Opnar mikla möguleika fyrir félagið að koma að rekstri safnsins

14.Júlí'08 | 13:31

Kári

Nýverið ákvað Vestmannaeyjabær að fela Sögusetri 1627 rekstur og umsjón með Byggðasafni Vestmannaeyja. Félagið mun sjá um safnið fram á haustið til að byrja með og á að endurskoða samninginn eftir þann tíma með það að markmiði að semja til lengri tíma, jafnvel þriggja ára. Hugmyndin er að félagið marki sér einn ákveðinn þátt í hinum nýju Sagnheimum Vestmannaeyjabæjar innan vébanda Byggðasafnsins og sjái um rekstur þess ákveðinn tíma með það að markmiði að liðsinna við eflingu þess.

Eyjar.net settist niður með Kára Bjarnasyni, stjórnarmanni í félaginu og ræddu við hann um aðkomu félagsins að safninu og framtíð Söguseturs 1627.  Okkar fyrsta spurning var hvað varð til þess að félagið kom að rekstri safnsins?
,,Vestmannaeyjabær setur á sínum tíma Vélasalinn á söluskrá en félagið hafði sýnt Tyrkjaránssýninguna þar áður. Gengum við því á fund bæjarstjóra og óskuðum eftir því að fá Vélasalinn lánaðan áfram til að geta haft sýninguna þar eða að sýningin fengi inni í Byggðasafninu. Ég, Sigurður Vilhelmsson, formaður félagsins og bæjarstjóri gengum hingað út og bæjarstjóri kom þar með þá óvæntu hygmynd að félagið tæki að sér safnið í sumar og kæmi jafnframt sýningunni fyrir innan vébanda safnsins".

Er þá um að ræða tilraunaverkefni í sumar og svo ákveðið eftir þann tíma hvort og þá hvernig Sögusetrið 1627 geti komið að safninu?
,,Við sömdum um aðkomu okkar fram á haustið og svo í framhaldi skoða báðir aðilar  hvort að það sé grundvöllur fyrir aðkomu félagsins að safninu næstu þrjú árin. Hugmyndafræðin þar er að taka sameiginlega á því verkefni að aðlaga Byggðasafnið að nútímanum og minnast Tyrkjaránsins þar með sýningu sem falli að safninu".

Hefur þá félagið ákveðið að slá á frest framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru í Dalabúinu?
,,Þessi tvö mál eru að því leyti óskyld að við  þurfum í raun og veru lengri tíma til að skoða þá framkvæmd í kjölinn og finna út hvernig við höfum efni á þeirri framkvæmd eða þá hvort við höfum yfir höfuð efni á þeirri miklu framkvæmd. Dalabúið mun allavega ekki rísa á næstu þrjú árin. Við sem áhugamannafélag um Tyrkjaránið þar sem stjórnarmenn  vinna allt sitt  í sjálfboðaliðsvinnu höfum hérna eignast samastað fyrir hugarefnið okkar. Hérna getum við búið til eitthvað aðdráttarafl fyrir Vestmannaeyjar með Tyrkjaránssýningunni".
,,Þetta fyrirkomulag að fela áhugamannafélagi að sjá um rekstur safnsins í umboði bæjarfélagsins er mjög spennandi kostur. Og í framhaldinu kemur meiri kraftur inn í félagið og um leið inn í safnið og Safnahúsið í heild sinni sem í dag kallast Sagnheimar".

Hvernig er þá starfsmannamálum háttað á safninu eftir aðkomu ykkar að safninu?
,,Það er fjórir starfsmenn hérna í sumar sem að við greiðum laun og bærinn greiðir til okkar ákveðna upphæð sem endurgreiðsluhlutfall launanna. Framlag bæjarins er  í samræmi við þá upphæð sem að bærinn lagði áður í safnið og félagið kemur með viðbótina inn í reksturinn. Sögusetrið  er á fjárlögum ríkisins, við fengum jafnframt styrk úr mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar, auk ýmissa annarra styrkja frá fyrirtækjum og hinu opinbera. Samtals höfum við halað inn um átta milljónir þetta árið, en gerum ekki ráð fyrir að næsta ár verði jafngjöfult. Segja má að þessi samningur um aðkomu okkar að safninu sé einfaldlega okkar leið til að skila inn í samfélagið því sem við erum að fá í þetta verkefni okkar".

Nú kemur ykkar félag að safninu með ákveðna áherslu á Tyrkjaránið og það sem því fylgir, en sjáið þið möguleika að leggja meiri áherslu á aðra þætti sem ekki beint tengjast ykkar áherslum?
,,Aðkoma okkar að safninu til lengri tíma er bundin því að hingað verði ráðinn safnstjóri sem taki Byggðasafnið að sér og aðlagi að nútímanum. Safnið er gott eins og það er en það er barn síns tíma og safnstjórinn fær það verkefni að færa safnið yfir á næsta þrep. Einn möguleiki er að enda þótt allir hlutir séu ekki til sýnis á safninum þá getir þú séð alla hlutina á tölvusjám ásamt upplýsingum um þá. jafnvel verði boðið upp á möguleika að bæta við upplýsingum um viðkomandi hlut, t.d. í samstarfi við Heimaslóð. En þetta eru allt pælingar sem þá fyrst taka flugið ef um semst til lengri tíma".

Sjáið þið fram á að önnur áhugamannafélög geti komið í framtíðinni enn meira að safninu eins og félagið ykkar hefur gert í dag?
,,Ég sé fyrir mér að með hinum nýju Sagnheimum þá myndist ákveðnir sagnagrunnar sem að áhugamannafélög geti komið að. Og þannig opnast möguleiki fyrir Sagnheimana sjálfa að tengjast inn í fleiri áttir í likingu við tenginguna við Sögusetrið. Á þann hátt sé ég fyrir mér að  sagnamenning Vestmannaeyja fái að blómstra og vera sýnilegri".

Frá því að félagið var stofnað og byrjað var að fjalla með ýmsum hætti um þennan part í okkar sögu, hafið þið þá orðið vör við vakningu hjá bæjarbúum um Tyrkjaránið og sögu þess?
,,Á þeim tveimur árum sem ég hef búið hér í Vestmannaeyjum finnst mér ég finna mikinn mun á áhuga bæjarbúa og meðvitund um sögu þess. Þessi meðvitundarvakning á sér ekki bara stað í Vestmannaeyjum heldur á öllu Íslandi.
Nýverið komumst við að því að það eru félög útum allan heim sem eru að fjalla um Tyrkjaránið út frá þeirra stöðum og sögu og næstu skref er að tengjast þessum félögum. Félagið ætlar að vera með ráðstefnu í haust þar sem við bjóðum t.d. til okkar dr. Bernard Lewis prófessor í Stamford sem er einn helsti fræðimaður um þessa sögu. Og einnig erum við að reyna að ná í fræðimann í Alsír sem er að rannsaka Tyrkjaránið út frá sjónarhorni "ræningjana" og það er alveg nýtt að fjallað sé um málið út frá þeirri hlið".

Horfir félagið eitthvað í þá möguleika að útbúa kennsluefni fyrir skóla til að  auðvelda aðgengi að kennsluefni um þennan tíma?
,,Við horfum í þá átt og Byggðasafnið og sú starfsemi sem er hér innan hús getur orðið stór liður í því að þjónusta skólakerfið enn betur en gert er í dag. Ég sé það fyrir mér að þróa einhvers konar námsefni sem kallar á það að nemendurnir komi hingað og upplifi aðstæður og söguna á staðnum".

Það er greinilegt á öllu að Sögusetur 1627 er öflugt félag og aðkoma þeirra að Byggðasafninu gerir félagið enn öflugra og um leið eflist Byggðasafnið.
Eyjar.net þakkar Kára Bjarnasyni kærlega fyrir að gefa sér tíma að setjast niður með okkur og fræða okkur um safnið og félagið og framtíðaráætlanirnar.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.