Herjólfur, róður, fundur og Eyjabúð

16.Desember'08 | 10:52

Georg Arnarson

Það er hálf ótrúlegt að horfa upp á allt þetta sem er að gerast með Herjólf. Stöðugt bilar meira og meira um borð og þetta nýjasta, sem skeði á laugardaginn. Ekki bara að það bilaði önnur vélin og það þurfti að fá viðgerðarmenn um borð til að vinna að viðgerðinni á ferð, heldur bilaði líka hin vélin og á tímabili var Herjólfur á reki úti fyrir suðurströnd Íslands, einhverri hættulegustu siglingaleið við Ísland.

Þetta er allt saman hálf ótrúlegt og fær merkilega litla umfjöllun í landsblöðunum, fyrir utan það að enn heyrist lítið í þessum svokölluðu þingmönnum eyjamanna. Ég hef hins vegar haft samband við þingmann minn, Grétar Mar Jónsson, sett hann inn í málið og skora á aðra eyjamenn, hvar sem í flokki þeir standa, að ræða við sína þingmenn. Þetta er ekki boðlegt lengur og legg ég því til, að þeir fjármunir sem þegar er búið að setja til hliðar vegna Bakkafjöru, henni verði frestað og smíði á nýju skipi hafin strax. Eða að minnsta kosti leit að betra skipi.

Fór á sjó kl. 16 á laugardaginn, var búinn að landa kl. 2 um nóttina, en fór aftur af stað til að nýta blíðuna kl. 4 um nóttina. Fór því samtals með 22 bjóð, fiskiríið var gott, eða liðlega 3 tonn í heildina, mest ýsa.

Þar síðasta sunnudag mætti ég á ágætan fund, sem Árni Johnsen stóð fyrir. Fundurinn var svo sem ágætur og mæting góð, en aðal umræðuefnið var atvinnumál, staðan og útlitið framundan. Það sem vakti einna mesta athygli hjá mér, var sú að ekki var mikill barlómur í útgerðarmönnum, þrátt fyrir að alveg sé ljóst að gengi krónunnar hafi haft veruleg áhrif á skuldir fyrirtækjanna. Flestir voru þó á jákvæðum nótum, en dapurlegast þótti mér þó að heyra einn útgerðarmanninn lýsa því yfir, að hér væri engin kreppa, þetta væri allt saman bara kjaftæði og það á sama tíma og þúsundir manna eru að missa vinnuna, heimili sín og margir fullorðnir jafnvel ævisparnað sinn. En það er nú svo. Elliði bæjarstjóri var eins og vanalega á því að hér væri bara gull og grænir skógar og í fyrsta skipti í mörg ár væri fjölgun í Vestmannaeyjum. Ég er aljgörlega sammála því, en vandinn er hins vegar sá, að vandamálið er það (eins og Elliði hefur sjálfur minnst á einhverntímann) að hér vantar fyrst og fremst fleiri störf. Því miður er hér enga atvinnu að hafa. Annað sem Elliði minntist á og ég hef kallað eftir hér á blogginu, en ekki fengið svar áður, er hvernig staðan er á hitaveitupeningum okkar 3,6 milljörðum. Ekki fékkst reyndar upp, hvernig staðan væri í dag, en Elliði upplýsti þó það, að aðeins hefði verið tekið af þeim fjármunum til að greiða niður skuldir bæjarfélagsins. Það er hins vegar nokkuð ljóst, að staðan í fjármálum bæjarins væri að sjálfsögðu afar erfið, eftir langvarandi eyðslu fyllerí íhaldsmanna síðustu áratugi, ef ekki hefði komið til sala á þessum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja. Gallinn er hins vegar sá, að hér eftir höfum við ekkert um það að segja, þegar gjaldskráin hækkar hjá Hitaveitu Suðurnesja.

Eyjabúð lokaði á föstudaginn eftir að hafa starfað í 55 ár. Mér þótti það mjög dapurt, enda verslað þarna frá því áður en ég byrjaði í útgerð. Mig langar að þakka Friðfinni og fjölskyldu hans fyrir lipurðina og spjallið síðustu áratugi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að margir eigi eftir að sakna þessarar verslunnar, en kannski má líka taka undir með orðum eigandans, um að verslunin hafi verið orðin svolítið gamaldags, en mér fannst Eyjabúð altaf vera gömul en góð og kem til með að sakna hennar mikið. En kannski er þetta hluti af hagræðingunni, þar sem persónuleg þjónusta víkur fyrir einhvers konar vél- eða rafvæðingu.

Meira seinna.

http://georg.blog.is

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.