Tenging Vestmannaeyja við höfuðborgina er mjög mikilvæg

4.Desember'08 | 14:45

Arnar Sigurmundsson

MIKILL meirihluti landsmanna vill að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað í Vatnsmýri samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent, eða 70%. Samkvæmt könnuninni hefur þeim fjölgað um rúm 27% sem vilja halda vellinum síðan könnun var gerð á þessu í maí 2005. Meirihluti er nú einnig fyrir staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýri meðal Reykvíkinga, sem er mikið fagnaðarefni. Eyjamenn hljóta að fagna þessu og binda vonir við að togstreitunni um flugvöllinn ljúki með sátt um áframhaldandi uppbyggingu hans í Vatnsmýri.

Sem landsbyggðarmaður sem þarf atvinnu sinnar vegna að ferðast mikið þekki ég það af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa greiðar samgöngur til höfuðborgarinnar, jafnt sem fulltrúi í trúnaðarstörfum fyrir bæjarstjórn Vestmannaeyja og ekki síður vegna formennsku minnar fyrir Samtök fiskvinnslustöðva um langt árabil. Verkefnin krefjast mikilla samskipta, bæði við stjórnsýslustofnanir og aðra aðila í höfuðborginni. Þessum verkefnum verður ekki sinnt sem skyldi án greiðra flugsamgangna beint til Reykjavíkur. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa lagt mikla áherslu á mikilvægi flugvallarins fyrir flugsamgöngur í landinu og ávallt lagst eindregið gegn hugmyndum um flutning hans annað. Staðsetning vallarins er mál allra landsmanna en ekki einkamál Reykvíkinga og þeirra sem stjórna höfuðborg þjóðarinnar á hverjum tíma. Bæjaryfirvöld í Eyjum hafa einnig lagt ríka áherslu á að staðsetning flugvallarins í næsta nágrenni við Landspítala - háskólasjúkrahús skipti miklu þegar flytja þarf sjúklinga utan af landi með hraði á sjúkrahús í höfuðborginni. Þar geta mínútur skipt sköpum.


Fólk og fyrirtæki
Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að umtalsverður hluti farþega í innanlandsflugi til og frá Reykjavík ferðast af viðskiptaástæðum. Tíminn skiptir máli við að ljúka erindum sínum aðallega innan póstsvæðis 101, þar sem mestur hluti stjórnsýslu landsins er staðsettur. Þetta er sá hópur viðskiptavina flugfélaganna sem leggur höfuðáherslu á að nýta tíma sinn til hins ýtrasta áður en haldið er heim á ný. Nærri 50 þúsund manns fljúga árlega milli Eyja og Reykjavíkur. Óhagræðið af flutningi flugvallarins frá Reykjavík er öllum ljóst sem kynna sér málið. Það væri þó sérstaklega bagalegt fyrir Eyjamenn sem lengi hafa búið við erfiðar samgöngur milli lands og Eyja enda þótt hilli undir samgöngubætur á sjó eftir tvö ár með ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Flugtími milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur er um 20 mínútur. Siglingatími með Herjólfi og akstur til Reykjavíkur tekur rúmlega 3,5 klst. Eyjamenn og aðrir hafa einnig notið þess að geta ferðast flugleiðis lungann úr árinu til Bakkaflugvallar í Landeyjum og tekur flugferðin og akstur til Reykjavíkur samtals um 2 klst. Með tilkomu ferju til Bakka verður ferðatími til Reykjavíkur 2 klst. og 15 mínútur. Það er því öllum ljóst að áfram verður þörf fyrir beint flug til Reykjavíkur og í því sambandi skiptir tími, kostnaður og öryggi mestu máli.

Ekki einn í heiminum
Í raun eru það ótrúleg forréttindi fyrir alla landsmenn að hafa góðan og öruggan innanlandsflugvöll í hjarta höfuðborgarinnar. En það er fráleitt einsdæmi. Nægir að nefna City-flugvöll í miðborg Lundúna, Manchester-flugvöll í miðborg Boston, Ronald Reagan í Washington og svona mætti lengi telja. Allir þessir flugvellir þjóna tugum flugfélaga sem flytja samanlagt margar milljónir farþega milli áfangastaða. Það væri óskandi að borgaryfirvöld í Reykjavík áttuðu sig á mikilvægi staðsetningar Reykjavíkurflugvallar fyrir fólk og fyrirtæki á öllu landinu. Borgina hlýtur auk þess að muna um störf þeirra hundraða einstaklinga sem hafa atvinnu af starfseminni þar sem hún er. Reykjavíkurflugvöllur er flugvöllur allra landsmanna og borgaryfirvöld geta ekki rutt honum úr vegi og þvingað hann annað án tillits til vilja þjóðarinnar.
Höfundur er formaður framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva og áhugamaður um flugvöllinn í Vatnsmýri.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.