Annasamir dagar og lundinn

7.September'08 | 12:46

Georg Arnarson

Þó aðeins séu búnir 6 dagar af nýja fiskveiðiárinu, þá er ég samt búinn að róa 4 sinnum og fiska ca. 9 tonn, sem er mjög gott en þýðir um leið því miður það, að ég er að verða búinn með kvótann í 3 fisktegundum, þótt aðeins sé búin fyrsta vikan á nýja fiskveiðiárinu. Það nýjasta nýtt hjá kvótalausum sjómönnum er að nú eru menn hættir að leigja sér þorsk til að nýta þegar menn eru að beita sér í aðrar tegundir og setja hann frekar allan í Hafró, því að vegna þess hversu leigan er há, þá borgar sig oft frekar að selja þorskinn sem Hafró fisk og fá þannig 20% af söluandvirðinu, sem oft er að skila meiru í aðra hönd, heldur en með því að leigja og selja sjálfir (leiga á þorskkvóta í dag er 245 kr. kg). Það hefur verið mikið af undarlegum fiskum við eyjar í sumar og í síðustu viku fékk ég enn einn fiskinn, sem ég hafði reyndar einu sinni veitt áður, sá heitir Urrari. Ég kom honum lifandi í land og er hann núna á Sædýrasafninu og hvort sem hann er lifandi eða ekki, þá veit ég að þeir eiga 2 eða 3 á lífi, sem þeir fengu nýlega af Gæfunni. Fallegur fiskur, en mjög sérkennilegur. Mér er sagt að nafnið sé komið til vegna þess, að þegar haldið er á fiskinum og hlustað, þá heyrist eins og lítið urrr frá honum.

Ég fór á sjó í nótt austur fyrir eyjar og tók eftir því, að töluvert virtist vera af lunda á sjónum og m.a. stór hópur austur á Sandahrauni, en þegar birti sá ég að þarna var aragrúi af lundapysju á ferðinni. Mjög ánægjulegt og ekki minnkaði ánægjan, þegar ég kom í land og taldi einhverjar 14-15 lundapysjur í höfninni, sem að mínu mati þýðir að nú þegar hafa a.m.k. á annað þúsund lundapysjur komist á legg frá Vestmannaeyjum, vonandi er þetta bara byrjunin og mig langar að benda fólki á, sem er á pysjuveiðum að veðurspáin næstu 4 dagana er þessleg að mikið gæti orðið af pysju í bænum, en það kemur þá í ljós. Ég tek það hinsvegar fram, að þetta magn er hinsvegar ekki nándar nægilega mikið til þess að réttlæta veiðar á næsta ári, til þess þurfa a.m.k. að koma 1-2000 pysjur sem bæjarpysjur. Einn vinur minn og félagi í veiðifélaginu Heimaey átti í vikunni undarlegt samtal við Erp, þar sem Erpur sagði m.a. að lundaveiðin í sumar hefði í raun og veru engin áhrif á lundastofninn og þá sérstaklega vegna þess, að vegna hruns í lundastofninum 4 ári í röð, þá yrði ekki veiddur lundi í eyjum næstu árin jafnvel. Mér þótti þetta mjög furðulegt hjá Erpi, en samt í algjöru samræmi við það hvernig hann hefur látið síðan hann hóf lundarannsóknir í eyjum í fyrra sumar, með þeim undarlegu orðum áður en hann hóf rannsóknir, að best væri ef menn væru ekki að veiða lundann. Ég vill taka það skýrt fram, að ég hef alltaf haft mikið álit á Erpi Snæ vegna rannsókna hans á lundanum, en vinnubrögð hans, hinsvegar, sl. ár hafa að mínu mati verið vægast sagt undarleg. Aftan á Fréttum er lítil grein, þar sem að enn einu sinni kemur fram hjá Erpi að engin nýliðun hafi verið núna 4 ár í röð, þrátt fyrir það, að hann hafi sagt það í skýrslu sinni í vor að nýliðun í lundastofninum 2007 hafi verið 82 þús. pysjur. Ég hef nú leyft mér að efast um að þessi tala sé rétt, enda er hún fundin út með því að skoða í 0,1 % af lundaholum í Vestmannaeyjum. Að mínu mati hlýtur það að benda til þess, að það séu bara 0,1 % lýkur á að þessi tala sé rétt. Ég held því hinsvegar fram, að miðað við mína útreikninga, þá séu 50% lýkur á því að nýliðun á síðasta ári hafi verið 200 þús. pysjur og 50% lýkur að hún hafi verið 300 þús.

Það hefur verið mikil umræða á vefsíðu ÍBV um kröfu KSÍ um stúku við Hásteinsvöll. Þar sem að nú er það komið á hreint, að sætin norðan við völlinn séu 535, þá held ég að það hljóti nú að vera nóg að byggja yfir stúkuna og líst mjög vel á þá teikningu, sem Stefán Þór Steindórsson er með á blogg síðu sinni og er sýnd inni á eyjar.net. Meira seinna.

http://georg.blog.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.