Alþingismaður, Herjólfur, róður, uppnefni og Georg Eiður

23.Desember'08 | 16:50

Georg Arnarson

Ég ætla að byrja þessa grein á að þakka vini mínum, Grétari Mar Jónssyni alþingismanni, fyrir að taka upp málefni okkar eyjamanna á Alþingi í dag, þar sem hann benti á það alvarlega ástand sem er komið í samgöngumálum okkar eyjamanna m.a. að Bakkaflug hefði verið lagt af í bili og að Herjólfur væri farinn að bila reglulega og orðið nauðsynlegt að fara að athuga með nýtt skip. Á hann þakkir skilið fyrir þetta, en mér þótti dapurlegt að horfa á það, að enginn annar þingmaður, hvorki í suðurkjördæmi né annarstaðar, sá ástæðu til að taka undir þetta með Grétari.

Fór tvisvar á sjó um helgina í afar erfiðu tíðarfari t.d. lenti ég í éli í fyrri róðrinum, sem stóð í 3 1/2 klukkutíma, svo að maður var orðinn ansi blásinn eftir það, en fiskiríið í róðrunum var ágætt, eða ca. 2,4 tonn á 20 bala, mest ýsa.

Ég hef velt því fyrir mér nokkuð lengi að skrifa meira um þessa umdeildu bók Sigurgeirs, sem hann kallar viðurnefni í Vestmannaeyjum, en ég hef kallað uppnefni í Vestmannaeyjum. M.a. hef ég verið að skoða allar þær nafngiftir sem ég hef fengið s.l. 30 ár. Margir hafa rætt við mig um þessa bók og undantekningalaust verið sammála um það, að þessi bók sé hreinn viðbjóður. Einn af viðmælendum mínum sagði við mig m.a. fyrir nokkru síðan, að hann væri ánægður með það, að þessi bók væri fyrst og fremst til sölu hér í eyjum, en ég verð því miður að leiðrétta það, því eftir að hafa kannað málið, þá er þessi umdeilda bók til sölu í öllum helstu bókabúðum um allt land, þannig að allir landsmenn geta sem sé farið í næstu bókabúð og fengið þessa bók þar og lesið um það, hvað eyjamenn leggja á vana sinn að kalla hvorn annan og mér segir svo hugur, að hróður okkar muni ekki aukast við þann lestur.

Ég hef hins vegar ákveðið að skrifa ekki meira um þessa bók né heldur um mín uppnefni. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að í vikunni heyrði ég áhugavert viðtal á Bylgjunni við Valgeir Skagfjörð hjá Regnbogabörnum, þar sem umræðan var einelti. Ég ákvað að hringja í Valgeir og átti við hann áhugavert samtal, þar sem m.a. kom fram, að Sigurgeir hafði sent honum bókina og Valgeir lesið hana. Dómur Valgeirs á bókinni var sá, að eftir svona fyrstu 3-4 blaðsíðurnar þá hefði hann glott út í annað, en eftir að hafa lesið alla bókina, þá sagði hann að hún væri hreinn viðbjóður. Sérstaklega þótti honum slæmt að sjá, hversu mörg uppnefni tengd konum voru klámfengin. Ég sagði Valgeiri frá þeirri hugmynd minni að skrifa um mín uppnefni, bæði til þess að útskýra fyrir mönnum eins og Sigurgeiri, hversu slæmar þessar nafngiftir geta verið og líka til þess, að svara fullt af fólki sem hefur verið að koma til mín síðustu mánuði og segja við mig:" Finnst þér ekki frábært að vera kallaður þetta eða hitt." og verður oft stein hissa þegar ég neita því og ég verð eiginlega að viðurkenna alveg eins og er, að ég held að ég hafi aldrei nokkurn tímann heyrt uppnefni um mig, sem ég er sáttur við, frekar en svo margir aðrir. Valgeir bað mig um að skrifa ekki slíka grein, því í fyrsta lagi þá væri skaðinn skeður, bókin væri komin út og svo hitt, að þó að ég hefði kannski það þykkan skráp að geta fjallað um mín uppnefni opinberlega, þá væri það svo sannarlega ekki með alla, því eins og ég hef sagt áður, aðgát skal höfð í nærveru sálar og slík grein gæti haft slæm áhrif á fólk sem er viðkvæmt fyrir. Svo nóg um það, en þar sem ég hafði nú velt þessu fyrir mér í töluverðan tíma, þá langar mig nú að setja hér í þessi skrif mín endirinn á mínni grein , ef ég hefði skrifað greinina. Mér fannst ég nefnilega ekki getað skrifað um uppnefni öðruvísi en að hafa endirinn þannig, að hvað ef ég hefði eitthvað um það að segja, vildi ég vera kallaður. Þetta var hreint ótrúlega erfitt enda hef ég aldrei velt þessum málum fyrir mér í neinni alvöru fyrr en núna í haust, en svona fyrir ykkur sem takið þessi mál alvarlega, þá var ég á sínum tíma skýrður Georg Eiður. Georg eftir virðulegum eldri manni í Reykjanesbæ, sem ég hef afar mikið álit á og hef bara gaman af, þegar hann kallar mig nafna sinn. Eiður var það nafn sem móðir mín valdi á mig og kemur úr móðurætt hennar og eftir að hafa kannað málið lítillega, þá sýnist mér að á Íslandi sé enginn annar maður sem heitir þessum tveimur nöfnum. En svo það sé alveg á hreinu, mér er nánast alveg sama hver kallar mig hvað, en ef þú vilt að ég komi fram við þig eins og ég vill að þú komir fram við mig, þá heiti ég Georg Eiður og er Arnarson.

Meira seinna.

http://georg.blog.is

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).