ÁSTAND LUNDASTOFNS VESTMANNAEYJA

28.Júlí'08 | 17:03

Lundi

Á fundi Bjargveiðifélags Vestmannaeyja í gær lagði Erpur Snær Hansen fram greinagerð um ástand lundastofnsins í Vestmannaeyjum. Greinigerðina má lesa hér að neðan.

Varpi lunda var að mestu lokið 31. maí, sem er 10 dögum seinna en í venjulegu árferði (20. maí).  Til samanburðar má geta þess að varpi lauk 10. júní í fyrra, en varp hefur ekki verið seinna á ferð í þau 17 ár sem upplýsingar liggja fyrir (frá 1991). 

 Holunýtingarhlutfall er töluvert hærra í ár en í fyrra.  Leiðrétt hlutfall var í fyrra 45% (ath. endurskoðuð tala) sem þýðir að um helmingur varppara hreinsuðu holur en urpu ekki.  Í ár er þetta hlutfall 66% sem þýðir að um tæp 70% varppara urpu í ár.
 
 Lítið hefur fundist af "0" grúppu síli við Eyjar nú, en ekkert fannst í fyrra fyrr en eftir verslunarmannahelgi.  Þá varð vart við mjög vænt 0-grúppu síli í talsverðu magni.  Lundar hafa nú verið að bera "0" grúppur af loðnu, blákjöftu, síld og marsíli (síli) og ekkert hefur borið á næringarsnauðri sænál eins og í fyrra.  Í þessu sambandi vill undirritaður nota tækifærið til koma þeirri ósk á framfæri til allra veiðimanna að safna fæðusýnum af sílisfugli og setja í frysti eða kæli við fyrsta tækifæri og koma til Náttúrustofu eða Hafrannsóknastofnunar við fyrstu hentugleika.  Gildir þetta líka um fiska sem liggja í vörpum. 

 Varpárangur (klakárangur eggja og afkomu unga) er þokkalegur það sem er af er varptíma, aðeins hefur borið á "smávægilegum" afföllum, þ.e. ekki stöðugum dauða út allan varptímann eins og í fyrra.  Ef áframhaldið verður í sama takti, þá stefnir í að nýliðun verði í meðallagi. 

Starfsmenn Náttúrustofu hafa einnig mælt varphlutfall, varpárangur og fæðu í Ingólfshöfða, en þar er varp almennt fyrr á ferð en í Eyjum.  Í ár munaði þar á 3-4 vikum.  Lundi þar var talsvert að bera "0" grúppu loðnu og var varphlutfall samskonar og í Eyjum.  Varpárangur í Ingólfshöfða virðist hafa verið í meðallagi en úrvinnslu gagna er ekki lokið.  Álíka aðstæður þar veita von um að raunin verði svipuð í Eyjum. 

Rétt er að minnast á nýjustu fréttir frá Breiðafirði um mikinn pysjudauða og reyndar einnig frá Bjarnarey við Vopnafjörð.  Ef slíkt myndi gerast hér þá er lagt til að lundaveiðum yrði hætt strax. 
Í sílaleiðangri Hafrannsóknarstofnunar fannst minna af seiðum frá því í vor en í fyrra.  Þau voru svipuð af stærð og árið 2006 en minni en árið 2007. Eins og í fyrra fengust flest þeirra í Breiðafirði, en ekki er þó hægt að segja til um nýliðun þessa ár með neinni vissu fyrr en sést hvernig hún skilar sér sem 1 árs síli á næsta ári.  Í Breiðafirði eins og annars staðar jókst hlutfall eins árs sílis í aflanum, en þegar á heildina er litið þá fékkst minna magn af síli þar en undanfarin tvö ár.  Rétt er að taka fram að úrvinnslu á þessum gögnum er ekki lokið.  Sílaárgangur 2007 er mun stærri en árgangarnir 2005 og 2006, sem voru mjög lélegir.  Sérstaklega var aukning á eins árs síli áberandi á svæðinu frá Vestmannaeyjum að Vík, þar sem nær ekkert hefur fengist af síli síðastliðin tvö ár. Almennt má segja að sílastofninn hefur ekki náð sér enn á strik, en ástandið er mun betra en í fyrra sem var slæmt. 

 Aldurssamsetning lundaveiði 2008 sýnir að 2- og 3. ára árgangarnir frá 2005 og 2006 eru næstum horfnir úr veiðinni (Mynd 1, rauðar súlur).  Dræm aflabrögð í lundaveiði endurspegla ágætlega þessa 76% minnkun veiðistofnsins.  58% veiðinnar nú eru 4 ára fuglar sem hefðu hafið varp á næsta ári.  Varpfuglar (5 ára og eldri) eru 38% veiðinnar nú.  Til viðmiðunar er sýnd aldurssamsetning yfir 21 ára tímabil í Stórhöfða (grænar súlur) og árið 2007 með bláum súlum. 

Þessar niðurstöður staðfesta þá spá sem gefin var í skýrslu Náttúrustofu Suðurlands 16. apríl í ár (www.nattsud.is) og er veiðiráðgjöf óbreytt utan þess sem að hér ofan getur.
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.