24. landsþing smábátasjómanna og vorboðinn ljúfi

27.Október'08 | 10:38

Georg Arnarson

Ég var í fyrsta skipti á landsþingi smábátasjómanna núna fyrir helgi. Margvísleg málefni voru tekin fyrir og sum samþykkt en önnur ekki. Sumu var ég sammála en öðru alls ekki. Heitasta málið var, eins og vanalega skilst mér, byggðakvótinn. Þar sem ég kem frá Vestmannaeyjum, þá var ég að sjálfsögðu á móti byggðakvótanum (á síðasta fiskveiðiári voru tekin 440 tonn af þorski, 725 tonn af ýsu, 59 tonn af steinbít og eitthvað af ufsa, eða samt. hátt í 1300 tonn, sem mundu nægja til að halda uppi atvinnu hér í frystihúsi í nokkra mánuði). Það var einnig ljóst, að það voru mjög skipar skoðanir hjá öðrum sjómönnum og m.a. þá var samþykkt í sjávarútvegsnefnd, að byggðakvóti yrði lagður af. Hins vegar, þegar kosið var um endanlega niðurstöðu, þá var samþykkt tillaga (þrátt fyrir hávær mótmæli margra) að skora á þingmenn að standa vörð um byggðakvótann. Sem dæmi um vitleysuna í þessu, þá kom fram á fundinum, að Rif á Snæfellsnesi hefði fengið 40 tonn af byggðakvóta í sinn hlut, en fyrir aðeins 3 vikum síðan, voru leigð 3 tonn af þorski inn á bátinn hjá mér og ég sé að báturinn, sem er skráður fyrir þessum tonnum, er einmitt skráður á Rifi. Þetta finnst mér algjörlega út í hött.

Sjávarútvegsráðherra var með ágæta ræðu á þinginu og svaraði síðan fyrirspurnum. Það sem mér þótti merkilegast var að menn voru almennt sammála um það, að ráðherra hefði gefið það í skin, að aukið yrði í þorskkvótann síðar á fiskveiðiárinu. Það sem hins vegar kom mér mest á óvart í ræðu ráðherra er, að í fyrsta skipti kom fram atriði, þar sem ég er sjávarútvegsráðherra algjörlega sammála og er þar um að ræða sá skaði, sem að mínu mati, sjávarútvegur á Íslandi yrði fyrir ef við gengum í ESB. Fundurinn var haldinn í turninum í Smáranum. Útsýnið þaðan er ægifagurt og ekki var maturinn til að kvarta yfir.

En að öðrum málum. Ég fór á sjó í dag, fiskiríið var svona eins og veðrið, frekar lélegt, eða 100 kg á bjóð. Tvennt var þó nýtt í þessum róðri, frá öðrum róðrum að undanförnu. Ég fékk lítinn kolkrabba í dag og kom honum lifandi á sædýrasafnið. Hitt var að ég hef að undanförnu verið að líta í kringum mig á sjónum, hvort að ég sæi ekki það sem ég kalla þessu undarlega nafni (allavega miðað við hvaða tími er) vorboðinn ljúfi. Málið er það, að í dag sá ég tvær álkur sunnan við eyjar. Þetta er reyndar alþekkt. Svartfuglinn fer í byrjun ágúst og byrjar að koma í lok október, eða svona einn og einn fugl, en vegna alls þessa neikvæða krepputals, þá ætla ég að halda mig við það að kalla þetta vorboðann ljúfa.

Eitt að lokum til gamans. Það hefur verið hálfgerður slagur stundum hjá sumum eyjamönnum um það, hver er fyrstur að setja upp jólaseríurnar. Þetta hefur aldrei truflað mig neitt, en fer alveg ægilega mikið í taugarnar á sumum. Sigurvegarinn í ár er hinsvegar ótvíræður, því að Ystaklettsmenn eru búnir að vera með kofann í Ystakletti skreyttan frá því á lundaballinu, en það í sjálfu sér kemur mér ekkert á óvart, því eins og ég skrifaði hér á blogginu mínu fyrir rúmu ári síðan, þá hef ég jú fyrir nokkru síðan fengið það staðfest, að jú, jólasveinarnir þeir eiga víst heima í Ystakletti.

Meira seinna.

http://georg.blog.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.