Lundavarpið fyrr í ár en í fyrra

21.Júní'08 | 06:54

Lundir lundar

LUNDAVARP í Vestmannaeyjum er nú um tíu dögum seinna á ferðinni en í meðalári en samt tíu dögum fyrr á ferðinni en það var í fyrra, að sögn Erps Snæs Hansen, sviðsstjóra vistfræðirannsókna hjá Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum

Hefðbundinn varptími lunda er í kringum 20. maí. Athuganir með holumyndavél virðast gefa til kynna að varpið fari svipað af stað nú og í fyrra, þegar varp var í um 40% lundaholna sem skoðaðar voru með vélinni. Erp grunar að lundinn hafi í einhverjum tilvikum hætt við varp, ef til vill vegna ætisskorts. Í fyrra drapst mjög mikið af lundapysjum áður en þær komust á legg, líkast til vegna ætisskorts. Talið er að þá hafi aðeins um 6% lundapara í Eyjum komið upp ungum.

Erpur og samstarfsmenn hans hafa heimsótt lundabyggðir í Eyjum undanfarið. Búið er að fara í fjórar lundabyggðir hringinn í kringum Stórhöfða á Heimaey og eins er búið að fara í Álsey og Ystaklett. Í dag er ætlunin að heimsækja lundana í Elliðaey. Tekin eru reitasnið, yfirleitt 250 m löng og 5 metra breið, og allar lundaholur innan þeirra taldar. Síðan er metið hve margar holur eru virkar, það er hvort í þeim eru lundar. Í vor hefur það hlutfall verið metið 60-70% eins og í fyrra. Þá eru valdar 50 holur í einum eða tveimur reitum og skyggnst inn í þær allar með myndavél til að ganga úr skugga um í hve mörgum er orpið. Erpur benti á að enn væri verið að rannsaka varp lundans og niðurstöður því ekki endanlegar. Hann kvaðst giska á að varp í 70-80% lundaholna væri nálægt því sem ætti að vera við eðlilegar aðstæður.

Í skýrslu Erps um ástand lundastofnsins 2008, sem kom út 18. apríl og hægt er að lesa á heimasíðu Náttúrustofu Suðurlands, telur hann ráðlegt að friða lundann fyrir veiðum í ár eða að öðrum kosti að draga verulega úr veiðum. Bjargveiðimenn í Vestmannaeyjum hafa lagt fram tillögur um að stytta veiðitímann.

Í hnotskurn
» Nýliðun lunda í Vestmannaeyjum var mjög lítil á árunum 2005-2007.
» Slæm viðkoma lundans var einkum rakin til ætisskorts en óvenjulítið var af sandsíli.
» Gerðar hafa verið rannsóknir á sandsíli við Vestmannaeyjar og víðar og verður þeim haldið áfram.
» Stór síli hafa sést en lundapysjurnar geta ekki torgað nema litlu síli, á 1. og 2. ári. Ekki er búist við stórum árgangi síla í sumar.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.