Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir reglur um nytjar á lunda

1.Júlí'08 | 08:42

Lundir lundar

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær voru samþykktar reglur um nytjar á lunda fyrir komandi lundaveiðitímabil. Um er að ræða tilraun til að bregðast við slæmum varpárangri lundastofnsins í Vestmannaeyjum á undaförnum árum og um leið að styðja við eftirlit og rannsóknir á stofninum.

Bjargveiðimenn hafa nýverið samþykkt að stytta lundaveiðitímabilið og munu þeir hefja veiðar 10.júlí í stað 1.júlí áður. Í eðlilegu árferði hefur veiði staðið til 15.ágúst en bjargveiðimenn hafa ákveðið að lundatímabilið standi til 31.júlí. Ákveðið hefur verið að endurskoða þá dagsetningu í lok júlí og framlengja þá tímabilið inn í ágúst mánuð.

Í reglum þeim er bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í gær segir m.a. að veiði á heimalandinu verði bönnuð með öllu nema í gegnum veiðifélög sem hafa umsjón og eftirlit með veiðunum og greiði gjald fyrir nytjarétt líkt og önnur úteyjarfélög.

Í greinagerð bæjarstjórnar með nýju reglunum segir m.a.  að lundaveiði sé mikilvægur hluti af menningu Vestmannaeyja og því telur Bæjarstjórn Vestmanneyja nauðsynlegt að bregðast við til að sporna við frekari minnkun lundastofnsins í Vestmannaeyjum og um leið auka líkur á sjálfbærri nýtingu stofnsins um ókomin ár.


Reglur um nytjar lunda eru svohljóðandi:

1. grein
Lundaveiðar verða heimilaðar á tímabilinu frá 10 júlí til og með 31. júlí 2008. Ákvörðun um framhald veiða verður tekin í kjölfarið á fundi Bjargveiðifélags Vestmannaeyja sem haldin verður 27. júlí og í samráði við Náttúrustofu Suðurlands.

2. grein
Öllum veiðimönnum og veiðifélögum er skylt að skila veiðitölum til Náttúrustofu Suðurlands í lok veiðitímabilsins, eigi síðar en 1. september 2008.


3. grein
Allur afli  skal vera aðgengilegur vísindamönnum hjá Náttúrustofu Suðurlands til aldursgreininga og rannsókna.

4. grein
Veiði á heimalandinu verður bönnuð með öllu nema í gegnum veiðafélög sem hafa umsjón og eftirliti með veiðunum og greiði gjald fyrir nytjarétt líkt og önnur úteyjarfélög.


5. grein      
Í almenningi, Sæfjalli, geta allir veitt sem hafa veiðikort. Veiðimenn sem veiða í almenningi ber að skila aflatölum til Náttúrustofu Suðurlands í lok veiðitímabilsins. Ekki þarf að vera meðlimur í sérstöku veiðifélagi til að mega stunda veiðar í almenningi.

6. grein
Þau félög sem ekki fylgja þessum reglum missa veiðiréttinn og verður sagt upp leigu á nytjarétti á viðkomandi svæði eða eyju.


7. grein
Þeir einstaklingar sem ekki fylgja reglum er varða veiðar í almenningi (sbr. 5. grein) munu ekki fá heimild til að stunda veiðar á ný.
Reglurnar gilda fyrir veiðitímabilið 2008 og verða þær endurskoðar fyrir næsta veiðitímabil með hliðsjón af reynslunni í ár.

Greinagerð

Á opnu málþingi um ástand lunda- og sandsílastofnanna við Vestmannaeyjar sem haldið var á vegum Náttúrustofu Suðurlands þann 20. apríl sl. komu fram miklar áhyggjur af lundastofninum í Vetsmannaeyjum. Samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar bendir allt til þess að vöntun á 0 grúpu síli, sem er uppistaðan í fæðu pysjunnar fyrstu vikuna eftir klak, hafi leitt til þess að varpárangur lundastofnsins við Vestmanneyjar hefur misfarist á undanförnum árum.  Veiðistofninn samanstendur af tveggja til fjögra ára gömlum fugli og miðað við varpárangurinn undanfarin ár má ætla að veiðistofninn í ár verði með minnsta móti.

Á fundi Bjargveiðifélags Vestmannaeyja sem haldinn var þann 13. maí sl. var samþykkt að stytta veiðitímabilið í ár og jafnframt hvatti félagið veiðimenn til þess að halda veiðinni í lágmarki og láta lundann njóta vafans.

Tillaga Bæjarstjórnar Vestmannaeyja fer að fullu eftir ráðgjöf bjargveiðifélagsins varðandi styttingu veiðitímabilsins en til þess að allir sitji við sama borð telur Bæjarstjórn Vestmannaeyja nauðsynlegt að setja einnig ofangreindar reglur um nytjarétt á heimalandinu.

Lundaveiði er mikilvægur hluti af menningu Vestmannaeyja og því telur Bæjarstjórn Vestmanneyja nauðsynlegt að bregðast við til að sporna við frekari minnkun lundastofnsins í Vestmannaeyjum og um leið auka líkur á sjálfbærri nýtingu stofnsins um ókomin ár.

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is