Megin tilgangur félagsins í dag er því að stuðla að fjölskrúðugra lífi í Eyjum með ýmsum uppákomum

24.Júní'08 | 11:19

Vinir ketils bónda, VKB LOGO

Einn er sá félagsskapur sem glatt hefur margan manninn síðustu ár með skemmtilegum uppákomum í bæjarfélaginu. Vinir Ketils Bónda er félagsskapur sem um þessar mundir fagnar því að félagið er að verða 10 ára. VKB mun fagna þessum tímamótum næstu helgi með því að halda veislu matar og skemmtunar enda félagsmenn annálaðir gleðimenn.

Eyjar.net hafði samband við háttvirtan forseta VKB og sendi nokkrar spurningar á hann til að forvitnast um félagið og sögu þess.

Nú er félagið Vinir Ketils Bónda tíu ára um þessar mundir, hvert er upphaf félagsins og hver er tilgangur þess?
Bræðrafélagið Vinir Ketils Bónda hóf líf sitt, eins og svo mörg önnur góð félög, sem búningagrúbba á Þjóðhátíð. En fljótlega sáu menn hversu gífurlegur mannauður væri fólgin í þeim sem fylltu raðir félagsins. Því komu snemma upp stórar og metnaðarfullar hugmyndir um hvað félagið gæti lagt af mörkum til bæjarlífsins í Eyjum.

Megin tilgangur félagsins í dag er því að stuðla að fjölskrúðugra lífi í Eyjum með ýmsum uppákomum sem sprottnar eru upp úr sama stórhug og tilvist félagsins. Uppákomum eins og Reimleikum, Þroskahefti og árlegri bálför okkar bræðra á Helgafell, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess að efla og viðhalda tengslin milli meðlimanna, enda félagið upprunalega sprottið upp úr stórum en samheldnum vinahóp sem hefur, eins og gengur og gerist, tvístrast út um allar koppagrundir. En VKB er einmitt tilvalinn vettvangur til að passa upp á og rækta böndin milli manna.

Hver er þessi Ketill Bóndi?
Blessuð sé minning hans.
Ketill var okkur kær og mikill vinur, ákveðinn samnefnari þeirra manna sem upprunalega stóðu að stofnun þessa félags. Hann hvarf okkur þó langt fyrir aldur fram, og eru meira að segja margir í félaginu í dag sem aldrei urðu þeirra forréttinda aðnjótandi að kynnast Katli.

Í virðingarskyni við Ketil og minningu hans höfum við miðað afmæli félagsins við þá dagsetningu er við kynntumst honum fyrst, þegar þeir Borgþór og Andri Hugo gengu fram á hann illa haldinn við Hásteinsveginn og höfðu hann með sér í partý til Guðlaugs þar sem hann braggaðist fljótt og náði sér að fullu. Það var 29. júní 1998.

Hvað eru félagar margir í VKB og hvernig eru félagar valdir inn í félagið?
Það eru nú nokkur áhöld um nákvæma tölu meðlima, eftir því hvort farið sé eftir ströngustu túlkun á reglum þess eða ekki. En ef allir eru taldir erum við 30 talsins auk 5 heiðursmeðlima.

Eins og reglunum er háttað í dag verða áhugasamir að sækja um inngöngu í raðir félagsins minnst viku fyrir aðalfund og tryggja sér meðmæli minnst tveggja meðlima, sem tilbúnir eru að tala máli þeirra á aðalfundinum. Svo er kosið leynilegri kosningu þar sem 70% þeirra sem kjósa þurfa að samþykkja viðkomandi.

Nú eruð þið áberandi í kringum þjóðhátíðina, má búast við einhverju nýju fyrir þessa hátíð frá VKB?
Eins og ávallt eru uppi miklar og stórar hugmyndir innan félagsins, og ef einungis brot af þeim verður að veruleika má fólk búast við glæsilegustu Þjóðhátíð síðustu ára. En þar sem það er allt ennþá á afar viðkvæmu stig get ég ekkert opinberað um þær hugmyndir enn sem komið er.
En fólk getur ávalt gengið að okkur vísum í stærsta Þjóðhátíðartjaldi í heimi með glæsilegustu myndasýninguna í Dalnum auk þess sem við reisum stoltir fallegasta mannvirkið í Dalnum. Svo situr einnig ritnefnd félagsins með sveitta skalla þessa dagana yfir undirbúningsvinnu að nýju Þroskahefti.

Í Þroskahefti VKB fyrir einhverjum árum var auglýstur áfengur drykkur og sýslumaður hugsðist kæra ykkur, hver var niðurstaða þess máls?
Það var allt einn stór og leiðinlegur misskilningur, sem leystist yfir góðu kaffispjalli við Karl Gauta.
Við sáum svo líka vel hvernig þetta gæti misskilist og sáum að okkur og komum ekki til með að gera einhverjar bommertur sem þessa á næstunni.

Þið hafið undanfarin ár séð um byggingu Vitans í Dalnum og nú þegar myllan er brunninn má búast við að þið munið bjóða fram ykkar aðstoð við endurhönnun og byggingu myllunnar?
Ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara með þessa myllu, en gerir ráð fyrir því að þú sért að tala um klósettviftuna. En jú jú, við erum svo sem bæði boðnir og búnir að leggja okkar að mörkum svo að nýtt og glæsilegt mannvirki geti risið í stað viftunnar.

Ætli Dalurinn myndi ekki sóma sér vel með tvo Vita?
Í það minnsta skilst mér að góðvinur minn Tryggvi Már Sæmundsson hafi í umboði Þjóðhátíðarnefndar farið á virta vitasýningu í Póllandi nú fyrir skemmstu þar sem hann hafi verið að svipast um eftir heppilegum arftaka viftunnar. Enda með öllu ótækt að hafa stærðarinnar viftu staðsetta við hlið klósettanna til þess eins að blása skítafýlunni yfir tjöldin.

Næstu helgi verður mikil hátíð í tilefni afmælis VKB, hvernig verður afmælinu fagnað?
Við munum halda mikla veislu matar og skemmtunar, þar sem við bjóðum uppá dýrindis hlaðborð að hætti meistarakokksins Einars Björns auk einstakra skemmtiatriða úr smiðju okkar VKB-bræðra sem koma til með að gleðja bæði og bræða hjörtu viðstaddra. Svo mun Tríkot, hljómsveit allra Eyjamanna, leika fyrir dansi að borð- og skemmtanahaldi loknu.

Hvernig verður Reimleikum VKB háttað í ár?
Eftir einstaklega vel heppnaða Reimleika í fyrra, þrátt fyrir litla mótspyrnu Fyrirmyndar bílstjóra, ákváðum við að opna keppnina fyrir öðrum áhugasömum grúbbum í Eyjum. Eitthvað virðast þó félögin í Eyjum rög við að taka þátt. Enda svo sem ekki að furða miðað við hvað við fórum illa með Fyrirmyndar bílstjórana í fyrra. En ef næg þátttaka fæst þá erum við allt eins líklegir að draga okkur úr keppni og að láta öðrum eftir sviðið.
En að öllu óbreyttur fara leikarnir fram sama dag og við höldum upp á afmælið, það er laugardaginn 28. júní.
Áhugasömum er bent á að hafa samband við Gunnar Má Kristjánsson, forsvarsmann Reimleikanna, í síma 697-5182 og tilkynna þátttöku sína, þetta eru síðustu forvöð.

Eitthvað að lokum?
Að lokum vil ég svo bara óska Eyjamönnum öllum innilega til hamingju með 10 ára afmæli VKB og bjóða þeim að samfagna okkur á laugardaginn. En þessi veisla er opinn öllum vinum og velunnurum félagsins fyrir litlar 4.000 kr.

Þeir sem hafa hug á að mæta eru þó vinsamlegast beðnir um að hafa samband við mig í síma 867-8212 eða Borgþór í síma 663-3493 sem fyrst, svo við getum gert okkur einhverja hugmynd um mætingu þannig að það verði örugglega nægur matur í boði fyrir alla.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.