Samgöngur, kvótinn og fundur með FF

16.Nóvember'08 | 07:22

Georg Arnarson

Það er alveg með ólíkindum, þessi sending sem við eyjamenn vorum að fá frá ríkisstjórninni um að smíði nýrrar ferju sé frestað um óákveðinn tíma, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að í ríkisstjórnarmeirihlutanum sitji núna þeir tveir þingmenn, sem ættaðir eru úr eyjum og í raun og veru er ótrúlegt að hugsa til þess að aðeins er liðið tæpt ár síðan Árni Johnsen fór upp í pontu á Alþingi og lýsti því yfir, að eyjamenn þyrftu að fá nýjan Herjólf strax. Sama gildir um Lúðvík Bergvinsson, sem sat í bæjarstjórnar meirihlutanum á síðasta kjörtímabili og veit vel, hversu mikilvægar samgöngur okkar eru, en þegar á reynir, þá virðast báðir þessir þingmenn alveg hafa gleymt því, hvaðan þeir koma og hvar þeir sækja fylgi sitt. Ég skora á báða þessa þingmenn að svara kalli eyjamanna um bættar samgöngur og krefst þess að þeir svari því, hvenær og hvernig samgöngur okkar verða lagaðar, vegna þess, að miðað við nýjustu tíðindi, þá hafa samgöngur okkar aldrei verið verri en í dag. Einnig finnst mér hlutur bæjarstjórans, Elliða, mikill í þessu klúðri og hefur það oft verið alveg með ólíkindum að lesa þvæluna, sem kemur frá þessum meirihluta hér í bæ, sem m.a. hefur lýst því yfir marg ítrekað, að fullt af fólki sé að fara að flytja til Vestmannaeyja, vegna þess að Bakkafjara sé að koma. Það eina góða við þessa málaliktan er kannski það, að kannski fá eyjamenn eftir allt saman að kjósa um sín samgöngumál í næstu bæjarstjórnarkosningum, en það kemur þá bara í ljós.

Það er mikil umræða um mikilvægi sjávarútvegsins og ég sé að sumir hér í eyjum nefna nýjustu hugmyndir Frjálslynda flokksins, þ.e.a.s. hugmyndir um að innkalla aflaheimildir og skuldir. Í sjálfu sér er þetta ekki óeðlilegt, sérstaklega ef rétt er, að veðsetning á sjávarútvegi vegna falls gengisins sé hugsanlega orðið mun meiri, heldur en verðmæti alls kvótans, en að sjálfsögðu þarf að útfæra allar slíkar hugmyndir betur, en til að útskýra málið í stuttu máli, fyrir þá sem ekki skilja, þá er ekki óeðlilegt að tala um að útrás bankanna hafi byrjað á svipuðum tíma, eða fljótlega eftir að frjálsa framsalið á aflaheimildum var leyft. Ég tel hins vegar að mjög fáir í dag skilji allt það rugl, sem er í gangi í núverandi kvótakerfi. Ef við tökum veðið sem dæmi, þá er alveg ljóst að þeir sem keyptu aflaheimildir fyrir 2 árum síðan í þorski, þegar kvótinn var 190 þús. tonn og verðið á tonninu 4,2 milljónir, hljóta að standa illi í dag, þegar þorskkvótinn er komin niður í 130 þús. tonn og nýjasta sala sem ég hef heyrt um, er 1750 þúsund á tonnið, fyrir utan það að sá sem keypti fyrir 100 milljónir fyrir 2 árum, skuldar í dag að öllum líkindum yfir 200 milljónir og kvótinn hefur verið skorinn niður um 30%. Ekki gott mál, en hver veit, kannski kvótinn verði aukinn og kannski gengið lagist á næsta ári, en ekki er útlitið gott.

Það er mikill misskilningur í gangi hér í eyjum varðandi hugmyndir Frjálslynda flokksins um kvótakerfið og er ég enn að heyra fólk hér tala um það, að ef FF kemst í ríkisstjórn, þá verði allar aflaheimildir teknar frá eyjamönnum. Þetta er að sjálfsögðu argasta þvæla, því að sjálfsögðu mun þurfa sjómenn og útgerðarmenn til að veiða fiskinn áfram. FF vill hinsvegar taka á þeim, sem eru ekki að nýta sínar aflaheimildir og eru að nota smugur í kerfinu til þess að braska fyrst og fremst. Ágætt dæmi heyrði ég um daginn um mann ofan af landi, sem var búinn að selja bátinn sinn, en er einfaldlega með lögfræðinga sem sjá um alla pappírsvinnuna og hann fær einfaldlega ávísun í sept. á hverju ári og þarf ekkert að gera. Svona var þetta kerfi ekki lagt upp í upphafi og þessu þarf svo sannarlega að breyta.

Ég ætla að enda þetta með þessu: Ég skora hér með á sjómenn og útgerðarmenn í eyjum að mæta niðri í Kaffi Kró n.k. fimmtudag, 20 nóv. kl 20. Á staðnum verða Grétar Mar Jónsson, Alþingismaður og Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður FF. Fundurinn er opinn öllum og heitt á könnunni. Ef einhvern tímann er þörf á að ræða málin, þá er það svo sannarlega núna.

http://georg.blog.is

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.