Opið bréf til Kristjáns Möller samgönguráðherra

23.Maí'08 | 08:12

Bakkaferja Samgöngur

„Háttvirti samgönguráðherra.
Svo virðist sem undirbúningsvinna við fyrirhugaða Bakkafjöruferju hafi tekið sömu stefnu og leiddi til umtalaðs skipsbrots á öllu ákvörðunar- og vinnuferli við Grímseyjarferjuna. „Sjóprófum" vegna Grímsævintýra er tæpast lokið, en nánast sama „áhöfn" siglir núna hraðbyri í svipað strand með Bakkafjöruferju.

Nafni núverandi verkefnis hefur verið breytt frá því að vera Bakkafjöruhöfn yfir í Landeyjahöfn. Þar náðist að sveigja frá þeim háskaboða að auðvelt væri að tengja verkefnið við þá Bakkabræður, því öll vinnubrögð virðast bjóða upp á það.

Ég tengist engum viðskiptaböndum einum eða neinum af þeim aðilum sem tengjast þessum málum. Ég hef siðferðislega skyldu sem íslenskur skattgreiðandi að upplýsa um aðsteðjandi hættur í málefnum á mínu sérsviði. Ég er menntaður skipatæknifræðingur og viðskiptafræðingur og starfa sem ráðgjafi fyrir mörg helstu útgerðarfyrirtæki landsins. Sem slíkur hef ég í um 25 ár tekið þátt í fjölmörgum framkvæmdum sem tengjast skipum, skipasmíðum, breytingum á skipum og rekstri skipa. Aðkoma mín að slíkum málum nær allt frá frumvinnslu svo sem; þarfagreiningu, útboðum, hönnun, eftirliti, innkaupum á búnaði og öðru sem tengist skipasmíði og rekstri skipa, að því að smíða sjálfur skip og afhenda þau fullbúin til viðskiptavina.

Tilgangur minn er vinsamlegur og þjónar engum öðrum tilgangi en að varpa ljósi á atriði sem ég tel ámælisverð við Grímseyjarferjumálið og hvernig hliðstæð nálgun virðist ætla að einkenna undirbúningsvinnu við Landeyjahöfn.

Grímseyjarferja
Niðurstaða framkvæmda við Grímseyjarferju var allt hið versta mál og virðist hafa farið tæp 350% fram úr áætlunum í bæði kostnaði og tíma. Ýmsar ástæður voru fyrir því klúðri öllu og hefur flest af því komið fram í umræðum en þó ekki allt. Það er skoðun mín að ekki sé hægt að forðast sömu mistök, nema þau séu efnislega skilgreind. Kaupin á Grímseyjarferjunni voru gerð án faglegrar forvinnu og með slæmri fagráðgjöf.

En á eftir kaupunum kom röð af mistökum sem lúta að hönnun, eftirliti og framkvæmd þeirra breytinga sem á ferjunni voru gerðar. Ég og samstarfsmaður minn sögðum okkur frá því að taka að okkur vinnu í tengslum við Grímseyjarferjuna þegar óskað var eftir því við okkur í upphafi verksins. Ástæður þess að við tókum það ekki að okkur var vanmat aðstandenda að verkefninu á framkvæmdunum, væntanlegum kostnaði og tímaþætti. Við vildum ekki setja faglegt orðspor okkar á það verk, til þess eins að þóknast draumórakenndum og óraunhæfum væntingum hins opinbera, sem virtust hafa þann tilgang einan að bæla niður óskir Grímseyinga um bættar samgöngur, með sem minnstum tilkostnaði.

Ráðgjafarfyrirtækið Navís ehf. tók að sér þau ráðgjafarstörf og vann útboðsgögn fyrir Grímseyjarferju. Verktakar buðu í verkið samkvæmt þessum gögnum. Með vitneskju um slök fagleg gæði þessara útboðsgagna og innsýn í svona framkvæmdir þá fylgdist ég með þróun þessa einstaka máls sem Grímseyjarferjan var.

Það sem gerðist með Grímseyjarferjuna er í rauninni ofureðlilegt í ljósi ófaglegra vinnubragða og má í stuttu máli taka saman í eftirfarandi:

(1) Stjórnsýslan var með fyrirfram mótaðar skoðanir um hvað ætti að gera og hvað það ætti að kosta, og setur undir sig hausinn til að keyra það í gegn með öllum tiltækum ráðum og með ráðgjöfum sem eru tilbúnir að taka slíkt að sér.

(2) Undirbúningur er hroðvirknislegur og slæmur og útboðsgögnin sem verktakinn býður í gefa falska mynd af verkinu.

(3) Sami ráðgjafi og vann hroðvirknisleg útboðsgögn fer með fageftirlit með verktakanum og áframhaldandi ráðgjöf við stjórnsýsluna. Þessi ráðgjafi er því nokkurs konar miðpunktur og er tengiliður í allar áttir þ.e. á milli aðalverktakans og sjórnsýslunnar, og annarra sem að málinu koma.

(4) Kostnaður og tímaþáttur við framkvæmdina fer tæp 350% fram úr áætlunum og verktakinn, Vélsmiðja Orms og Víglundar, endar sem blóraböggull. Allir beina spjótum sínum í þá átt og sammælast um að hann sé ekki heiðalegur í kröfum sínum um greiðslu. Bölvaðir ormarnir með sína vígalund!

Hér að ofan gleymist að taka inn mannlegan áhrifaþátt og setja í samhengi við framkvæmdina. Stjórnsýslan og ráðgjafinn telja sig hafa sameiginlega hagsmuni sem felast í því að hylja langa slóð sinna mistaka, sbr. lið (1) og (2) hér að ofan. Ráðgjafinn í hlutverki eftirlitsaðila og sameiginlegs tengiliðs sbr. liður (3) nýtir stöðu sína og faglega leikni til varnar sameiginlegum hagsmunum sínum og verkkaupa, þ.e. að hindra það að „grúturinn" komi upp á yfirborðið.

Það er athyglisvert að skoða þessar kenningar í tölulegu samhengi. Bókfærður heildarkostnaður við Grímseyjarferjuna er 533 milljónir. Ef rýnt er í greinargerð Vegagerðarinnar þá kemur fram að kostnaður ráðgjafans vegna útboðs, hönnunar og samningaferlis er 4,3 milljónir. Kostnaður við eftirlit á viðgerðartíma og sérfræðiþjónustu rúmar 40 milljónir. Eftirlitskostnaður og sérfræðiþjónusta er sem sagt um 1000% hærri en kostnaður vegna útboðs, hönnunar og samningaferlis. Samanlagt er þessi ráðgjafarkostnaður tæp 9% af heildarkostnaði að meðtöldu kaupverði skipsins, eða tæp 11% af heildarkostnaði án tillits til kaupverðs skipsins. Viðtekin viðmið innan skipageirans er að eðlileg hlutdeild slíkrar þjónustu s%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.