Fróðleg ævisaga

23.Nóvember'08 | 07:15

Stebbi Run

Vestmannaeyjar hafa löngum haft nokkra sérstöðu meðal íslenskra byggðarlaga og saga eyjanna er í senn forvitnileg og viðburðarík. Á Heimey hefur frá aldaöðli verið ein stærsta, og stundum stærsta, verstöð á Íslandi og reyndar við norðanvert Norður-Atlantshaf.

Sú saga er öll einkar athyglisverð og kanadískur sagnfræðingur, sem hefur sérhæft sig í sögu fiskveiða, sagði eitt sinn við þann sem þessar línur ritar, að í rauninni mætti skrifa fiskveiðisögu Norður-Atlantshafs út frá sögu Vestmannaeyja. Það er ef til vill fullmikið sagt, en þó ekki fjarri lagi. Eyjarnar eru nánast mitt í einhverjum bestu og gjöfulustu fiskimiðum í Norður-Atlantshafi og þangað hafa sjómenn úr flestum landshlutum og af ýmsu þjóðerni sótt til veiða í aldaraðir.

Af sama leiðir að sjávarútvegur hefur frá upphafi verið helsta atvinnugrein Eyjamanna og þar hafa þeir átt marga stórmerka forystumenn. Er þá sama hvort litið er til sjómanna, útgerðarmanna eða þeirra sem hafa stjórnað og annast fiskvinnslu og fisksölu í Eyjunum. Þeir hafa margir skarað fram úr og verið meðal ötulustu, dugmestu og þekktustu sjávarútvegsmanna á Íslandi á hverjum tíma.
Einn þessara manna er Stefán Runólfsson, eða Stebbi Run eins og hann er kallaður í Eyjum og meðal þeirra sem þekkja hann vel. Hann átti langan, merkilegan og farsælan feril í íslenskum sjávarútvegi og upplifði nánast allar breytingar sem urðu í atvinnugreininni frá því fyrir miðja 20. öld og allt fram á þessa öld. Hann er fæddur í Vestmannaeyjum, fór ungur að vinna við fiskverkun og fiskvinnslu og fékk fljótlega mannaforráð. Hann starfaði lengi sem verkstjóri í Hraðfrystistöðinni hjá Einari Sigurðssyni (Einari ríka) og varð síðan framkvæmdastjóri fyrirtækis Einars í Keflavík um skeið. Þaðan lá leiðin aftur til Eyja þar sem Stefán var um árabil verkstjóri og framkvæmdastjóri í stórum fiskvinnslufyrirtækjum og þegar því tímabili ævinnar lauk fluttist hann til Stokkseyrar og gerðist framkvæmdastjóri Harðfrystihúss Stokkseyrar um skeið. Af dvölinni þar er forvitnileg saga, sem hætt er við að ýmsir ráðamenn myndu heldur vilja láta liggja í þagnargildi. Starfsferlinum í sjávarútvegi lauk Stefán sem eftirlitsmaður.

Af löngum starfsferli Stefáns í íslenskum sjávarútvegi er mikil og fróðleg saga, sem hann rekur fyrir skrásetjara sínum Óskari Þór Karlssyni í þessari bók. Frásögn hans er öll skýr og skemmtileg og mér þykir trúlegt að margir munu fagna því að geta fræðst um þróunina í sjávarútveginum, og þó einkanlega fiskvinnslunni í Eyjum og víðar, á tímabilinu frá því um 1940 og fram um aldamótin 2000. Lýsingar Stefáns á vinnu- og vinnsluaðferðum eru stórfróðlegar. Þegar hann hóf störf var handaflið enn nánast allsráðandi í öllum störfum við fiskvinnslu og -verkun, en smám saman tók tæknin að ryðja sér til rúms, dró úr erfiði karla og kvenna, jók afköst og nákvæmni og bætti meðferð á hráefni sem fullunninni vöru. Öllu þessu lýsir Stefán á lifandi og skemmtilegan hátt og frásögn hans er með þeim hætti, að jafnvel þeir sem aldrei hafa komið nálægt fiski eða fiskvinnslu hljóta að skilja. Enn betri verður sagan fyrir þá sök, að Óskar Þór, skrásetjari æviminninganna, er einnig fiskvinnslumaður og kann því góð skil á efninu. En Stefán lét sér ekki nægja að starfa í sjávarútvegi. Hann var félagsmálagarpur, var lengi formaður ÍBV og í gosinu á Heimaey árið 1973 stóð hann vaktina flestum lengur. Frá þeim atburðum segir einnig gjörla í þessari bók og frá ýmsu sem drifið hefur á daga sögumanns og snertir aðra hluti en vinnu og félagsstörf.

Eins og vænta má um mann sem hefur unnið langan starfsaldur á fjölmennum vinnustöðum, hefur Stefán Runólfsson kynnst mörgu fólki um ævina. Þar er vissulega misjafn sauður í mörgu fé og margt skemmtilegt og frásagnarvert hefur borið við. Æviminningarnar eru kryddaðar mörgum lýsingum á eftirminnilegum atburðum og skemmtilegu fólki (sumu reyndar heldur leiðinlegu), góðum tilsvörum og stundum ótrúlegum uppátækjum. Stefán er sögumaður góður og stálminnugur, talar tæpitungulaust og frásögn hans er full af skemmtilegu og græskulausu gamni.

Þetta er á allan hátt stórfróðleg og vel skrifuð bók, sem tvímælalaust á erindi við fjölmarga Íslendinga. Þótt ekki sé liðinn nema tæplega mannsaldur frá því flest af því gerðist, sem hér er sagt frá, er saga Stefáns að verulegu leyti lýsing á veröld sem var og kemur líkast til aldrei aftur.

Jón Þ. Þór

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.