Hlynur staðfestir framboð sitt til formennsku í HSÍ

17.Maí'08 | 08:41

Hlynur Sigmarsson

Hlynur Sigmarsson frá Vestmannaeyjum staðfesti nú síðdegis að hann myndi bjóða sig fram gegn Guðmundi Ingvarssyni í kjöri formanns Handknattleikssambands Íslands á ársþingi sambandsins sem haldið er á morgun.
Eftir áralangt starf fyrir handknattleiksdeild ÍBV gaf undirritaður kost á sér til stjórnarsetu fyrir HSÍ s.l. vor og hef ég starfað innan stjórnar HSÍ síðan. Stjórnarsetan hefur verið mjög gefandi og lærdómsrík. Margt er vel gert í stjórn HSÍ og tel ég að handboltafólk sé mjög heppið með þá starfsmenn sem vinna á skrifstofu HSÍ. Einnig vinnur gríðarlega mikið af góðu fólki fyrir handboltann í ráðum og nefndum á vegum HSÍ.

Handknattleikur á Íslandi stendur á ákveðnum krossgötum. Félögum sem halda úti m.fl. hefur farið ört fækkandi og áhorfendum á leiki í deildakeppnum hefur einnig fækkað jafnt og þétt. Frá leiktíðinni 1985-1986 hefur meistaraflokksliðum í karla- og kvennahandknattleik fækkað um 17. Samt sem áður eigum við A-landslið karla í fremstu röð og kvennalandsliðið er í sókn.

Árangur A-landsliðanna í dag er ekki mér eða öðrum núverandi stjórnarmönnum HSÍ að þakka heldur afrakstur þess starfs sem félögin á Íslandi og stjórn HSÍ vann fyrir 10-20 árum síðan þegar núverandi landsliðsmenn ákváðu að leggja stund á handknattleik. Fyrir rúmlega 20 árum síðan vorum við með 42 meistaraflokkslið í handknattleik, en vorum með 25 á síðustu leiktíð.

Það er ekki sjálfgefið að Ísland muni eiga landslið í fremstu röð í framtíðinni og ljóst að mun minni líkur eru á því að okkur takist að ala upp íslenska afreksmenn í handknattleik þegar 25 meistaraflokkslið eru starfrækt en ef þau væru 42 eins og fyrir rúmlega 20 árum. Með fleiri iðkendum eykst áhugi og áhorf. Þessir þættir haldast í hendur.

Þessari þróun verður ekki snúið við á einni nóttu en það er áríðandi að taka upp nýjar áherslur strax og skipuleggja hvernig við ætlum að auka veg handboltans.

Handknattleiksforystan verður að hafa forgöngu um að auka vinsældir handboltans með það að markmiði að fjölga áhorfendum á kappleikjum. Ég hef sterkar skoðanir á því hvernig við getum stuðlað að auknum vinsældum handboltans og þar á ég við áhugan á deilda- og bikarkeppnunum.

Í fyrsta lagi þarf að taka sjónvarpsréttarmálin til endurskoðunar. Við þurfum að skilgreina hvernig umfjöllun við viljum fá í sjónvarpi og setja okkur samningsmarkmið. Ganga á til viðræðna þar sem lagt er mat á hvað sjónvarpsstöðvarnar eru tilbúnar til að gera fyrir handboltann, en ekki hvort þær eru tilbúnar til að borga milljóninni meira fyrir sýningarréttinn. Hér verðum við að líta til framtíðar en ekki tjalda til einnar nætur.

Við þurfum að kortleggja hvað við getum gert til að auka aðgengi fjölmiðla að upplýsingum og áhugaverðu efni um handboltann. Leikdagar og tími þurfa að taka mið af þörfum áhorfenda og fjölmiðla. Það er einnig brýnt að sambandið starfræki öfluga heimasíðu og hef ég hug á að færa heimasíðu HSÍ inn í 21. öldina.

Verkefnin eru mörg og krefjandi. Ég sé ekki fram á að geta unnið með myndarskap að þeim málum sem eru mér hugleikin sem stjórnarmaður. Til að koma mínum málum á dagskrá þarf ég að hafa frekara umboð aðildarfélaganna.


Því hef ég ákveðið að standa við þá ákvörðun mína er ég tók fyrir þrem vikum síðan að bjóða mig fram til formanns HSÍ á komandi ársþingi sem fram fer á morgun.


Ég ber mikla virðingu fyrir Guðmundi Ingvarssyni og tel að hann hafi unnið gott starf fyrir HSÍ að mörgu leyti. Framboð mitt snýst um áherslur og stefnu HSÍ. Ég tel brýnt að koma á áherslubreytingum hjá HSÍ í þá veru að hlúa betur að grasrótinni og gera formann HSÍ meiri þáttakanda og sýnilegri í innra starfinu.

Verð ég kjörinn formaður HSÍ lofa ég handknattleiksfólki að vinna heilshugar að því að efla handknattleik á Íslandi.

Reykjavík, 16. maí 2008.


Með handboltakveðju,


Hlynur Sigmarsson

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.