Ferja í Landeyjahöfn

31.Maí'08 | 07:30

Bakkafjöruferja

Í Morgunblaðinu í morgun er birt greinargerð frá Hermanni Guðjónssyni, siglingamálastjóra varðandi útboð á ferju sem sigla á milli lands og eyja.

„Árum saman hafa verið uppi hugmyndir um greiðari samgöngur milli lands og Eyja. Eftir miklar umræður er undirbúningur fyrir ferjuhöfn í Bakkafjöru á Landeyjasandi nú á lokastigum og gera áætlanir ráð fyrir að ferjusiglingar milli lands og Eyja hefjist haustið 2010. Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu er Siglingastofnun Íslands ljúft og skylt að lýsa hvernig staðið hefur verið að undirbúningi Landeyjahafnar og útboði á ferjusiglingum milli Vestamannaeyja og Bakkafjöru.

Hinn 14. júlí 2006 skipaði samgönguráðherra stýrihóp sem hafði umsjón með forathugun og forhönnun ferjuhafnar í Bakkafjöru á Landeyjasandi. Í skýrslu hópsins er fjallað um þær vísindalegu rannsóknir sem liggja til grundvallar, framkvæmdahliðina og áhrif á þróun byggðar og umhverfis. Niðurstöður stýrihópsins byggðust á samvinnu við innlenda og erlenda sérfræðinga.

Í stuttu máli sýna niðurstöður athugana að unnt er að byggja ferjuhöfn á Bakkafjöru og ferjusiglingar milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja muni verða mjög til bóta fyrir mannlíf í Eyjum og styrkja innviði á Suðurlandi. Ferðatími á sjó styttist verulega, úr tæpum 3 klst. í rúmar 30 mínútur. Þetta verður mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu í Eyjum. Einnig er bent á möguleika á aukinni fjölbreytni atvinnulífs í Eyjum og styrkingu samstarfs og þjónustu við fastalandið.

Frá upphafi hefur Siglingastofnun Íslands borið hitann og þungann af margra ára vísindalegum rannsóknum á hafnargerð í Bakkafjöru en fjölmargir aðilar hafa lagt fram vinnu við verkefnið, s.s. DHI (Danmarks Hydraulisk Institut), jarðfræðistofan Stapi, danska verkfræðistofan COWI, verkfræðistofan Navís, DNV (Det Norske Veritas), Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst, Landgræðsla ríkisins, Vegagerðin og vinnuhópur frá Vestmannaeyjabæ og Rangárþingi.

Framlag Siglingastofnunar til verkefnisins byggist á mikilli sérfræðiþekkingu í hafnagerð, áratugalangri reynslu og rannsóknum sem hefur hlotið verðskuldaða athygli á alþjóðavísu. Meðal annars hafa líkantilraunir sem stofnunin nýtir við undirbúning hafnarmannvirkja borið góðan árangur allt frá upphafi. Við val á staðsetningu hafnar í Bakkafjöru og útfærslu voru skoðaðar margar hugmyndir. Gerðar voru ítarlegar rannsóknir til að ákvarða staðsetningu og útfærslu hafnar. Stuðst var við öldumælingar, sýnatöku í botni, efnisburðarrannsóknir og reynslu sjómanna úr Eyjum og Grindavík. Lagðar voru til grundvallar kröfur hvað varðar ölduhæð og strauma í hafnarmynni og ölduhreyfingu í ferjulægi. Gert er ráð fyrir að hafnarmynnið inn í Landeyjahöfn verði með því breiðasta sem þekkist hér á landi. Við ákvörðun á staðsetningu og formi hafnar var haft að í leiðarljósi að hún raski ekki náttúrulegu jafnvægi efnisburðar við ströndina heldur verði í sátt við náttúruna.

Sumir hafa haft miklar efasemdir um þessa framkvæmd. Meðal annars hafa verið notuð þau rök að vísa í 40 ára gamla hafnarframkvæmd í Grímsey. Sú framkvæmd var bæði unnin af vanefnum og án undirbúningsrannsókna og líkantilrauna. Því er samanburður á þessum tveimur framkvæmdum hvorki sanngjarn né eðlilegur.

Greinagerðina er hægt að lesa í heild í Morgunblaðinu í dag

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.