Hafa meðfæddan hæfileika til að skora mörk

25.Nóvember'08 | 11:41

ÍBV Heimir Hallgrímsson

Heimir Hallgrímsson er þjálfari ÍBV sem verður nýliði í Landsbankadeildinni næsta sumar. Hann er byrjaður að styrkja lið sitt fyrir baráttuna í deildinni næsta sumar og hefur fengið til liðs við sig tvo framherja, Elías Inga Árnason frá ÍR og Viðar Örn Kjartansson frá Selfoss. Hann segir liðið hafa vantað framherja.

Vestmannaeyjar góður staður fyrir þá til að bæta sig
,,Nú er liðið búið að spila tvö tímabil undir minni stjórn. Við byrjuðum fyrra tímabilið án þess að hafa framherja eða þar til Atli Heimisson kom til okkar í fimmtu umferð en þá vorum við lítið búnir að skora," sagði Heimir í samtali við Fótbolta.net í gær.

,,Atli er búinn að vera eini framherjinn okkar í þessi tvö tímabil og sem betur fer hefur hann staðið sig vel og skorað mikið þrátt fyrir að spila oft á tíðum hálf meiddur. Við höfum verið að leita að öðrum framherja allan þenna tíma en ekkert gengið."

,,Það var alltaf markmiðið að byrja á að finna framherja og þessir strákar voru fyrstu nöfnin sem ég sagði stjórninni að ég vildi fá. Þrátt fyrir að hvorugur þeirra hafi spilað leik í efstu deild. Þetta er alltaf spurningamerki hvort þetta sé of stórt stökk fyrir þá, en þeir hafa báðir sama hæfileikann líkt og Atli þessir strákar, meðfæddan hæfileika til að skora mörk. Þegar þú hefur þann hæfileika þarf oft lítið að bæta til að menn blómstri."

,,Þeir geta skorað alltaf, allstaðar, í öllum deildum. Þú getur búið góðan varnarmann og góðan miðjumann, en það er mjög erfitt að búa til góðan markaskorara. Sá eiginleiki að skora mörk kemur yfirleitt frá náttúrunnar hendi. Þeir eiga klárlega eftir að bæta sig þónokkuð til að ná úrvalsdeildarklassa og ég held að Vestmannaeyjar sé góður staður fyrir þá til að bæta það sem vantar uppá."

,,Það sem hreif mig við þá var hversu metnaðarfullir þessir strákar eru og hversu staðráðnir þeir voru í því að ÍBV væri rétti kosturinn fyrir þá. Það er eitthvað sem segir mér að þessir strákar eigi eftir að koma á óvart næsta sumar."

Býst við að Atli Heimisson fari frá ÍBV
Atli Heimisson sem er 21 árs gamall kom til ÍBV í fyrrasumar og á þeim tíma sem hann hefur þar hefur hann skorað 26 mörk í 43 leikjum í deild og bikar. Líklegt er að ÍBV missi hann núna og hann fari í atvinnumennsku hjá 2. deildarliði Asker í Noregi. En önnur lið hafa einnig verið að spyrjast fyrir um hann.

,,Við búumst við því að hann fari," sagði Heimir. ,,Staðan er þannig núna að hann er sjálfur kominn með samning við Asker og það er klásúla í samningnum hans við okkur að hann megi fara fyrir ákveðna upphæð. Ég sé ekki að sú upphæðn eigi eftir að verða einhver þröskuldur fyrir erlend lið. Ég býst við að hann fari en vona náttúrulega að við fáum að halda honum því skarð hans er vandfyllt. Eins og staðan er núna er krónan frekar lág fyrir erlend lið og íslenskir leikmenn eru ódýrt vinnuafl."

Ekki er loku fyrir það skotið að ÍBV missi fleiri leikmenn í vetur en Bjarni Hólm Aðalsteinsson er nú á reynsluæfingum hjá FC Fyn í Danmörku.

,,Við misstum Brasilíumanninn Italo á miðju tímabili og svo er óvissa með tvo leikmenn. Það eru Bjarni Hólm sem er í Danmörku núna og Matt Garner sem er spurningamerki en ég vona að við höldum honum. Það eru flest lið hér á landi mun ríkari en ÍBV ég tala nú ekki um erlend lið og við getum lítið að því gert ef þeir bjóða betri samninga en við. Það er eðlilegt að menn stundi vinnu sína þar sem þeir fá bestu launin. Ég vona að við höldum báðum þessum leikmönnum en ég veit ekki hvað verður. Við höfum verið að ræða við þá og það er ljóst að Bjarni Hólm spilar með ÍBV ef hann verður hér á landi."

Höfum ekki efni á að kaupa dýra menn
Elías Ingi og Viðar Örn eru fyrstu leikmennirnir sem ganga til liðs við ÍBV síðan ÍBV tryggði sér sæti í Landsbankadeildinni að nýju með því að vinna 1. deildina. Heimir segist þurfa að styrkja liðið frekar.

,,Við þurfum að styrkja liðið, það er alveg klárt, svo er spurningin hvort það sé til peningur til þess. Við höfum ekki frekar en önnur lið efni á að kaupa dýra leikmenn núna. En vonandi getum við styrkt liðið eitthvað fyrir baráttuna framundan. Það skýrirst nú sennilega ekki fyrr en líður að móti." sagði Heimir.

Bjarnólfur Lárusson tók fram skóna að nýju í sumar og lék 6 leiki með ÍBV í fyrstu deildinni, Heimir segir ekki ljóst hvort Bjarnólfur leiki með liðinu en vinnu sinnar vegna er mjög erfitt fyrir hann að vera í Vestmannaeyjum.

Næsta sumar verður sýningagluggi
Landsbankadeildin verður töluvert breytt næsta sumar frá því sem var í sumar enda má búast við að vegna efnahagsástandsins hér á landi verði enn minna um erlenda leikmenn auk þess sem mikill fjöldi leikmanna hyggur á að leika erlendis. Heimir lítur á það sem tækifæri fyrir íslenska leikmenn.

,,Þetta er sýningagluggi fyrir ungu strákana á næsta ári. Það eru nánast allir útlendingarnir farnir og búið að selja héðan fjölda íslenskra leikmanna sem samsvarar einu til tveimur byrjunarliðum úr Landsbankadeildinni. Það verða öll augu á íslenska boltanum, flott umfjöllun á Stöð 2 og Ríkissjónvarpinu og mörg erlend félög að fylgjast með þessari deild í leit að ódýru vinnuafli," sagði Heimir að lokum í spjalli við Fótbolta.net.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.