Ótrúlegt hvernig þetta er allt saman að stefna, því miður, nákvæmlega í þá átt sem ég spáði fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Mig langar að benda áhugasömum bókaunnendum á bók sem ég er að lesa þessa dagana: Annasamir dagar og ögurstund, endurminningar Stefáns Runólfssonar. Það sem vekur hvað mesta athygli mína við þessa bók er, að Stefán með alla sína áratuga reynslu á fiskvinnslu í Eyjum, sem og margs konar aðkomu að t.d. byggingu Herjólfs á sínum tíma, talar um kvótakerfið sem tóma vitleysu og Bakkafjöru sem tímaeyðslu, því að það eina sem Eyjamenn vanti, er stærri og gangmeiri Herjólfur.

Fór á sjó í gær kl. 10 um morguninn með aðeins 8 bjóð, enda tíðin mjög erfið þessa dagana, fiskiríið var ca. 800 kg., en til að enda þetta á jákvæðum nótum, þá tók ég eftir því að þegar ég var að keyra frá Friðarhöfninni í áttina að smábátahöfninni eftir löndun, að klukkan var orðin 17:30 og það var enn ekki orðið svarta myrkur og brá bláum bjarma yfir eyjuna, þannig að daginn er tekið að lengja, vonandi fer líka bráðum að birta upp í öðrum málum, því eins og stundum er sagt:" Einhvern tímann styttir upp."

Meira seinna.

http://georg.blog.is

 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.