Hvers vegna?

28.Júlí'08 | 07:54

Vestmannaeyjabær bærinn eyjar

Enn og aftur ryðst Sigurgeir Jónsson frá Þorlaugargerði fram á ritvöllinn og gefur nú út bók með viðurnöfnum fólks í Vestmannaeyjum.  Enn heldur hann áfram eineltinu, kennarinn úr Vestmannaeyjum, sem áður hafði gefið út bókina ,,Nýjar sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum" sem innhélt að mestu munnmæla- og einnig lygasögur um fólk í Vestmannaeyjum.
Þar voru sagðar sögur af fólki sem sumt hvert er fallið frá og á ekki möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér, en afkomendur þeirra þurfa nú að líða fyrir gjörninginn.  Þar má jafnframt margt satt kyrrt liggja og engin ástæða til að rifja upp sögur, sem aðstandendur hlutaðeigandi þurfa að líða fyrir.
 
Sigurgeir má vel vita að það gefur sér enginn vitið og engin ástæða til að hafa í flimtingum orð eða gjörðir þeirra sem ekki vissu betur, henda gaman að þeim, hlæja og flissa af því og viðhafa það sem ekki er hægt að kalla annað en einelti. 
 
Þetta er ein birtingarmynd eineltis ef Sigurgeir skyldi ekki vita það og nú sér hann ástæðu til að rifja upp viðurnefni fólks, sem sumt ef ekki allt réð engu um það viðurnefni sem festist við það.  Það var segin saga í Vestmannaeyjum að ef einhverju viðurnefni var klínt á einstakling og hann var ekki sáttur við það, festist það við hann, því þannig var hægt að niðurlægja og gera grín að viðkomandi.  Sum þeirra viðurnefna sem getið er í þessari bók Sigurgeirs voru virkilega særandi fyrir viðkomandi persónu og margir hafa sjálfsagt liðið mjög fyrir viðurnefni sitt, undirritaður þar á meðal. 
 
Sigurgeir sér enga ástæðu til að taka tillit til þess, né heldur að þó viðkomandi sé fallinn frá, eru aðstandendur á lífi og þykir sjálfsagt leitt að sjá eineltinu viðhaldið með þessum hætti.  Það breytir engu þó Sigurgeir láti einungis fornafns viðkomandi getið, en ekki föðurnafns, því það vita allir sem ólust upp í Vestmannaeyjum við hvern er átt. 
Ég hef skömm á Sigurgeiri fyrir útgáfu þessarar bókar og jafnframt þeirri fyrri og velti fyrir mér innræti þessa mannsins.  Ég segi að hann sé kennarastétt landsins til skammar.
 
Ég er þolandi eineltis frá uppvaxtarárum mínum í Vestmannaeyjum og það hefur fjölskylda mín líka upplifað.  Það er reglulega sárt að upplifa slíkt og þrátt fyrir aldur minn og mörg barnabörn, virðist ekki vera hægt að þurrka út þetta einelti eða stöðva það. Ég kann bara ekki að venjast því eða lifa með því.    Það verða víst alltaf einhverjir til sem tilbúnir eru að snúa hnífnum í sárinu, rifja upp árin sem kvöldu mest, hlæja og gera grín að samferðamönnum sínum.  Þetta er ljótur blettur á samfélaginu í Vestmannaeyjum og synd að Sigurgeir, sem er af fólki kominn, sem þekkti vel til minnar fjölskyldu, skuli næra beiskjutréð með því að viðhalda þessu einelti.   Af þessari ástæðu get ég ekki komið fram undir nafni.  Í ljósi útgáfu síðustu bókar Sigurgeirs, er nokkuð ljóst að hann gæti ekki haft skilning á gagnrýni minni.  Ég er ekki undir það búin að þola frekara einelti.
 
Sjálfsagt sér Sigurgeir ekki ástæðu til að svara nafnlausum tölvupósti og verður þá bara svo að vera.  Hann hefur þá ekki góðan málstað að verja ef hann skýtur sér á bak við það, en maður væri hann að meiru, ef hann svaraði þessari gagnrýni.
 
 
Með kveðju og ósk um að Sigurgeir sjálfur fái þetta til aflestrar og svari á málefnalegum nótum.
 
Fæddur og uppalinn Vestmanneyingur.

Ritstjóri eyjar.net hefur þá reglu að birta ekki nafnlaus bréf nema í algjörum undartekningum. Ákveðið var að birta greinina hér að ofan nafnlausa í ljósi þess efnis sem greinin fjallar um.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.