Uppnefni og einelti

30.Júlí'08 | 00:00

Vestmannaeyjabær bærinn eyjar

Lestur greinar ónefnds Eyjamanns "Hvers vegna?" ýtti svo hressilega við mér, að ég finn mig knúinn til að leggja orð í belg. Fyrst þegar ég heyrði getið bókar Sigurgeirs Jónssonar var það með þeim hætti, að hér væri á ferðinni græskulaust gamanefni og sá sem sagði frá hafði skemmt sér konunglega við lesturinn.

Og ég hugsaði með mér: "Ég þarf endilega að kaupa þessa bók."  Þetta er raunar í eina skiptið sem ég hef heyrt einhvern tala um þessa bók á jákvæðum nótum. Síðan þá hef ég heyrt æ fleiri lýsa megnri vanþóknun á bókinni. Nefnd hafa verið dæmi um uppnefni sem tíunduð eru í bókinni sem erfitt er að átta sig á hvers vegna þurftu að vera með í þessari upptalningu. Uppnefni sem eru svo niðurlægjandi og kvikindisleg að umfjöllun í bók mun ekkert gera nema  ýfa upp sár, hafi þau þá nokkurn tíma gróið.

Gælunöfn, viðurnefni og uppnefni eru vissulega hluti af menningu Eyjanna. Þegar ég var að alast upp í Eyjum vissi maður iðulega ekki hvað fólk hét fullu nafni. Sumir voru kenndir við gælunöfn foreldra sinna, hús fjölskyldunnar, störf sín, útlitseinkenni, spaugileg eða vandræðaleg tilvik í lífi sínu; sönn eða ósönn. Sum þessara viðurnefna voru þannig að viðkomandi gengust fúslega við þeim, enda ekkert að því að vera kenndur við hús fjölskyldunnar eða gælunafn móður sinnar. Aðrir höfðu "vit" á að taka viðurnefnunum létt, væntanlega út frá þeirri alkunnu staðreynd að bregðist maður illa við stríðni eða hrekkjum magnast stríðnispúkinn um allan helming. Öðrum var hins vegar úthutað svo rætnum viðurnefnum að það var hluti af sjálfsvirðingunni að bregðast við með sárindum eða reiði, ef þau voru þá nokkurn tíma notuð í viðurvist "eiganda síns". Þannig var mér sagt fyrir stuttu að höfundi umræddrar bókar hafi verið gefið mjög rætið og niðurlægjandi viðurnefni, sem hann hefur væntanlega aldrei heyrt sjálfur, þar sem þess mun ekki getið í bókinni.

Þessi viðurnefnahefð okkar Eyjamanna er vandmeðfarin. Það er ábyrgðarhlutur að tengja við einhverja manneskju auknefni sem jafnvel mun fylgja viðkomandi um ókomin ár. Ég hef af þessu persónulega reynslu. Ég hef líklega verið 9 eða 10 ára þegar við mig festist uppnefni sem fylgdi mér fram á fullorðins ár. Ég man hver gerði það og hvar og hvernig það gerðist. Þetta var niðurlægjandi uppnefni og ég var alla tíð viðkvæmur fyrir því. Þó að ég vissi að allt sem tengdist þessu uppnefni var uppspuni reiðs leikfélaga sem var að hefna sín fyrir það sem ég hafði gert á hlut hans, þá tók ég það samt inn á mig. Fannst eins og það lýsti mér einhvern veginn. Eða alla vega að krakkar sem heyrðu mig kallaðan þessu uppnefni myndu líta niður á mig. Smám saman dró reyndar úr notkun uppnefnisins þegar nálgaðist fullorðinsárin. Eftir að ég varð fulltíða maður gerist það afar sjaldan að fólk sé svo ósmekklegt að rifja það upp. 

Ég hef líka persónulega reynslu af hinu, að taka þátt í viðhaldi og útbreiðslu ónefna sem klínt var á fólk, jafnvel á heilu fjölskyldurnar. Sum þessara ónefna voru margfalt verri en þetta lítilræði sem ég þurfti að burðast með og ég veit að í mörgum tilvikum hafa fórnarlömbin setið upp  með vanlíðan, biturð og vanmetakennd æ síðan. Ég tók þátt í því sem í dag er kallað einelti. Með því að nota hin niðurlægjandi uppnefni eða með annars konar hrekkjum og stríðni gagnvart hinum útvöldu skotspænum í bekknum, á vinnustaðnum eða á götum bæjarins. Oftast gerði ég þetta í algjöru hugsunarleysi og gerði mér enga grein fyrir hverju ég var að taka þátt í eða hvernig fórnarlömbunum liði. Eftir á er mér farið  eins og flestum: ég skammast mín fyrir og hef sektarkennd gagnvart fórnarlömbunum. Ég hef nokkrum sinnum tekið þátt í að rifja slík tilvik upp með gömlum félögum úr Eyjum og alltaf er sú umræða á sömu bókina lærð: iðrun og skömm. Kannski fylgir því að komast til vits og ára að sjá í nýju ljósi ýmislegt sem var hluti af hversdagsleika bernskunnar og hrjósa hugur við hvað maður gat verið miskunnarlaus í æsku.

Hinn ónefndi Eyjamaður notar orðið einelti í sambandi við uppnefnin og útgáfu bókarinnar. Og sjálfur notaði ég það varðandi minn þátt í að níðast á ýmsum sem höllumfæti stóðu í samfélaginu í Eyjum. Einelti er tískuorð og gjarnan notað í hugsunarleysi. Sú skilgreining á einelti sem mér finnst gagnlegust hljóðar svo: Einelti er endurtekin, neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma sem erfitt er að verjast og sem leiðir til vanlíðunar hjá þeim sem fyrir verður. Að taka þátt í að halda lífinu í niðurlægjandi uppnefni getur samkvæmt þessum skilningi vel flokkast undir einelti. Vissulega má færa fyrir því sterk rök að Sigurgeir Jónsson hafi sýnt mikið dómgreindarleysi við gerð þessarar bókar sinnar og skora ég á hann að viðurkenna mistök sín og biðja hlutaðeigandi fyrirgefningar. Hitt er ekki síður mikilvægt: Hvað segir þessi bók um okkur sjálf? Ég byrjaði þessa grein á að játa að mín fyrsta hugsun var að eignast bókina og taka þannig þátt í að viðhalda "græskulausa gríninu". Ég get líka játað að ég segi gjarnan frá því með stolti, að eitt af því sem einkenni okkur Eyjamenn sé hvað við erum góðir sögumenn og hugvitssamir við að smíða viðurnefni hver á annan. Því fylgja gjarnan 2-3 sögur af hvernig litlir atburðir urðu að snjöllum viðurnefnum. Stundum hef ég gerst svo háfleygur að halda því fram að samfélagið í Eyjum einkennist af undarlegri blöndu af samstöðu og greiðvikni annars vegar og dómhörku og miskunnarleysi hins vegar. Kannski getur þessi illatilfundna bók Sigurgeirs Jónssonar orðið til að við lítum okkur nær og veitum ýmsum samferðamönnum okkar sem við lékum hart uppreisn æru.
 
Einar Gylfi Jónsson
 

 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

28.Júní'17

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.