Einmenningskjördæmi

9.Desember'08 | 14:47

Svenni

Ég er ekki hissa á þeirri reiði sem er í samfélaginu.  Hún blossar upp á hverjum degi þó vissulega fari mótmælendum fækkandi.  Það eru nú að koma jól.

Annars finnst mér sá mótmælahópur sem gengið hefur hvað harðast fram, til að mynda í Alþingishúsinu í gær og með eggjakasti undanfarna laugardaga setja svartan blett á mótmæli hins almenna borgara sem á friðsaman og málefnalegan hátt hefur verið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hef það á tilfinningunni að þarna sé á ferð meira og minna sama fólkið og hefur stundað mótmæli gegn stóriðjuframkvæmdum undanfarin ár.  Lið sem oft er kennt við 101 Reykjavík.  Ekki misskilja mig, þau hafa jafnan rétt til að mótmæla og aðrir en þegar fólk er orðið atvinnumótmælendur þá missir þetta marks.  Ég man eftir nokkrum viðtölum við talsmenn þessa hóps á síðustu misserum og oft hafði ég það á tilfinningunni og þau vissu hreinlega ekkert hvað þau voru að mótmæla.

En nóg um það.

Ég held að þær raddir sem nú heyrast um breytingu á kosningalöggjöfinni og breytingu á kjördæmum eigi bara eftir að hækka þegar fram líða stundir.  Flestir virðast vera á þeirri skoðun að flokkshollustan sé of mikil í dag.  Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að réttast væri að taka upp svokölluð einmenningskjördæmi.  Þ.e.a.s þá er kosið um ákveðinn einstakling sem fulltrúa bæjarbúa á Alþingi.

Alla vega held ég að Samfylkingin ætti að kasta út hjá sér hugmyndum um að gera Ísland að einu kjördæmi. Þá fyrst  held ég að ásakanir um að flokksklíkan stjórnaði yrðu háværar.  Þannig fengi flokksklíkan að stjórna því hverjir sætu á þingi og hverjir ekki.   Hverjir væru þægir þingmenn og hverja viljum við losna við.

Með einmenningsjkördæmum myndi Jafnvel opnast möguleikar fyrir óháða frambjóðendur að ná kjöri, persónufylgi myndi fleyta sumum langt á meðan aðrir litlausari og áhrifalitlir þingmenn hyrfu vafalítið út af þingi.

Síðan yrði að kjósa beint forsætisráðherra sem myndi setja saman ríkisstjórn og ráðherrarnir ættu ekki sæti á Alþingi.  Það yrði æðsta embætti á Íslandi.

Raunar tel ég rétt að kjósa í fleiri embætti á Íslandi en það er nú önnur saga.

Þá yrði þetta spurning um hvernig ætti að skipta þingmannasætunum. Ég myndi segja að höfuðborgarsvæðið ætti að eiga meirihluta þingmanna, einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að meirihluti þjóðarinnar býr þar.  Þannig fengi Reykjavík 19 þingmenn, Garðabær 2, Hafnarfjörður 4, Kópavogur 5 og Mosfellsbær og Seltjarnarnes sinn hvorn þingmanninn.  Hvernig Reykvíkingar myndu skipta þessum 19 sætum niður á hverfin er svo annað mál...

Fimm þingsæti kæmu á Reykjanesið, Þá yrðu fjögur þingsæti á Vesturlandi, þrjú á Vestfjörðum, þrjú á Norðurlandi Vestra, sex á Norðurlandi eystra, fjögur á Austurlandi og loks sex hér í Suðurkjördæmi.  Hvernig þau skiptast innan svæðisins er eitthvað sem ég ætla ekki að leggja mat á, enda skelfilega slappur í landafræðinni :-)

Miðað við íbúafjölda hlutfallslega á Suðurlandi ættu Vestmannaeyjar að fá einn þingmann.  Það yrði hreint og klárt kjör hér í Eyjum, eins og staðan er núna milli Árna Johnsen, Lúðvíks Bergvinssonar og Eygló Harðardóttur.  Það yrði athyglisverð kosning.

Við yrðum þingmönnunum fátækari, engin spurning en um leið værum við að fá beinan fulltrúa okkar á þing.  Ekki fulltrúa dreifðra byggða kjördæmisins alls. Þingmenn geta ekki sinnt öllu þessu svæði.  Eins værum við að koma í veg fyrir flakk atvinnupólitíkusa milli landshluta til að ná kjöri, a.k.a Árni Matt/Atli Gísla hér í Suðurkjördæmi.  Efast um að Selfyssingar vildu hafa Árna Matt (með fullri virðingu) sem einn af tveimur fulltrúum sínum.  Hann er Hafnfirðingur og ætti að bjóða sig fram þar.

Með þessu held ég að það yrði meira líf í þinginu. Það yrðu ekki svo margir „já" menn og konur sem fylgja flokkslínunni sama hvað tautar og raular. Vegna þess að þau vita að þau þurfa að sækja umboðið aftur til íbúanna á sínu svæði. Það verður engin uppröðun sem reddar þeim.

 Eins með því að skilja að ríkisstjórn og þing, þá yrði farið gagnrýnara yfir það sem kemur frá ríkisstjórninni.  Jafnvel gæti sú staða komið upp að flokksfélagi ráðherrans leggðist gegn frumvarpi hans eða að frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði hreinlega fellt.

 Ja, hérna, það yrði nú saga til næsta bæjar !

http://svenko.blog.is

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.