Íslenska þjóðin elskar Sigmund

8.Janúar'09 | 08:31

arni

íSLENSKA þjóðin elskar Sigmund teiknara, elskar húmor hans og snilld sem teiknara með ótrúlegt hugmyndaflug og úthald.
Í 44 ár hefur Sigmund teiknað nær daglega skopmyndir í Morgunblaðið, um 11 þúsund myndir. Sigmund hefur allan þennan tíma verið eitt af aðalsmerkjum Morgunblaðsins og það er einsdæmi á okkar jörð að teiknari hafi teiknað svo mikið og lengi í stærsta blað þjóðar.

Sigmund er 77 ára gamall unglingur með fullan styrk til að teikna og blússandi húmor. Það er leitt að stjórnendur Morgunblaðsins skuli hafa tilkynnt Sigmund starfslok með þeim hætti að hann sitji verulega sár eftir eins og hann lýsti því í viðtali við Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni. Stjórnendur Morgunblaðsins geta auðvitað skipt starfsmönnum Moggans út, en það eru takmörk fyrir því hvernig það er gert. Það fer ekkert á milli mála að Sigmund fannst sér misboðið og hann teiknaði ekki sína síðustu mynd í Morgunblaðið. Fékk ekki tækifæri til þess að kveðja. Þegar slíkt er gert við einn vinsælasta penna Morgunblaðsins á sérstöku listrænu sviði, þá bregður mönnum í brún. Þegar Sigmund var sagt upp formlega í símtali um miðjan október sagðist hann gjarnan vilja teikna fram á næsta vor. Því var neitað að hans sögn og þá spurði hann hvort hann gæti þá ekki klárað mánuðinn, en var neitað af þeim starfsmanni Morgunblaðsins sem talaði við hann. Sigmund er þjóðareign, maður vippar ekki slíkum fyrir borð frekar en handritunum. Auðvitað hefðu verið margar leiðir til þess að verklok Sigmunds eftir nær hálfrar aldar þjónustu í þágu fólksins í landinu og Moggans hefðu verið með þeirri reisn og glæsibrag sem sæmd Morgunblaðsins og Sigmunds sjálfs ber.

Morgunblaðið skiptir mjög miklu máli fyrir íslenskt samfélag margra hluta vegna og hefur um langt árabil verið eitt af höfuðankerum þjóðarinnar varðandi íslenska tungu, sjálfstæði Íslands og menningu, ígildi Alþingis á margan hátt. Sögu þjóðarinnar er ekki hægt að skrifa án Morgunblaðsins á síðustu öld og maður setur ekki einn aðalsagnaritarann út í leiðindum. Dekksmúlun Sigmunds af þilfari Morgunblaðsins var ömurleg. Hún var eins og eitthvað sem hefði getað gerst í tölvukubb fyrir slysni.

Megi Morgunblaðinu farnast vel og nýjum ritstjóra auðnast að stýra blaðinu með markvísi, metnað og vinarþel að leiðarljósi, því eina von Morgunblaðsins til þess að lifa af, eins og alltaf, er að gera ekki mannamun og ríma við væntingar og vonir Íslendinga, vinnandi fólks, venjulegs fólks, fólksins sem kaupir og les Morgunblaðið.

Maður slátrar ekki gæsinni sem verpir gullegginu. Maður rekur ekki Sigmund.

Aths. ritstj.
Árna Johnsen eru þökkuð hlý orð í garð Morgunblaðsins. Jafnframt ber að þakka honum fyrir leiðbeiningar um það hvað maður gerir og hvað maður ekki gerir.

Höfundur er þingmaður.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.