Eru aðildarviðræður nauðsynlegar til að kanna hvað ESB hefur upp á að bjóða?

8.Janúar'09 | 10:06

Elliði Vignisson

Á seinustu árum hefur lítill hluti íslensku þjóðarinnar með bankamenn og pólitíska diplómata í fararbroddi látið stjórnast af ranghugmyndum um eigin gjörfugleika og getu. Sjálfhverfan var alger. Öll hættumerki og varnaðarorð voru hunsuð og teflt á tæpasta vað án þess að hika í blindri trú á að Íslendingar gætu og kynnu betur en aðrir. Íslenskir útrásarvíkingar trúðu því að þeir hefðu höndlað viðskiptasannleikann betur en kaupahéðnar annarra þjóða.

Rætt var um ágæti hins íslenska viðskiptamódels sem óræk vísindi. Utanríkisstefna okkar og samskipti við erlendar þjóðir fór ekki varhluta af þessum ranghugmyndum. Kjörnir fulltrúar spígsporuðu um stríðshrjáð lönd með hjörð af embættismönnum og töldu sig geta, með nærverunni einni, miðlað málum milli stríðandi fylkinga betur en þjóðhöfðingjar stórvelda. Enn einn anginn af þessum ranghugmyndum er sú fjarstaða að láta sér detta í hug að Íslendingar geti gengið í ESB og samið um aðgengi að gæðum án þess að láta neitt á móti.

Stefnur og straumar ESB eru löngu ljósir
ESB var stofnað með Rómarsáttmálanum 1957 af stórþjóðum Evrópu. Það er því alveg ljóst að ekki þarf að sækja um aðild að ESB til að sjá hvað er í boði. ESB er starfandi samband með virkar stefnur og ríka hefð. Til að sjá hvað er í boði þarf ekki annað en að skoða ESB og þá er einnig kjörið að kanna hvað varð þess valdandi að stórþjóðin Noregur, sem er ríkt af auðlindum eins og við, felldi aðild í tvígang í þjóðarkosningum.

Viðræður Norðmanna og ESB
Þróun umræðunnar um ESB á Íslandi líkist um margt þeim aðstæðum sem uppi voru í Noregi þegar Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra og formaður verkamannaflokksins lagði allt undir í viðleitni til að gera Noreg að ESB ríki. Farið var í aðildarviðræður með því fororði að samið yrði um varanlegar undanþágur og mikið gert úr skilningi ESB á sérstöðu Noregs. Fögur voru fyrirheitin. Þegar samningsuppkastið lá fyrir kom í ljós að samninganefndin hafði í raun gefið eftir varanlegan yfirráðarétt yfir fiskistofnum sínum fyrir sunnan 62. breiddargráðu frá og með fyrsta degi aðildar og þremur árum síðar á hafsvæðinu þar fyrir norðan. Við þetta bættist að ekki höfðu fengist neinar varanlegar tryggingar gegn kvótahoppi. Í raun hafði lítið sem ekkert af kröfum samninganefndarinnar í sjávarútvegsmálun náð fram ef undan er skilið aðlögunarfrestur í skamman tíma. Hefði þjóðin samþykkt samningsdrögin hefði Noregur misst forræðið yfir nýtingu fiskistofnanna að mati Norges Fiskarlag. ESB hefði því allt frá fyrsta degi annast gerð fiskveiðisamninga við ríki utan þess. Stofnanir ESB hefðu þannig ákveðið lágmarksstærð á fiski, möskvastærð veiðifæra, svæðaskiptingu og lokanir veiðisvæða. Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu vildu aðildarsinnar meina að eftir að inn í ESB yrði komið væri svo hægt að beita áhrifum innan ráðherraráðsins til að ná fram nauðsynlegum breytingum. Meirihluti þjóðarinnar taldi hinsvegar að þau þrjú atkvæði af 90 sem hin 5 milljóna norska þjóð hefði í ráðherraráðinu dygði skammt og felldi samninginn í atkvæðagreiðslu.

Hvað segja forsvarsmenn ESB
Forsvarsmenn ESB hafa alla tíð verið algerlega ærlegir gagnvart Íslendingum um það að Ísland yrði með inngöngu í ESB að beygja sig undir sameiginlegar samþykktir ESB. Í fréttablaðinu 8. nóvember síðastliðinn sagði Olle Rehn, stækkunarstjóri ESB að það væru ,,engin fordæmi fyrir varanlegri undanþágu." Enginn skyldi halda að stækkunarstjórinn hafi þar fært ný tíðindi enda hefur þetta ætíð verið svarið þegar að er spurt. Þannig sló Emma Bonino, framkvæmdarstjóri sjávarútvegsmála ESB á sama streng í viðtali við Morgunblaðið 1995 þegar hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún: ,,meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrr alla." Svo mörg voru þau orð. Séð í þessu ljósi þarf vart að undrast þegar rifjuð eru upp orð Norska stjórnmálaforingjans Erik Solheim sem sagði: ,,Það er mjög lítill skilningur innan EB á sérstöðu Norðmanna. Fiskurinn er undirstaða búsetu eftir allri strandlengju Noregs. Þessu hefur EB ekki sýnt áhuga,"

Kostir og gallar
Staðreyndin er sú að allir sem vilja geta séð hvað ESB hefur upp á að bjóða. Til þess þarf ekki aðildarviðræður. Þessi samtök voru stofnuð 1957 og á 52 árum hafa mótast nokkuð skýrar leikreglur. Okkur Íslendingum má ljóst vera að ýmsir kostir fylgja því að ganga í ESB. Okkur má hinsvegar jafn ljóst vera að aðgengið að þessum gæðum verða dýru verði keypt. Tal aðildarsinna um varanlegar undanþágur eru fjarstæða. Aðildarviðræður eru því ekki nauðsynlegar til að sjá hvað er í boði. Hitt er svo annað hvort vegi meira kostirnir eða gallarnir og um það þarf þjóðin að greiða atkvæði þegar aðstæður skapast. Einungis þannig er hægt að ákveða hvort fara eigi í aðildarviðræður.

Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.