Um viðurnefni og fleira

30.Júlí'08 | 11:36

Vestmannaeyjar Vestmannaeyjabær

Bókin Viðurnefni í Vestmannaeyjum, sem ég tók saman og kom út í maímánuði sl. hefur verið til umræðu á eyjar.net.  Fyrst í nafnlausu bréfi og síðan með grein eftir Einar Gylfa Jónsson. 

Ég vil í stuttu máli útskýra mitt sjónarmið.  Ég hef á undanförnum árum talsvert unnið við að skrásetja þætti úr sögu Vestmannaeyja.  Í fyrra kom út bókin Nýjar sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum og í sumar Saga Golfklúbbs Vestmannaeyja í 70 ár.  Þá hef ég einnig talsvert sett inn af efni á síðuna heimaslod.is sem og tekið saman efni er tengist Tyrkjaráninu.

Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að safna viðurnefnum sem gefin hafa verið fólki í Eyjum og fannst það áhugavert viðfangsefni.  Ég var lengi vel í vafa um hvort sú samantekt ætti erindi í útgáfu en var hvattur til þess af ágætu fólki.  Ég gerði ákveðnar breytingar á handritinu, tók t.d. út fullt nafn hjá þeim þar sem nöfnin voru niðrandi.  Til greina kom að sleppa þeim alveg, eins og Einar Gylfi bendir á að hægt hefði verið að gera.  Hins vegar hefði bókin þá ekki gefið rétta mynd af þessum sið sem hefur tíðkast á Íslandi allt frá því að land byggðist.  Það hefði gefið mjög villandi mynd að birta eingöngu þau saklausu og skemmtilegu en sleppa hinum.
 
Eins og Einar Gylfi bendir á, þá hafa mörg þessara nafna verið notuð nær daglega um það fólk sem um ræðir, sumir jafnvel ekki þekkst nema viðurnefnið hafi fylgt. Mér er sagt að viðurnefni í Eyjum einkennist mörg af kímni, annars staðar á landinu séu þau öllu rætnari.  Ég hef sjálfur fengið tvö viðurnefni, annað gaf kennarinn minn mér ungum manni og mér var alltaf meinilla við það.  Hitt fékk ég á fullorðinsárum og þótti það fyndið.  Þau eru að sjálfsögðu bæði í bókinni.  Svo gleymdi ég reyndar einu, ég var á árum áður oft fenginn til að syngja með kirkjukórnum við jarðarfarir og félagar mínir í kórnum gáfu mér þá viðurnefnið Sigurgeir násöngvari, sem mér þótti mjög fyndið.  Það þriðja, sem Einar Gylfi minnist á, mætti hann gjarnan senda mér í tölvupósti.  Aftur á móti held ég að ég hafi aldrei gefið öðrum viðurnefni og hin seinni árin hef ég ekki talað um fólk á þann hátt. 

Mér varð nefnilega ljóst við samantekt bókarinnar að mörg þessara nafna tengjast mjög einelti.  Í formála bókarinnar geri ég grein fyrir skoðun minni á því athæfi og vísa til þess þar.  Í framhaldi af því ákvað ég í vor, áður en bókin kom út, að láta þau samtök sem hafa einbeitt sér gegn einelti á Íslandi, Regnbogabörn, njóða góðs af útkomu hennar og ánafna þeim helmingnum af því sem ég fæ í ritlaun fyrir bókina.  Það fé var lagt inn á reikning þeirra í vor.  Með því vildi ég sýna hug minn í garð þeirra sem hafa átt um sárt að binda vegna þessa.

Sú hugmynd kom líka upp í vor, þegar bókin kom út, að efna síðar á árinu til ráðstefnu í Eyjum um viðurnefni og tilurð þeirra þar sem myndu taka þátt þeir sem gerst þekkja til þessa siðar.  Forsvarsmenn Regnbogabarna hafa lýst sig fúsa til að taka þátt í slíkri ráðstefnu og ég vil bjóða Einar Gylfa velkominn í hópinn, hafi hann áhuga enda var rætt um að þar þyrfti að vera a.m.k. einn sálfræðingur.

Ef til vill voru það mistök að gefa þessa bók út.  Ég held þó ekki.  Kannski á hún eftir, eins og Einar Gylfi bendir á, að opna augu okkar fyrir ákveðnum hlutum í samfélaginu sem mættu betur fara.  Ég samdi ekki þessi viðurnefni, ég safnaði þeim saman og hafi ég með því sært einhvern, sem ekki var ætlunin, þá vil ég hér með biðjast afsökunar á því.

Með vinssemd og virðingu
Sigurgeir Jónsson
sigurge@internet.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.