Þagnið, dægurþras og rígur

13.Nóvember'08 | 07:36
Í ÞJÓÐHÁTÍÐARRÆÐU sinni 1963 vitnaði Ólafur Thors þáverandi forsætisráðherra til ljóðs Hannesar Hafsteins með þessum orðum:

„Ef einhver spyrði mig hvað mér fyndist mestu skipta hvað varðar þjóðlífið í dag myndi mér nokkur vandi á höndum. Ég myndi ávarpa þjóðina en ekki síst þá sem lengi árs sitja innan veggja Alþingishússins með þessum orðum, Þagnið - dægurþras og rígur".

Vegvísir er fyrsta skrefið
Umræður um ESB þurfa að hefjast á því að þaggað sé niður í dægurþrasi og ríg. Alþingi á að leiða vinnu fyrir hönd Íslendinga þar sem komið er upp vegvísi og heimavinnu lokið áður en hægt er að fara að tala um aðildarviðræður eða meta tilganginn með þeim. Landsmenn eiga algera heimtingu á því að fá upplýsingar um það hvaða brýnu og ótvíræðu þjóðhagslegu hagsmunir eru lagðir til grunns. Á hvaða tímapunkti á að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu? Á að greiða atkvæði um það hvort það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan aftur þegar niðurstaða samningaviðræðna liggja fyrir? Hvenær á að breyta stjórnarskránni? Hvaða reglur eiga að vera um þjóðaratkvæðagreiðslur? Með öðrum orðum, hvernig á að fara í málið? Það er brýnasta spurningin sem þarf að svara. Þegar slíkur vegvísir liggur fyrir þekkjum við samningsmarkmið og leiðir. Þá fyrst er hægt að spyrja hvort manni hugnist aðildarviðræður miðað við þær forsendur sem þá hafa komið fram. Enn bólar hinsvegar ekki á slíkum vegvísi.
Á meðan hlýt ég að spyrja „Til hvers er ég að taka afstöðu ef ég segi „allt í lagi - látum reyna á aðildarumsókn"? Er ég þar með að samþykkja að pólitískir fulltrúar ræði framsal á öllum veiðum utan 12 mílna? Er ég þar með að samþykkja að samið verði um að Spánverjar og Hollendingar stundi kvótahopp hér við Ísland eins og þeir hafa stundað í Bretlandi? Er ég að samþykkja þá veiðistjórn sem gefið hefur af sér 88% ofveiði á fiskistofnum aðildarlanda? Er ég að samþykkja að rætt verði að ESB annist alfarið útdeilingu á deilistofnum? Hvað er það sem fólk á við þegar það segir að það vilji taka upp viðræður? Viðræður á hvaða forsendum?


Umræðan er vopnaskak
Þagnið - dægurþras og rígur. Kjarnyrt krafa þess að stærstu hagsmunamál íslensku þjóðarinnar séu ekki klædd í búning dægurþras og rígs. Krafa þess að menn vandi málflutning og flytji ekki einhliða og falskan boðskap aðlagaðan að eyrnagöngum og vonum almennings á hverjum tíma. Í dag er umræðan um Evrópusambandið öðru fremur vopn í skaki stjórnmála og hagsmunir þjóðarinnar sendir á sextugt dýpið á meðan bröltið á sér stað. Myndin er í tveimur litum, í svörtu og hvítu, reiknimeistarar aðildarsinna stíga fram á sjónarsviðið með fyrirfram gefnar niðurstöður úr reiknidæmi sem þeir hafa ekki enn séð.

Aðildarviðræður eru ekki viðræður samlyndra hjóna
Það hefur vakið bæði undrun mína og reiði að heyra málsmetandi stjórnmálamenn nálgast Evrópusambandsaðild líkt og um væri að ræða samkomulag samlyndra hjóna um hvert ætti að fara í langþráð sumarfrí. Rétt eins og öll okkar hagsmunamál séu léttvæg samningsatriði og auðvelt sé að fá varanlegar undanþágur hjá ESB. Aðild er rædd eins og hlaðborð þar sem maður getur valið þá rétti sem manni hugnast best og sleppt því sem kann að vera bragðvont eða jafnvel baneitrað. Stuðningsmenn aðildar hafa hingað til gleymt að setja bensín á bílinn áður en lagt var af stað. Þess vegna hafa þeir setið fastir, hamast á bensíngjöfinni og ekkert skilið í því afhverju druslan hreyfist ekki úr stað. Nú hefur þeim hinsvegar gefist tækifæri til að nota viðsjárverðartíma í efnahagsmálum til að hreyfa við málinu. Nota atvinnuleysi, verðbólgu, ótta og vanlíðan sem eldsneyti á Evrópuvagninn.

Markmiðið er heill íslensku þjóðarinnar
Nú er kominn tími til þess að umræða um Evrópusambandið sé flutt af sviði dægurþrass og rígs og yfir í vitræna pólitíska umræðu. Tafarlaust þarf að ráðast í gerð vegvísis fyrir íslensku þjóðina þar sem tekið er á helstu álitamálum hvað þetta brýna úrlausnarefni varðar. Vinnu þessa þarf að leiða af Alþingi. Frá því að störf hefjast mætti sennilega ljúka vönduðum vegvísi á 6 til 9 mánuðum. Í kjölfarið mætti svo kalla eftir vilja Íslendinga til umsóknar á forsendum vegvísisins með atkvæðagreiðslu. Kjósendur gætu þar með tekið afstöðu til þess hvort þau samningsatriði sem lagt er upp með hugnist þeim eður ei. Ef þjóðaratkvæðagreiðsla yrði svo til þess að farið yrði í aðildaviðræður yrði að kjósa aftur um þann samning sem hugsanlega myndi nást áður en gengið er inn. Að gerð vegvísis kæmu að sjálfsögðu fulltrúar sem flestra hagsmunaaðila. Í vinnu þessari þarf eins og fyrr segir að lista upp hvaða vegferð er framundan og í hvaða meginmarkmiði er lagt upp í vegferðina, verði slíkt gert. Tiltaka þarf nákvæmlega hver samningsmarkmið yrðu, hvers verður krafist hvað varðar stjórn á auðlindinni, hverju erum við til í að láta brjóta á. Markmiðið er nefnilega ekki að fara inn í Evrópusambandið frekar en það er að standa utan þess. Markmiðið er heill íslensku þjóðarinnar.

Höfundur er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.