Ölfus tapar á Herjólfshöfn á Landeyjasandi

27.Ágúst'08 | 08:11

Herjólfur

„Þetta er slæmt fyrir okkur hvað peninga varðar og svo teljum við að það hefði verið skynsamlegra að fá góða höfn í Þorlákshöfn sem hefði þjónað Suðurlandi í heild og jafnvel höfuðborgarsvæðinu," segir Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri Ölfuss, um nýja höfn fyrir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf sem reist verður á Landeyjasandi. Við það leggjast siglingar Herjólfs til Þorlákshafnar af.

Landeyjahöfn og nýr Herjólfur eiga að vera tilbúin síðla árs 2010.
Ólafur Áki segir höfnina í Þorlákshöfn verða af 20 prósentum af árlegum tekjum, en það eru 20 milljónir króna. Að auki tapast afleidd störf og þjónusta vegna umsýslu við skip og farþega.

Ólafur Áki telur að hyggilegra hefði verið að stækka höfnina í Þorlákshöfn og kaupa nýjan og aflmeiri Herjólf sem hefði getað siglt milli lands og Eyja á einni og hálfri til tveimur klukkustundum. Þótt sjóleiðin yfir á Landeyjasand verði stutt bætist við talsverður akstur á höfuðborgarsvæðið.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, kveðst skilja sjónarmið Ólafs Áka en vera ósammála þeim. „Aðrir kostir voru skoðaðir út í ystu æsar en þóttu ekki vænlegir."

Hann segir að í Þorlákshöfn þurfi menn að laga sig að væntanlegum breytingum. „Þessir góðu nágrannar okkar eru að missa spón úr aski sínum en framkvæmdir eru hafnar og því óþarfi að berja höfðinu við steininn. Við stöndum fyllilega við bakið á atvinnuuppbyggingu í Þorlákshöfn en hvert og eitt sveitarfélag verður að ákveða hvernig það stendur að sínum samgöngumálum og við getum ekki blandað saman samgöngumálum í Vestmannaeyjum og atvinnumálum í Þorlákshöfn."

Ólafur Áki gagnrýnir ekki einasta uppbyggingu Landeyjahafnar heldur líka framgang málsins. „Aldrei var leitað eftir áliti okkar og höfum við þó þjónað Eyjamönnum í áratugi. Þá hefur okkur ekki verið tilkynnt formlega um að Herjólfur hætti að sigla hingað árið 2010. Okkur er gert að gera þriggja ára fjárhagsáætlun og það eru furðuleg vinnubrögð að tilkynna okkur ekki um þetta með formlegum hætti," segir Ólafur Áki.

 

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.