Helgarfrí og Lundinn

13.Október'08 | 08:18

Georg Arnarson

Ég og mín fjölskylda höfum vanið okkur á það á síðustu árum, að fara a.m.k. einu sinni á hausti upp í Ölfusborgir til að slaka á og var farið um síðustu helgi. Reyndar var meiningin að fara á fimmtudeginum, en þar sem að það var sjóveður þann daginn, þá sendi ég dömurnar á undan og réri sjálfur (2,4 tonn á 12 bala), en fór svo á föstudeginum. Þetta skip St. Ola er ágætis sjóskip, þó að það sé gamalt, en það vakti sérstaka athygli mína, að í umfjöllun minni um Bakkafjöru á síðasta ári, þá hef ég oft nefnt það, að ég hefði viljað fá ca. 100 m skip á þessari siglingaleið, sem gengi a.m.k. 20 mílur, en helsta gagnrýnin sem ég hef fengið við þá hugmynd er að höfnin í Þorlákshöfn sé einfaldlega of lítil fyrir svo stórt skip, enda er Herjólfur aðeins 70 metrar. Hins vegar er St. Oli 86 metra skip og þrátt fyrir að vera með mjög lélegar og litlar hliðarskrúfur, þá gekk nú ágætlega að komast inn og úr höfninni.

Helgin var fyrst og fremst, eins og segir, notuð til slökunar og heimsókna, en ég notaði líka tækifærið og kíkti aðeins á sjávarútvegssýninguna og þótti nokkuð merkilegt að sjá, hversu margar hafnir á landinu voru með bása, á meðan ein öflugasta sjávarútvegshöfnin á landinu, Vestmannaeyjahöfn, sá ekki ástæðu til að vera með.

Meiningin var að fara heim með seinni ferð á mánudeginum, en þá kom heldur betur babb í bátinn, því að vegna slæms veðurs voru báðar ferðirnar felldar niður þann daginn. Ákváðum við því að taka fyrri ferð á þriðjudeginum, en enn var lukkan ekki með okkur, því að vegna vélarbilunnar í skipinu var ákveðið að skipið færi ekki nema eina ferð og það kvöldferðina til eyja. Í milli tíðinni ákváðum við því að skreppa í bæinn. Í bænum fór frúin að finna fyrir einhverjum óþægindum, sem endaði með því að við fórum upp á Landsspítala, sem var gjörsamlega yfirfullur af fólki og voru rúm út um alla ganga, sem gerði það aftur að verkum að við fengum ekki læknir til að kíkja á hana fyrr en rétt fyrir 7. Fengum við þá að fara, fórum við í hendingskasti yfir heiðina og komum niður á bryggju eina mínútu í hálf átta, en því miður var skipið þá farið frá bryggju, svo við urðum að redda okkur gistingu eina nótt í viðbót og fórum svo heim með fyrri ferð daginn eftir. Mér þótti líka dapurlegt að þegar ég hringdi morguninn eftir á Herjólfsafgreiðsluna til að breyta miðunum, þá var mér tilkynnt það, að þar sem ég hefði ekki látið vita deginum áður að ég kæmist ekki, þá hefðu þeir miðar fallið niður og varð ég að gjöra svo vel að kaupa nýja miða. Frekar léleg þjónusta þetta, að mínu mati, en svona eru víst reglurnar. Verst þótti mér þó, að það var rjóma blíða allan miðvikudaginn og missti ég því af frábæru sjóveðri að hluta til, en ég fór á sjó kl. 5 seinnipartinn með aðeins 7 bjóð, enda spáin mjög slæm. Ég náði þó í 1200 kg. sem er mjög gott.

Ég er nú eiginlega hættur að skrifa um lundann í ár, en tvennt hefur þó vakið athygli mína að undanförnu. Í fyrsta lagi, að uppi séu hugmyndir erlendis um að setja lundann hugsanlega á válista yfir fuglastofn, sem gæti verið í einhverri hættu. Þetta þykir mér alveg stór furðulegt, en ég efast ekki um það, að slíkar hugmyndir komi frá fuglafræðingi sem hefur starfað í Vestmannaeyjum að undanförnu. Hitt atriðið sem vakti athygli mína, er að seinni partinn í júli, hafði vinur minn og nágranni Friðrik Ragnarsson samband við mig og bað mig um að redda sér um svona 50 lunda í hamnum, eða svo. Nokkrum dögum seinna var ég í veiði suður í Kervíkurfjalli og veiddi þar 120 lunda og ákvað að binda þá 50 sér og 70 sér til Þess að redda Friðriki. Þetta gekk eftir og kom hann til mín og fékk 50 lunda. Kom svo aftur daginn eftir og borgaði mér lundana og sagði þá við mig, að bara svo að þú vitir af því, þá er ég að biðja um þessa lunda handa Gísla Óskarssyni, kennara og lunda áhugamanni. Sagði ég honum að það skipti mig í sjálfu sér engu máli, hver fengi fuglinn. Á lundaballi okkar í veiðifélagi Heimaey  kom m.a. Gísli Óskarsson, og tókum við þar létt spjall um lundann og sagði hann mér m.a. að hann hefði aldursgreint lundann frá mér. Þar sem að ég vissi að það veiðist lítið eða ekkert í Kervíkurfjallinu nema ungfugl, þá spurði ég hann, hvernig þetta hefði komið út og sagði hann mér þá að mest hefði verið af 3 ára fugli, næstmest af 4 ára fugli, en aðeins einn lundi hefði verið 5 ára eða eldri. Þetta kom mér alls ekki á óvart, en ef ég svona til gamans myndi reikna þetta út á svipaðan hátt og Erpur Snær reiknar út hlutfall lundans í veiðinni, þá var veiðin þennan dag hjá mér 95% ungfugl, en aðeins 5% fullorðinn fugl. Mér segir svo hugur að svona tölur og ef þær upplýsingar sem ég hef skrifað um, bæði um hversu lítið var veitt af lunda í sumar, og um fjölda nýliða í pysjunni í ár og síðustu ár, væru send þessari stofnun, sem vill setja lundann á válista, þá dytti engum það í hug að setja lundann á válista, en það er ekki sama hvernig hlutirnir eru orðaðir . Meira seinna .

http://georg.blog.is

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.