Styrktar- og menningarsjóður Sparisjóðsins úthlutaði í dag

23.Desember'08 | 18:47

Sparisjóðurinn

Árleg úthlutun úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem stofnaður var til minningar um Þorstein Þ. Víglundsson fyrrverandi sparisjóðsstjóra fór fram í fundarsal Sparisjóðsins á Þorláksmessu, þann 23. desember 2008.

Þetta er í tuttugasta og fyrsta skiptið sem úthlutað er úr sjóðnum, en fyrsta úthlutunin var á Þorláksmessu árið 1988.  Að þessu sinni hlutu viðurkenningar og styrki:

Lúðrasveit Vestmannaeyja
Fyrsta lúðrasveitin í Eyjum var stofnuð 1904.  Lúðrasveit Vestmannaeyja sem starfar í dag var stofnuð fyrir tilstuðlan Oddgeirs Kristjánssonar, tónskálds þann 22. mars árið 1939 og verður því 70 ára á næsta ári.  Mikið og öflugt starf hefur alla tíð einkennt sveitina.  Víða eiga lúðrasveitir undir högg að sækja og er nú svo komið að sveitin er ein fjögurra lúðrasveita á landinu sem halda úti starfsemi allt árið.  Fyrir utan hefðbundna spilamennsku réðst Lúðrasveitin ásamt Hljómsveitinni Tríkot, Lúðrasveit verkalýðsins, ásamt nokkrum einsöngvurum, í að halda stórtónleika í apríl sl.  Um það bil 60 manns komu að þessum tónleikum og fóru viðtökurnar fram úr björtustu vonum.  Ætlunin er að endurtaka leikinn næsta vor auk þess sem veglegir afmælistónleikar verða næsta haust.  Mikil fjölgun hefur orðið í sveitinni á árinu og eru nú um 25 manns virkir félagar og hafa ekki verið fleiri um margra ára skeið og vonandi heldur sú þróun áfram.  Er það mest að þakka starfi Tónlistaskólans og öflugu starfi Skólalúðrasveitar Vestmannaeyja undanfarin ár.

Fimleikafélagið Rán
Fimleikafélagið Rán var stofnað 29. nóvember 1988 og varð 20 ára í nóvember sl.  Fyrstu árin voru iðkendur um 60 en eru nú um 170.  Fimleikafélagið hefur ávallt verið heppið með iðkendur sem hafa skilað félaginu mörgum Íslandsmeistaratitlum og ótal fleiri verðlaunum á mótum í gegnum árin.  Þá hefur félagið einnig verið mjög lánsamt með þjálfara og m.a. hefur Svanfríður Jóhannsdóttir yfirþjálfari verið hjá félaginu í 18 ár.  Mikil vinna fer í fjáröflun til að halda starfi félagsins gangandi þó félagið eigi marga góða styrktaraðila að.  Í fimleikum þarf mikið af dýrum áhöldum og hefur félagið varið um 3,5 milljónum króna til áhaldakaupa á þessu ári.  Hjá Fimleikafélaginu Rán er boðið upp á fimleika fyrir börn á aldrinum tveggja til átján ára.  Yngstu börnin eru í fimleikaskóla en einnig eru almennir-, áhalda- og hópfimleikar.

Íþróttafélagið Ægir
Eftir að hugmyndin að stofnun Ægis, íþróttafélags fatlaðra vaknaði varð ekki aftur snúið, kennarar og foreldrar tóku höndum saman við undirbúninginn.  Félagið var stofnað 12. desember 1988 og varð því 20 ára fyrr í þessum mánuði.  Það var ógleymanlegur dagur þegar félagið hélt upp á afmælið með pompi og prakt.  Margt hefur gerst síðan og félagið hefur vaxið og dafnað.  Eftir að ný stjórn tók við félaginu haustið 2006 hefur verið unnið hörðum höndum við að gera félagið enn virkara.  Metnaðurinn hefur verið að auka æfingarnar, fá fleiri einstaklinga til starfa í félaginu og hafa gaman af öllu saman.  Stjórnin hefur einnig kynnt fjölbreyttari íþróttagreinar innan félagsins, t.d. golf, fótbolta og frjálsar yfir sumartímann.  Í dag æfa 15 manns hjá félaginu.  Haldið er úti fimm æfingum á viku í boccia bæði fyrir eldri og yngri hópa.  Í október sl. var farið á fyrsta einstaklingsmót í boccia í lengri tíma og stóð félagið uppi með einn félagann sem Íslandsmeistara og annan í öðru sæti og sá þriðji komst upp um deild.  Þetta er að sjálfsögðu frábær árangur og er félagið stolt af keppnisfólki sínu sem og öðrum iðkendum sem standa sig frábærlega.  Starf félagsins væri ómögulegt án þess óeigingjarna sjálfboðastarfs sem foreldrar, vinir og velunnarar inna af hendi.  Með þesari styrkveitingu vill Sparisjóðurinn styrkja öflugt starf félagsins.

Kvenfélagið Líkn
Kvenfélagið Líkn var stofnað 14. febrúar 1909 og verður því aldargamalt í febrúar nk.  Einn aðal hvatamaður að stofnun félagsins var héraðslæknirinn Halldór Gunnlaugsson og gaf hann félaginu nafn, vel viðeigandi samkvæmt tilgangi þess.  Á árunum fyrir stofnun félagsins herjuðu mikil veikindi og fátækt á Eyjabúa.  Héraðslæknirinn fékk nokkrar konur með sér í lið til að fara á heimili til hjálpar og upp úr því var kvenfélagið stofnað.  Þannig var tilgangur félagsins í upphafi að líkna og hlynna að bágstöddum í Vestmannaeyjum, svo og til að veita aðra þá aðstoð sem félagið sæi sér fært hverju sinni.  Stofnendur voru 23 konur.  Í dag starfa í félaginu 124 konur.  Þó félagið hafi látið sér fátt óviðkomandi, sem til heilla horfir fyrir byggðarlagið hefur rauði þráðurinn í starfi félagsins ætíð verið líknar- og mannúðarmál fyrst og fremst.  Félagskonur hafa ávallt verið virkar í félaginu og unnið óeigingjarnt starf, en starfsemin byggir á sjálfboðastarfi.  Starfsemin gengur mikið út að sækja styrki til fyrirtækja og bæjarbúa sem hafa stutt dyggilega við félagið alla tíð.  Helstu fjáraflanir félagsins eru vorsöfnun, jólakortasala, basar, samúðarkort, karnival, kleinubakstur, merkjasala svo eitthvað sé nefnt.  Hápunkturinn er þó árleg fjáröflun félagsins með kaffi og kökusölu í tengslum við 1. desember sem setur svip sinn á upphaf aðventunar.  Þær eru ótaldar gjafirnar og styrkirnir sem félagið hefur í gegnum tíðina fært ýmsum aðilum, en drýgstur hefur þó verið hlutur Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum.  Það má því segja að Kvenfélagið Líkn hafi frá upphafi verið gefandi félagsskapur í tvennum skilningi.

Bókasafn Vestmannaeyja
Forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja hefur í samstarfi við atvinnuráðgjafa fatlaðra í Vestmannaeyjum verið að þróa tilraunaverkefni til að efla sóknarfæri fatlaðra til atvinnuþátttöku.  Um er að ræða hvoru tveggja þátttöku á almennum markaði sem og að auka möguleika til að nýta nýja hæfingarstöð á Búhamri.  Hugmyndafræðin er að taka saman handbók fyrir þá sem hyggjast ráða einstaklinga með skerta starfsorku til vinnu með það að markmiði að auðvelda atvinnurekendum að sjá kosti þess að nýta vinnuframlag allra þeirra sem vilja og geta unnið.  Markmiðið er að setja fram ólík og vandlega skilgreind verkefni sem unnin yrðu í samstarfi við Bókasafnið.  Ráðnir yrðu 2-3 einstaklingar í um 1,5 stöðugildi.  Starfsmönnum og verkferlum verður fylgt nákvæmlega eftir skref fyrir skref.  Áfangar verð sýnilegir á framvindunni.  Skilgreind verða lok verkefnis eða verkferlis sem jafnframt getur orðið upphaf nýrrar framvindu.

Tryggvi Sigurðsson
Tryggvi byrjaði á smíði líkana árið 1987 og hefur hann fullsmíðað vel á fjórða tug líkana.  Hann hefur alltaf haft mest dálæti á bátum smíðuðum í Vestmannaeyjum og eru líkön af þeim bátum orðin mörg.  Hann er búinn að gera líkön af öllum stærstu bátum sem hafa verið smíðaðir hér í Eyjum.  Þar má nefna Helga Helgason VE 343, en hann var stærsti trébátur sem smíðaður hefur verið á Íslandi fyrr og síðar.  Einnig eru líkön af Helga VE 333 og Glófaxa VE 300 ásamt mörgum fleirri. Tryggvi hefur þannig haldið á lofti minningu um þessa glæsilegu báta sem hannaðir og smíðaðir voru hér í Eyjum.  Líkanasmíði Tryggva er löngu orðin þekkt og þykir handbragð hans vera með því besta sem sést hefur í líkanasmíðum.
Skipslíkön Tryggva eru staðsett víða um land en þó nokkur eru í einkaeigu, m.a. er líkan af Sigurði VE 15 í eigu Ísfélagsins og Þórður Rafn útgerðarmaður á nokkur.  Tryggvi er enn að smíða fyrir Þórð Rafn, sem hefur látið hafa eftir sér að líkön þessi séú alger listaverk.  Tíminn að baki smíði eins líkans er mikill og að mörgum smáatriðum þarf að huga því allt verður að vera alveg eins og fyrirmyndirnar en í mjög svo smækkaðri mynd.
Sparisjóðurinn vill veita Tryggva viðurkenningu fyrir störf hans að smíði skipslíkana og varðveita með því söguna.

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).