Hinir uppnefndu: hnífurinn í sárinu

9.September'08 | 12:08

Vestmannaeyjabær bærinn eyjar

„Það er eins með mannanöfn og sjávarföllin; þau hegða sér aldrei alveg eins, en ef þú fylgist með þeim um hríð sérðu hvernig þau starfa."
    (Yup'ik öldungur, frumbyggi í Alaska)

Nýlega kom út bókin Viðurnefni í Vestmannaeyjum eftir Sigurgeir Jónsson. Þar er greint frá hundruðum viðurnefna í Eyjum og hvernig þau hafi sennilega orðið til. Óhætt er að segja að bókin hafi vakið sterk viðbrögð og snarpar deilur meðal Eyjamanna. Um hvað hafa þessar deilur snúist? Eiga þær erindi til annarra en Eyjamanna og hverju má það sæta að viðurnefni eru jafn viðkvæmt umræðuefni og raun ber vitni, bæði hér á landi og annars staðar? Ég kannast við mörg þeirra nafna sem skráð eru í umræddri bók, enda fæddur og uppalinn í Eyjum. Sum þeirra eru handan við öll velsæmismörk og ég blygðast mín við að rifja þau upp, þótt eflaust hafi ég tekið þátt í leiknum eins og aðrir. Þetta eru uppnefni og þau eru ekkert grín. Þau eru ekki heldur innantómir eða tilviljanakenndir merkimiðar, oftar en ekki eru þau meið-yrði, í orðsins fyllstu merkingu, sem grafa undan mannlegri reisn.

Viðurnefni í Vestmannaeyjum
Viðurnefni eru, og hafa löngum verið, mjög algeng í Vestmannaeyjum, eins og raunar víðast annars staðar á landinu. Þau eru margs konar og með ýmsu móti. Í sumum tilvikum er fólk kennt við störf sín, hús eða maka, stundum einfaldlega til aðgreiningar, sérstaklega ef um er að ræða algeng nöfn. Í öðrum tilvikum minna viðurnefni á tiltekinn atburð í lífi viðkomandi eða áberandi persónuleg sérkenni. Slík nöfn bera stundum vott um gamansemi og sköpunargáfu, sem fáir amast yfir. Oft eru uppnefni hins vegar ómenguð valdbeiting, eiginleg uppnefni, niðrandi og kúgandi fyrir viðkomandi. Stundum er uppnefnum beitt sem eins konar ættarnafni, þar sem sama heitið er notað um heila fjölskyldu. Þá geta þau orðið félagslegur arfur, sem veldur þolendum ómældu hugarangri árum saman, jafnvel kynslóð fram af kynslóð.

Það eru þessi niðrandi viðurnefni, uppnefnin, sem hafa einkum sætt gagnrýni í umræðu um Viðurnefni í Vestmannaeyjum. Þann 28. júlí birti vefritið Eyjar.net andsvar við umræddri bók undir heitinu „Hvers vegna?" Greinarhöfundur segir m.a. að uppnefni séu „ein birtingarmynd eineltis" og höfundur bókarinnar geri sig sekan um að „rifja upp viðurnefni fólks, sem sumt ef ekki allt réð engu um það viðurnefni sem festist við það. ... Sum þeirra viðurnefna sem getið er í þessari bók Sigurgeirs voru virkilega særandi fyrir viðkomandi persónu og margir hafa sjálfsagt liðið mjög fyrir viðurnefni sitt ..." Höfundur, sem lætur ekki nafns síns getið af augljósum ástæðum, heldur áfram:

„Ég er þolandi eineltis frá uppvaxtarárum mínum í Vestmannaeyjum og það hefur fjölskylda mín líka upplifað. Það er reglulega sárt að upplifa slíkt og þrátt fyrir aldur minn og mörg barnabörn, virðist ekki vera hægt að þurrka út þetta einelti eða stöðva það. Ég kann bara ekki að venjast því eða lifa með því. Það verða víst alltaf einhverjir til sem tilbúnir eru að snúa hnífnum í sárinu, rifja upp árin sem kvöldu mest, hlæja og gera grín að samferðamönnum sínum." 

Reiði greinarhöfundar er holl áminning um þann skaða sem uppnefni geta valdið. Fornvinur minn, Einar Gylfi Jónsson, sem þekkir það samhengi sem um er að ræða bæði sem sálfræðingur og Eyjamaður, tekur undir með höfundi á sama vettvangi: „Að taka þátt í að halda lífinu í niðurlægjandi uppnefni getur ... vel flokkast undir einelti."

Fyrir nokkrum árum bar það til í samkvæmi í Eyjum í tilefni fermingarafmælis að kona, sem hafði þurft að drattast með mjög ógeðfellt uppnefni árum saman, allt frá barnaskóla, kvaddi sér hljóðs og flutti ádrepu yfir fermingarsystkinum sínum. „Og þið kölluðuð mig ...!" þrumaði hún yfir hópinn. Samkomugesti setti hljóða, enda vissu þeir upp á sig sökina. Uppnefni þessarar ágætu konu og tilurð þess eru samviskusamlega skráð í seðlasafni Sigurgeirs. Hvað skyldi reka fólk til að taka saman og gefa út slíka bók? Og hvers vegna skyldi Vestmannaeyjabær kosta eineltið (fram kemur í formála að hann hafi styrkt útgáfuna), samfélag sem þekkt er fyrir samheldni og samhjálp á ýmsum sviðum?

Sjónarmið bókarhöfundar
Höfundur segir í formála verksins að það sé von sín „að þetta kver megi gefa einhvern fróðleik og innsýn í hið mjög svo margslungna mannlíf sem verið hefur í Eyjum, allt frá upphafi byggðar og fram til okkar daga". Hann er sér meðvitaður um að uppnefnin sem skráð eru í bókinni geti flokkast undir einelti. Í formálanum segir: „Ekki fer á milli mála að mörg viðurnefni tengjast einelti, þeirri áráttu manna að gera lítið úr öðrum og er ekki til eftirbreytni." Rök hans fyrir því að veita uppnefnum sömu athygli í bókinni og öðrum viðurnefnum byggja að hluta á því að mörkin séu ekki alltaf ljós. Sumir, segir hann, hafa viljað gera greinarmun á niðrandi viðurnefnum og öðrum, en hann hafi kosið í sinni umfjöllun að gera ekki greinarmunur á þessu tvennu „enda ekki alltaf unnt að ákveða um það".
Hvað sem líður þessum óljósu mörkum telur höfundur að það hafi menningarsögulegt gildi að halda öllu til haga: „Viðurnefni eru, hvort sem okkur líkar betur eða verr, hluti af menningarsögu okkar Eyjamanna." Höfundur ítrekar þetta sjónarmið á vefnum í svari sínu við framangreindri gagnrýni:

„Ég gerði ákveðnar breytingar á handritinu, tók t.d. út fullt nafn hjá þeim þar sem nöfnin voru niðrandi. Til greina kom að sleppa þeim alveg .... Hins vegar hefði bókin þá ekki gefið rétta mynd af þessum sið sem hefur tíðkast á Íslandi allt frá því að land byggðist. Það hefði gefið mjög villandi mynd að birta eingöngu þau saklausu og skemmtilegu en sleppa hinum." 

Erfitt er að sjá að þessi viðleitni höfundar, að forða menningarminjum frá því að falla í gleymsku og lenda á ruslahaugum sögunnar, réttlæti birtingu nafna sem hafa valdið fjölda manns tilfinningalegum og félagslegum skaða svo árum skiptir. Um leið og slík uppnefni eru fest á þrykk öðlast þau nýja lífdaga, þolendunum til mikillar skapraunar. Hefði ekki verið eðlilegast og einfaldast að sleppa öllum uppnefnum sem minnsti grunur lék á að særðu þá sem báru þau eða afkomendur þeirra? Mætti ekki ræða við fólk og ganga úr skugga um vilja þess, í stað þess að „snúa hnífnum í sárinu" og skjalfesta um alla framtíð þá vafasömu merkimiða sem samfélagið setti á það?

Afmyndun persónunar
Mannanöfn eru annars merkileg fyrirbæri, sem margur hefur velt vöngum yfir. Meðal annars hefur verið spurt af hverju fólki er yfirleitt gefið nafn, hvað ráði nafnavali og hverju það sæti að hefðir í þessum efnum eru jafn fjölbreytilegar og raun ber vitni. Mannfræðingar og málfræðingar hafa rannsakað mannanöfn frá ýmsum hliðum; m.a. form þeirra og byggingu, rætur þeirra og beitingu og tengsl við samfélag og menningu. Sumar nafnahefðir eru afar ólíkar því sem við eigum að venjast. Inúítar hafa t.d. lengst af notað sömu nöfn um konur og karla og þeir þekktu ekki eftirnöfn fyrr en þeir þurftu að lúta ríkisvaldi á síðustu öld.

Þótt nafnahefðir séu mjög breytilegar frá einu samfélagi til annars, eiga þær ýmislegt sammerkt.  Fyrst ber að nefna það sem e.t.v. liggur í augum uppi: Nöfn gegna því hlutverki að staðsetja fólk í félagslegu rými, tengja það við tiltekna fjölskyldu, ætt eða þjóðernishóp. Ekki er þó einungis um það að ræða að draga fólk í dilka, nafngiftin er athöfn eða gjörningur sem setur svip á líf viðkomandi. Nafnið sem einstaklingnum er gefið „festist" hins vegar ekki við persónuna nema sá eða sú sem nafnið gefur hafi til þess einhvers konar umboð frá því samfélagi sem um er að ræða. Án þessa umboðs féllu þau í dauðan jarðveg sem merkingarlausar upphrópanir. Annað mikilvægt atriði er það að persónan samsamar sig smám saman því nafni sem henni er gefið. Nafnið verður óaðskiljanlegur hluti af persónunni; maður er það sem maður heitir. Þess vegna er nafngiftin afdrifarík athöfn sem markar djúp spor í lífi fólks. Þar sem sjálfsveran mótast af því félagslega og pólitíska umhverfi sem elur hana, skipa nafnahefðir gjarna stóran sess í jafnréttisbaráttu ýmissa hópa, kvenna og þjóðernis- og minnihlutahópa.

„Ef maður reiðir auknefni til háðungar ..." 
Það gildir jafnt um uppnefni sem önnur nöfn að þau helgast af félagslegri athöfn, þau eru háð samkomulagi og þau móta viðkomandi persónu. Niðrandi heiti fela í sér valdbeitingu af hálfu þeirra sem koma þeim á kreik, ýmist til að halda fólki í skefjum, jafna einhverja reikninga eða einfaldlega ná sér niðri á einhverjum. Þeir sem aðstoða við að festa uppnefnið í sessi eru augljóslega beinir aðilar að gjörningnum. Oft eru það þeir sem standa að einhverju leyti höllum fæti, sem verða fyrir valdbeitingu. Fái nafnið hljómgrunn, verður það hluti af persónu og líkama viðkomandi, rétt eins og húðflúr eða brennimerking. Persónan afmyndast - missir andlitið, eins og stundum er sagt - með tilheyrandi afleiðingum fyrir líðan manna og sjálfsálit. Þeir áverkar sem þannig verða til eru ekki endilega jafn sýnilegir og þegar um barsmíðar er að ræða, þótt oft megi sjá að fólk er „beygt" og „fer með veggjum", en engu að síður eru þeir að mörgu leyti sambærilegir.
 Þegnar íslenska þjóðveldisins gerðu sér vel grein fyrir áhrifamætti nafna. Þau bitu ekki síður en vopn og sérstakar ráðstafanir gerðar til að standa vörð um rétt manna og æru þegar uppnefni voru annars vegar. Til marks um það er eftirfarandi ákvæði í Grágás, hinum fornu landslögum Íslendinga: „Ef maður gefur manni nafn annað en hann eigi, og varðar það fjörbaugsgarð [þ.e. þriggja ára útlegð úr landi] ef hinn vill reiðast við. Svo er og ef maður reiðir auknefni til háðungar honum ..." Ekki verður séð í fljótu bragði að uppnefni varði við lög nú á tímum, en vera má að réttur manna í þessum efnum sé varinn með ákvæðum um æruvernd í hegningarlögum. Á mælikvarða þjóðveldisins hefði útgáfa bókar í líkingu við Viðurnefni í Vestmannaeyjum sennilega kostað ábyrgðarmenn verksins þriggja ára útlegð.

Kannski er öfgafyllstu dæmin um uppnefni og áhrif þeirra að finna í sögu þrælahalds. Þrælahaldarar sem fluttu fólk yfir Atlantshaf á fyrri öldum gættu þess yfirleitt vandlega að nefna þræla sína upp á nýtt, oft með uppnefnum sem voru áþekk þeim nöfnum sem gefin voru nautgripum og húsdýrum. Strangt bann var iðulega lagt við því að nota þau nöfn sem viðkomandi hafði borið frá barnæsku. Þannig var persóna þrælsins afmynduð, nánast leyst upp, rifin úr sínu fyrra félagslega umhverfi. Þegar þrælar öðluðust frelsi kröfðust þeir þess gjarna að taka upp nýtt nafn, oft í votta viðurvist, til að undirstrika endalok þess ofbeldis sem þeir höfðu þurft að þola, til að endurheimta persónu sína og staðfesta viðurkenningu samfélagsins.

Félagslegur dauði
Nóbelsverðlaunahöfundurinn Elias Canetti samdi athyglisvert leikrit um mannanöfn („Die Befristeten", The numbered í enskri þýðingu). Í þeirri veröld sem Canetti byggir í verki sínu eru þegnunum úthlutað „nöfnum" í samræmi við það hvað hver og einn muni lifa lengi (Fimmtíu, Tuttuguogfimm, Tólf, o.s.frv. ) og fólki talin trú um að enginn geti umflúið nafn sitt og örlög. Í vissum skilningi eru þetta uppnefni, a.m.k. eru þolendur ekki hafðir með í ráðum, merkimiðarnir örlagaríkir og margir ósáttir við sinn hlut. Ein persónanna í leikritinu hefur áhyggjur af systur sinni Tólf að nafni, sem hefur flúið að heiman:
 
„Hún óttaðist nafn sitt. Henni var sagt að hún myndi deyja þegar hún yrði tólf ára. ... Hún varð þögulli eftir því sem tíminn leið. Við vissum ekki hvers vegna hún sagði aldrei neitt. ... Svo gerðist það á afmælisdegi hennar að óttinn yfirbugaði hana. Hún hvarf. Hún fór til fólks sem vissi ekki hvað hún hét. ... Allt frá því hefur hún farið huldu höfði. ... Hún forðast okkur eins og pestina."
 
Í verki Canettis eru mannanöfn eins og tifandi tímasprengjur: 12, 11, 10, ..., búmm! Uppnefni eru hins vegar mannanna verk - ólíkt ásköpuðu nöfnunum í heimi Canettis. Það er enginn að falla á tíma. En á hinn bóginn hafa hinir uppnefndu, líkt og þegnar Canettis, á sér dóm. Þótt sumir dómarnir séu harðari en aðrir, hafa þeir það ætíð í för með sér að þolendur flytjast nær jaðri hins félagslega rýmis, settir til hliðar. Stundum fylgir þessu bein útskúfun, félagslegur dauði sem tekur gildi um leið og uppnefnið hefur verið búið til og byrjar að starfa eins og til var stofnað.

Hvað ber að gera?
Kannski getur útgáfa Viðurnefna í Vestmannaeyjum þrátt fyrir allt, eins og Einar Gylfi Jónsson bendir á, orðið til þess að opna augu fólks fyrir því ofbeldi sem uppnefni geta falið í sér og gjarna birtist í þöggun, niðurlægingu, afskræmingu sjálfsmyndar og jafnvel félagslegum dauða, og rjúfa þannig það þegjandi samkomulag sem þau byggjast á. Það verður að segja bókarhöfundi til hróss að hann hefur brugðist við gagnrýni á verk sitt með því að biðjast afsökunar á því að hafa valdið fólki sárindum og lýsa yfir áhuga á að leita leiða til að fyrirbyggja einelti (sjá Eyjar.net). Ekkert bæjarfélag á landinu er laust við meinfýsin uppnefni og eins og annað einelti geta þau sprottið fram nánast fyrirvaralaust af minnsta tilefni. Þótt þau verði seint upprætt með öllu, og skaðinn skeður hvort eð er þegar þau hafa á annað borð verið fest í sessi og viðkomandi persónur kannski samsamað sig þeim, er víða full ástæða til að taka hraustlega til hendinni.

Uppnefni „virka" því aðeins að þau eigi sér formælendur sem tryggja að þau séu við lýði, að þau falli í kramið. Að sama skapi, þótt uppnefni séu furðu lífseig, er vissulega hægt að leggja þau til hliðar, ef þeir sem beita þeim gera með sér „þjóðarsátt" um að uppræta þau og gera þolendum þeirra kleift að endurheimta þá reisn sem þeim ber. Líkt og þrælar geta endurheimt frelsi sitt og persónu geta hinir uppnefndu fengið uppreisn æru, aðeins ef menn vilja það.

 

Heimildir:
Gabriele vom Bruck og Barbara Bodenhorn (ritstj.) 2006. The anthropology of names and naming. Cambridge University Press.
Grágás (1992). Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Mál og menning.
Elias Canetti (1983). The numbered. Marion Boyars.
Einar Gylfi Jónsson (2008). Uppnefni og einelti. Aðsend grein birt á Eyjar.net, 30. júlí.
N.N. (2008). Hvers vegna? Aðsend grein birt á Eyjar.net, 28. júlí.
Sigurgeir Jónsson (2008). Viðurnefni í Vestmannaeyjum. Bókaútgáfan Hólar.
Sigurgeir Jónsson (2008). Um viðurnefni og fleira. Aðsend grein birt á Eyjar.net, 30. júlí.


Gísli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.