Fjölnismenn sigruðu baráttuglaða Eyjamenn

2.Júlí'08 | 22:39

Arnór ÍBV fótbolti

Fjölnismenn sem hafa komið liða mest á óvart í sumar í Landsbankadeildinni tóku á móti ÍBV á heimavelli sínum í 16 liða úrslitum Visa-bikarkeppninnar á Fjölnisvelli í kvöld.

Eyjamenn sýndu í upphafi leiks að það er engin tilviljun að liðið trjónir í efsta sæti 1. deildar og náðu forystunni strax eftir tíu mínútna leik.

Sofandaháttur í varnarleik heimamanna varð til þess að gestirnir náðu að senda knöttinn inn í vítateig og þar kom hinn stóri og stæðilegi fyrirliði Eyjamanna Andri Ólafsson á fullri ferð og stangaði boltann í netið. Algjörlega óverjandi fyrir Hrafn Davíðsson markvörð Fjölnismanna.

Grafarvogspiltar voru mjög ólíkir sjálfum sér og náðu engan veginn því lipra spili sem þeir hafa svo oft sýnt í efstu deild í sumar. Eyjamenn voru hins vegar mjög ákveðnir og miklu betri aðilinn í fyrri hálfleik.

Minnstu munaði að gestirnir kæmust tveimur mörkum yfir á 34. mínútu þegar Eyjamenn fengu aukaspyrnu á hægri kantinum, boltinn barst inn í vítateig þar sem Pétur Runólfsson skallaði knöttinn en aðeins stórkostleg markvarsla Hrafns kom heimamönnum til bjargar.

Gestirnir urðu hins vegar fyrir áfalli rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar Ingi Rafn Ingibergsson fékk sitt annað gula spjald hjá Kristni Jakobssyni góðum dómara leiksins og Eyjamenn því einum leikmanni færri það sem eftir lifði leiks. En það breytti ekki stöðunni sem var 0-1 fyrir ÍBV í leikhléi.

Tómas Leifsson kom inná í liði Fjölnis strax í upphafi seinni hálfleiks og freistaði Ásmundur Arnarsson þjálfari að hressa uppá sóknarleik liðsins sem var vægast sagt dapur í fyrri hálfleiknum.

Leikur heimamanna skánaði eftir því sem á leið og sóknarlotur þeirra báru loks árangur á 79. mínútu þegar Ólafur Páll Snorrason sendi fyrir markið þar sem Gunnar Már náði föstum skalla, Albert Sævarsson í marki Eyjamanna tókst ekki að halda knettinum og Ómar Hákonarson fylgdi eftir og jafnaði metin 1-1.

Það var á brattan að sækja fyrir gestina frá Eyjum enda einum leikmanni færri en þeir áttu þó mjög hættulegt tækifæri á 88. mínútu þegar varamaðurinn Gauti Þorvarðarson skaut rétt framhjá marki heimamanna og Fjölnispiltar sannarlega heppnir þar.

Ekki urðu mörkin fleiri í venjulegum leiktíma og þurfti því að grípa til framlengingar. Þar reyndust Fjölnismenn betri enda kannski ekki við öðru að búast, leikmanni fleiri.

Ólafur Páll Johnson fékk gullið tækifæri á 109. mínútu þegar hann komst einn gegn Alberti Sævarssyni markverði Eyjamanna en á einhvern óskiljanlegan hátt tókst pilti ekki að koma knettinum í netið.

En eitthvað varð undan að láta og Fjölnismönnum tókst að skora skömmu síðar þegar Ómar Hákonarson náði forystunni fyrir heimamenn eftir mikla baráttu í teignum.

Fjölnismenn náðu þar með að knýja fram sigur og eru komnir í átta liða úrslit. En Eyjamenn þurfa ekki að skammast sín fyrir sína frammistöðu, þeir börðust hetjulega og næsta víst að liðið á góða möguleika á sæti í efstu deild með svona góðum leik.

--------------------------------------------------------------------------------

Byrjunarlið Fjölnis: Hrafn Davíðsson (M), Gunnar Valur Gunnarsson (F), Pétur Georg Markan, Gunnar Már Guðmundsson, Ómar Hákonarson, Ólafur Páll Johnson, Ólafur Páll Snorrason, Ásgeir Aron Ásgeirsson, Óli Stefán Flóventsson, Kristján Hauksson, Eyþór Atli Einarsson.

Varamenn: Þórður Ingason (M), Magnús Ingi Einarsson, Tómas Leifsson, Davíð Þór Rúnarsson, Illugi Þór Gunnarsson, Andri Valur Ívarsson og Geir Kristinsson.

Byrjunarlið ÍBV: Albert Sævarsson (M), Þórarinn Ingi Valdimarsson, Andri Ólafsson (F), Pétur Runólfsson, Anton Bjarnason, Bjarni Rúnar Einarsson, Egill Jóhannsson, Arnór Eyvar Ólafsson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Ingi Rafn Ingibergsson, Kristinn Baldursson.

Varamenn: Guðjón Magnússon (M), Atli Heimisson, Guðjón Ólafsson, Italo Jorge Maciel, Augustine Nsumba, Gauti Þorvarðarson og Elías Fannar Stefnisson.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.