Selfoss sigraði meistarana en það dugði ekki

21.September'08 | 07:33
Selfyssingar sigruðu 1.deildarmeistara ÍBV örugglega 3-1 í lokaumferð deildarinnar í dag. Stjarnan sigraði Hauka 5-1 á sama tíma og því dugði þessi sigur ekki fyrir Selfyssinga í baráttunni um sæti í Landsbankadeildinni.

Sævar Þór Gíslason skoraði tvívegis fyrir Selfyssinga í dag og hann lagði einnig upp mark fyrir hinn unga og efnilega Viðar Örn Kjartansson. Annar ungur leikmaður, Arnór Eyvar Ólafsson, minnkaði muninn fyrir ÍBV en Eyjamenn fengu í leikslok afhentan bikar fyrir sigurinn í 1.deild.

Áhorfendur fjölmenntu á Selfoss í dag, Eyjamenn voru mættir með stuðningslið og að sjálfsögðu fjölmenntu heimamenn enda var möguleiki á að liðið gæti tryggt sér sæti í Landsbankadeildinni.

Heimamenn hófu leikinn af miklum krafti og fengu þrjár hornspyrnur á fyrstu tveimur mínútunum auk þess sem Henning Eyþór Jónasson átti skot í hliðarnetið úr aukaspyrnu.

Selfyssingar höfðu vindinn í bakið fyrri hálfleiknum og áttu fleiri marktilraunir. Eyjamenn sóttu hins vegar einnig og Augustine Nsumba átti meðal annars skot rétt framhjá.

Fyrsta markið leit dagsins ljós um miðjan fyrri hálfleikinn en þá náðu heimamenn forystunni. Sævar Þór Gíslason fékk þá boltann hægra megin, lék til hliðar framhjá varnarmanni og skoraði með skoti sem fór í nærstöngina og inn.

Tíu mínútum síðar átti Sævar Þór sprett upp vinstri kantinn, hann sendi fyrir á Viðar Örn Kjartansson sem tók á móti sendingunni og lagði boltann framhjá Alberti Sævarssyni í markinu.

Vonir Eyjamanna um að koma til baka í leiknum minnkuðu í upphafi síðari hálfleiks þegar að Matt Garner varð fyrir því óláni að fá boltann í hendina og vítaspyrna var dæmd.

Sævar Þór fór á punktinn og skoraði sitt sautjánda mark í sumar en hann endaði sem markahæsti leikmaðurinn í fyrstu deild í ár.

Eyjamenn sóttu í sig veðrið eftir þetta og Elías Örn Einarsson þurfti að verja nokkrum sinnum í markinu. Bjarni Hólm Aðalsteinsson átti einnig skalla rétt framhjá eftir hornspyrnu.

Arnór Eyvar Ólafsson náði að minnka muninn fyrir Eyjamenn á 82.mínútu leiksins. Hann skoraði þá með skoti í stöng og inn fyrir utan vítateig en Arnór hafði komið inn á sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks.

Nokkkrum mínútum síðar gerði annar varamaður sig líklegan fyrir Eyjamenn en Þórarinn Ingi Valdimarsson þrumaði þá í utanverða stöngina eftir hornspyrnu. Þórarinn fékk annað færi nokkrum mínútum síðar en Elías Örn í marki Selfyssinga varði.

Lokatölurnar urðu 3-1 fyrir Selfyssingum og þrátt fyrir að hafa misst af sæti í Landsbankadeildinni geta þeir samt borið höfuðið hátt eftir árangurinn í sumar. Liðið kom upp í fyrstu deildina síðastliðið haust og endaði í þriðja sæti í ár en það er jöfnun á besta árangri félagsins frá því árið 1970.

Eyjamenn voru búnir að tryggja sér sæti í fyrstu deild og gátu fagnað í leikslok þrátt fyrir tap en þeir fengu afhentan bikarinn fyrir sigurinn í 1.deild. Spennandi verður að sjá Eyjamenn í Landsbankadeildinni að ári en liðið lék vel í sumar og náði verðskuldað að enda í efsta sæti fyrstu deildar.

Myndir frá því þegar ferð stuðningsmanna ÍBV má sjá hér
Þökkum Guðnýju Óskarsdóttur fyrir myndirnar

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.