Umræðan um ástandið í bankaheiminum hefur haft áhrif á líðan fólks

30.Október'08 | 08:18

séra Kristján Björnsson

Síðustu vikurnar hafa fréttatímar einkennst af neikvæðum fréttum af fjármálaheiminum og margir hafa tapað eignum og afborganir einstaklinga af lánum hafa hækkað svo um munar. Lítið er um jákvæðar fréttir og nú þegar myrkva tekur fyrr á daginn þá má búast við því að þunglyndi og depurð taki sig upp hjá fjölmörgum.

Landakirkja hefur í samstarfi við Vestmannaeyjabæ, Visku og stéttarfélögin í Vestmannaeyjum tekið upp samstarf til að mæta vanda fólks í þeirri bankakreppu sem nú skellur svo harkalega á Ísland.

Eyjar.net sendi nokkrar spurningar á séra Kristján Björnsson til að forvitnast um hvað sé í boði fyrir einstaklinga sem eiga um sárt að binda þessa dagana.

Hafið þið prestar Landakirkju orðið varir við aukningu í sálgæslu og viðtöl við ykkur eftir að ástand efnahagsmála versnaði svo skart fyrir nokkrum misserum síðan?
Það er ekki hægt að segja að ég hafi átt mikið fleiri viðtöl en oft á þessum tíma en erfiðleikarnir eru miklir. Haustið og upphaf vetrar er frekar erilsamur tími í venjulegu ári. Þyngslin eru samt meiri hjá fólki og áhyggjur af því hvað muni verða. Þessar vikurnar hafa verið erfiðar og það er mikil óvissa í loftinu. Umræðan um ástandið í bankaheiminum hefur haft áhrif á líðan fólks án þess að það hafi beint orðið fyrir persónulegu tjóni af verðfalli eigna eða vinnumissi. Reiðin, sektarkennd og ásakanir eru áberandi og en það er líka talsverður kvíði búinn að vera í loftinu. Aukningin í sálgæslu liggur m.a. í því hvað ástandið er almennt og erfitt að greina hvað er raunverulega að gerast á líðandi stundu.

Hvert geta einstaklingar í vanda snúið sér í dag ?
Það hefur verið hluti af sameiginlegum viðbrögðum að setja upp ráðgjöf í fjármálum í Sparisjóðnum. Hjá Visku var settur upp fundur um viðbrögð við áfallastreitu og álagseinkennum þar sem við vorum m.a. að greina eðlileg tilfinningaleg viðbrögð sem er líkt og gera má í áfallahjálpinni. Það kemur vel til greina að endurtaka hann ef áhugi reynist á því. Svo er það líka fjölskyldusvið Vestmannaeyjabæjar og úrræði sem ráðgjafar þar geta bent á.

Hvaða úrlausnir hafið hjá Landakirkju þið til handa fólki sem leitar til ykkar með sín vandamál?
Í Landakirkju er boðið upp á sálgæslu og viðtöl. Kirkjan er opin öllum en gott að ákveða viðtalstíma með því að hringja í vaktsíma prestanna 488 1508. Við höfum getað haft milligöngu um innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar í formi smálegra matarúttekta. Það er frekar takmarkað úrræði alla jafna þótt það hafi verið notað óvenju mikið að undanförnu. Þá höfum við getað bent fólki á sálgæslu og ráðgjöf hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Það eru upplýsingar um þetta á heimasíðu Landakirkju, landakirkja.is. Svo má líka benda á nokkra reglulega þætti í safnaðarstarfinu sem eru góðir fyrir sálina, s.s. mömmumorgna, biblíulestra, helgistundir og messuna á sunnudögum.

 

Nú er oft sagt að Guð sé bara einni bæn í burtu, telurðu að einstaklingar leiti í meiri mæli í trúna þegar eitthvað bjátar á?
Ég veit fyrir víst að margir finna mikinn styrk í trúnni á Drottinn á erfiðum tímum. Það gerist líka núna. Reyndar held ég að mörgum líði eins og Guð sé alls ekkert í burtu. Hann er nær en andblær sem leikur um blóm eða kinn. Mér finnst ég þekkja marga sem leita til hans í bæn þegar á bjátar en líka mjög marga sem ræða við hann um mál sín á hverjum degi. Það er fallegt að heyra af hjónum sem biðja saman áður en þau leggjast til svefns á kvöldin, eða heyra af fólki sem kallar hann til samfylgdar við sig að morgni.

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.